Af hverju voru Íslendingar blekktir?

frettinCOVID-19, Helgi Örn Viggósson, Jóhannes LoftssonLeave a Comment

Eftir Jóhannes Loftsson og Helga Örn Viggósson:

Sumar spurningar eru mikilvægari en aðrar.
  • Undanfarin ár hafa verið engu lík fyrir flesta Íslendinga, en hætt er við að sagan endurtaki sig ef fólk áttar sig ekki á hvað fór úrskeiðis 
  • Fyrsta skrefið í leit svara felst í að spyrja einfaldrar spurningar: Af hverju vorum við blekkt?
  • Af hverju er hjarðónæmisvirknin ekki mæld?

„Ein stærsta blekkingin sem haldið var að Íslendingum var að covidbóluefnin væru leiðin til hjarðónæmis.“

10. október síðastliðinn viðurkenndi Pfizer fyrir Evrópunefnd að áður en bóluefnið þeirra fór á markað höfðu engar rannsóknir farið fram á því hvort það hefði nokkur áhrif á útbreiðslu smita. Engar rannsóknir. Samt varð hjarðónæmisloforðið kjarninn í bóluefnaherferð íslenskra yfirvalda. Stuttu áður hafði Vísindavefurinn fjallað um nýju bóluefnin og bent kurteisislega á að slík blóðrásarbóluefni gætu ekki hindrað smit í öndunarfærum. Þetta var mjög mildilega orðað því aldrei í sögunni hefur tekist að þróa bóluefni sem sprautað er í vöðva/blóðrás sem hindrar smit í öndunarfarvegi – hér er um að ræða grundvallaratriði í ónæmisfræði sem hefur verið þekkt í áratugi. Yfirlýsingar íslenskra heilbrigðisyfirvalda um hið gagnstæða í upphafi bóluefnaherferðarinnar voru fyrir vikið vægast sagt undarlegar og því er rökrétt að álykta að þarna hafi vísvitandi verið að blekkja almenning.

Af hverju var skaðsemin ekki mæld?

Strax í byrjun árs 2020 voru alvarleg blóðrásaráhrif covid orðin ljós og var vitað að gaddapróteinið (e. spike protein) í vírusnum var orsakavaldurinn. Sama gaddaprótein var í öllum bóluefnunum, en samt var sleppt að kanna skaðsemi þeirra á blóðrásarkerfið, áður en þau fóru í dreifingu. Engar mælingar á líklegustu skaðseminni. Í staðinn var staðhæft að verkir eftir sprautu væru til marks um að bóluefnin væri að virka. Þetta er ekki síður alvarlegt í ljósi þess að tæknin sem efnin voru byggð á hafði aldrei verið reynd áður á markaðnum, þar sem aldrei áður hafði tekist að koma efnum byggðum á henni í gegnum fyrstu fasa lyfjarannsókna vegna alvarlegra aukaverkana.

Loftsteinabólusetning?

Hafið þið sent börnin ykkar í flensusprautu? Auðvitað ekki, því það er hollt fyrir börnin að takast á við slíkar mildar pestir og þjálfa ónæmiskerfið. Covid er hættuminna börnum en flensa með lífslíkur heilbrigðs barns 2.500.000 á móti 1. Meiri líkur eru á að barnið verði fyrir loftsteini en að covid reynist því lífshættulegt. Samt sagði forstjóri Pfizer í viðtali í desember 2021: “Það er enginn vafi í mínum huga að ávinningur er algjörlega með því [að bólusetja börn 5-11 ára”.

Fyrra svarið

Yfirlýsingagleði forstjórans hafði þó líklega ekkert með ótta hans við loftsteina að gera. Ástæðan blasir við: Pfizer hafði ekki hag af því að mæla virkni eða skaðsemi og óþörf bólusetning barna jók gróðann!

En hvernig komust þeir upp með það? Hvar var lyfjaeftirlitið?

Sýndareftirlit hrunsins

Svarið við þessari spurningu ætti að vera flestum Íslendingum kunnuglegt eftir hrunið 2008, þegar íslensku bankarnir voru tæmdir í vasa eigendanna með einföldustu aðferð í heimi. Eigendurnir lánuðu sjálfum sér innistæðurnar. En hvar var fjármálaeftirlitið þá?

Bankarnir voru í raun búnir að yfirtaka eftirlitið. Þeir voru svo valdamiklir að þeir stýrðu samfélaginu, voru bakjarlar stjórnarflokkanna og áttu fjölmiðlana (í gegnum eignahald eða lán). Þeir voru svo stórir að ef þeir féllu færi allt samfélagið á hliðina. Sérhver aðgerð eftirlitsins sem ylli bankaáhlaupi gat því orðið afdrifarík. Staða eftirlitsmannsins var því vonlaus, nema hann spilaði með og þá gæti hans beðið feit staða hjá bönkunum síðar meir.

Sýndareftirlit sem lokar augunum er verra en ekkert, því það réttlætti bankaleynd og leyndarhyggju sem gaf eigendunum enn frjálsari hendur við sjálf-lántökuna. Hefðbundinni bankastarfsemi var snúið á haus þegar eigendurnir sem tóku mest úr bankanum græddu mest. Það var ekki nema von að einkavæðingin hafi mistekist, þegar ábyrgðarleysi var verðlaunað. Þeir sem treystu sér til að ganga lengst í sjálftökunni gátu greitt mun hærra verð fyrir bankahlutinn en þeir sem ætluðu að stunda ábyrga bankastarfsemi.

Seinna svarið

Eftirlitsyfirtaka lyfjageirans er líklega enn meiri en í fjármálageiranum. Upp að 90% af tekjum lyfjastofnanna koma beint úr lyfjageiranum. Starfsmannavelta eftirlitsstofnana og lyfjafyrirtækja er samofin og þannig fengu 10 af síðustu 11 yfirmönnum bandarísku lyfjastofnunarinnar (FDA) góðar stöður hjá lyfjafyrirtækjum eftir að þeir hættu hjá FDA. Lyfjafyrirtækin eru stærst á auglýsingamarkaði og eigendur þeirra eru líka eigendur meginstraumsmiðla og samfélagsmiðla. Aldrei fyrr í sögunni hefur gagnrýni á göllum á nýrri vöru verið bönnuð og notkun lyfs lögboðuð eins og gert var í covidfárinu. Til þess nutu lyfjafyrirtækin liðsinni stjórnmálamanna sem höfðu lofað upp í ermina á sér að bóluefnin myndu bjarga öllu og til að réttlæta fórnir sóttvarnaraðgerðanna. Rétt er að geta þess að meira en 2/3 þingmanna í Washington DC, þáðu styrki frá lyfjafyrirtækjunum fyrir kosningarnar 2020.

Seinna svarið liggur þá fyrir: Pfizer mældi hvorki virkni né skaðsemi og bólusetti börnin af því að þeir gátu það!

Afleiðingarnar

Afleiðingar sýndareftirlitsins blasa í dag við öllum sem ekki trúa á faraldur tilviljana. Það var ekki tilviljun að stóru smitbylgjurnar á Íslandi (og víðar) komu strax í kjölfar bólusetningaherferða. Það er ekki tilviljun að andlát 2022 á Íslandi eru hátt í 20% á yfir meðaltali áranna fyrir covid. Það er ekki tilviljun að sambærileg umframandlát eru að mælast um allan heim. Það er ekki tilviljun að tíðni hjartaáfalla hjá íþróttamönnum tífölduðust strax mánuðina eftir að bólusetningar hófust. Það er ekki tilviljun að mesta aukning andláta er vegna þekktra aukaverkana „bóluefnanna“, hjartaáfalla, blóðtappa, heilablóðfalla, ónæmiskerfisbælingar o.fl. Ef fleiri fara ekki að spyrja réttu spurninganna er hætt við að þessi faraldur tilviljanir taki seint enda.

Nýlegt falið myndavélaviðtal Project Veritas gefur sýnishorn af því sem koma skal. Í því viðurkennir yfirmaðurinn rannsóknardeildar hjá Pfizer að í skoðun sé að gera covid skaðlegra gegnum stýrða ræktun, að lyfjaeftirlitsmenn samþykki allt í von um frama síðar hjá Pfizer og að það geti verið góð tekjulind fyrir fyrirtækið að þróa nýja veiru samhliða bóluefni, því þá væri bóluefnið tilbúið þegar veirunni yrði sleppt. Viðbrögðin við uppljóstruninni voru lýsandi fyrir ástandið. Fyrst var reynt að endurskrifa söguna og deildarstjórinn hvarf af google-leit um fyrirtækið.  Youtube greip inn í og fjarlægði fréttina og setti fréttamiðilinn í bann og LinkedIn reikningurinn hans hvarf. Þegar þessi Orwelska aðferð var ekki að ganga kom fyrirtækið með fréttatilkynningu þar sem það eingöngu neitaði að hafa stundað stýrða ræktun, en af orðalagi tilkynningarinnar má þó ráða að það sé að gera svipaða ræktun en kalli það annað. Hinum uppljóstrunum var ekki svarað..

Þó að hin lánlausi en málglaði deildarstjóri hafi verið aðeins í glasi við frásögn sína, verður hún að teljast trúverðug. Í starfi sýnu ætti hann að vera vel upplýstur um flest það sem hann minntist á og eftirlitsleysiskúltúrinn sem hann lýsir bendir til að ábyrgðarleysið sé orðið stjórnlaust.  Sama siðferðisástand og orsakaði íslenska bankahrunið virðist hafa yfirtekið lyfjageirann.

Greinin birtist fyrst í DV 9. febrúar 2023.

Skildu eftir skilaboð