Pútín ávarpaði þjóðina í morgun: Útilokað að sigra Rússland sem dregur sig úr New START

Erna Ýr ÖldudóttirErlent, Erna Ýr Öldudóttir, Stjórnmál, Úkraínustríðið, Utanríkismál1 Comment

Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, kenndi Vesturlöndum um stríðið í Úkraínu „til að eyðileggja Rússland“ þegar hann ávarpaði rússnesku þjóðina í árlegu ávarpi sínu í Moskvu í morgun. Talsverðs kvíða og eftirvæntingar hafði gætt, en rússneska hernum hefur orðið nokkuð ágengt í átökunum í Úkraínu undanfarnar vikur.

Til viðbótar hafa greinendur á Vesturlöndum getið sér til um að á bilinu 500-700 þúsund þungvopnaðir rússneskir hermenn samanlagt séu nú í viðbragðsstöðu við landamæri Úkraínu og á átakasvæðunum. Ræðan fór þó að mestu í að stappa stálinu í rússnesku þjóðina. Hann lofaði uppbyggingu á átakasvæðum og þeim sem eiga um sárt að binda, aðstoð.

Rússland dregur sig út úr New START samkomulaginu

„Íbúar Úkraínu eru orðnir gíslar Kænugarðs-stjórnarinnar og vestrænna yfirmanna hennar, sem hafa í raun hertekið landið í pólitískum, hernaðarlegum og efnahagslegum skilningi,“ sagði Pútín. „Þeir ætla að breyta staðbundnum átökum yfir í alþjóðleg átök, við skiljum það þannig og munum bregðast við í samræmi við það,“ sagði Pútín. Hann kvað úkraínska elítu og Vesturlönd bera ábyrgð á ástandinu.

Pútín kvaðst knúinn til þess að yfirgefa New START kjarnorkuafvopnunar samkomulagið, sem var undirritað í Prag árið 2010, og framlengt um fimm ár í viðbót eftir að Joe Biden varð forseti Bandaríkjanna árið 2021. Vesturlönd kröfðust þess að fá að senda eftirlitsmenn, sem Pútín sagði vera „fáránlegt“ í ljósi þess að yfirlýst markmið þeirra væri að kollvarpa rússneskum stjórnvöldum og hluta Rússland í sundur.

Hann sagði að það væri útilokað að sigra Rússland.

Pútín hraunar yfir leiðtoga Vesturlanda

„Þeir reyndu að nota meginreglur lýðræðis og frelsis til að verja alræðisleg gildi sín og þeir reyndu að draga athygli fólks frá spillingarhneykslum … frá efnahagslegum og félagslegum vandamálum.“

„Sjáðið hvað þeir gera við sínar eigin þjóðir. Eyðileggja fjölskylduna, menningarlega og þjóðlega sjálfsmynd, og pervertaháttur allt niður í barnaníð, er kynnt sem eðlilegt … og prestar neyðast til að blessa samkynhneigð hjónabönd.”

„Eins og kunngjört hefur orðið, ætlar Enska biskupakirkjan að íhuga hugmyndina um kynhlutlausan Guð ... Milljónir manna á Vesturlöndum skilja að þeir eru leiddir í raunverulegar andlegar hörmungar.“

author avatar
Erna Ýr Öldudóttir

One Comment on “Pútín ávarpaði þjóðina í morgun: Útilokað að sigra Rússland sem dregur sig úr New START”

  1. Þetta sem hann er að segja er hárétt, það er í rauninni sorglegt að horfa upp á löndin Evrópu sem eru að stórskaða sitt fólk bara til standa með einræðisherranum og hryðjuverkamönnunum í vestri!

    Ísland úr NATO og það STRAX!

Skildu eftir skilaboð