Bændablaðið sagði frá því í morgun að hátt í 80 tonn af frosnu kjúklingakjöti hafi verið flutt hingað til lands frá Úkraínu á síðasta ári og finnast nú í verslunum, meðal annars pakkað í umbúðir frá íslenskri kjötvinnslu. Ekki kom fram í fréttinni hver innflytjandinn væri.
Reglurnar eru þær að krafan um upprunamerkingu nær einungis yfir nýtt, kælt eða fryst kjöt. Um leið og kjötið hefur verið kryddað eða blandað með aukefnum gildir krafan um upprunamerkingar ekki. Samkvæmt þessum reglum þarf ekki að koma fram á pakkningu að kjötið sé frá Úkraínu.
Fréttin fékk þær upplýsingar að innflytjandinn væri Esja Gæðafæði og hefur kjúklingurinn a.m.k. verið seldur í verslunum Nettó en er nánast uppseldur eins og er eftir útsöludaga á vörunni.
Fjarðarkaup, Bónus, Hagkaup og Krónan selja ekki kjúklinginn samkvæmt upplýsingum frá verslununum.
Rétt að geta upprunalands
Guðmundur Svavarsson, formaður deildar kjúklingabænda hjá Bændasamtökunum, segir innflutninginn frá Úkraínu vekja ugg.
„Við höfum áhyggjur af því að þetta kjöt komi frá vinnslum sem lúta ekki sömu heilbrigðiskröfum og þekkjast hér og í Evrópusambandinu. Við höfum áhyggjur af mikilli sýklalyfjanotkun og enn fremur hvernig staðið er að framleiðslunni með tilliti til dýravelferðar og sjúkdómsvaldandi örvera,“ sagði Guðmundur.
2 Comments on “Esja Gæðafæði selur kjúkling frá Úkraínu – merkt sem íslensk vara”
Þá er bara að sniðganga „Esja Gæðafæði“ fyrst þeim þykir það óþarfi að segja okkur hvaðan maturinn sem þeir selja okkur kemur. Uppruni, innihald, framleiðsludagur og síðasti söludagur, eru allt upplýsingar sem ættu að koma fram á öllum vörum, án undantekninga.
Við neytendur verðum að taka okkur saman og láta vita þegar hlutirnir eru ekki í lagi. Það er hægt að gera á kurteisann og taktvísann hátt. Ef enginn segir neitt þá, halda framleiðendur áfram að blekkja neytendur til að kaupa vöru, sem þeir myndu ekki kaupa ef þessar upplýsingar væru þekktar.
Eins og segir í greininni, þá eru staðlar á Íslandi allt aðrir en í Úkraínu, þar sem lítið fer fyrir dýravend, hreinlæti og eftirliti með lyfjagjöfum. En jafnvel þó slíkir staðlar væru til í Úkraínu, þá er það þjóðaríþrótt þar að múta sig framhjá reglum.
Verði ykkur að góðu sem keyptu og átu þessa kjúlla. Vonandi fer það altsaman vel.
Jákvætt, hugsa ég.
Ég meina, fyrst þeir geta selt mat úr landi þá eru þeir ekki að svelta, er það?