Eftir Svölu Magneu Ásdísardóttur:
„Við stöndum á ákveðnum krossgötum“… segir í innganginum að nýrri skýrslu frá Fjölmiðlanefnd sem ber heitið „Upplýsingaóreiða og skautun í íslensku samfélagi, 2023“. Þar er vakin athygli á að lýðræðisleg umræða kunni að vera í hættu. Ástæðurnar séu meðal annars pólaríseruð umræða, hatursorðræða og fælingarmáttur hennar gagnvart venjulegu fólki, sem haldi sig til hlés í umræðunni sökum þessa.
Einskonar bergmálshellir myndist hjá notendum vegna algóritmans á samfélagsmiðlum sem magnar tjáningu sem er á sitthvorum pólnum í umræðunni, með þeim afleiðingum að notendur fái einhliða upplýsingar. Þetta stuðli samkvæmt skýrsluhöfundi að svo kallaðri skautun í samfélaginu, sem einkennist af skorti á hófstilltri umræðu og að án hennar sé ekkert lýðræði.
Samsæriskenning gærdagsins – staðreynd dagsins í dag
Farið er frjálslega með hugtakið „samsæriskenningar“ og engin dæmi gefin til að lýsa þeim önnur en að tilgangur þeirra sé að „að grafa undan trausti á stjórnmálum, fjölmiðlum og stofnunum samfélagsins.“ Í sömu málsgrein er þó vakin athygli á að gagnrýninnar hugsunar sé þörf, meðal annars gagnvart lyfjaiðnaðinum; „Mikilvægt er að hafa í huga að talsverður munur er á samsæriskenningum og heilbrigðum efa sem byggir á gagnrýnni hugsun, þar sem reynt er að leggja mat á sannleiksgildi upplýsinga. Þannig hefur m.a. komið í ljós að stórfyrirtæki, t.d. í sykur- tóbaks- og lyfjaiðnaði, hafa látið hjá líða að birta vísindalegar niðurstöður sem geta skaðað hagsmuni þeirra.“
Í faraldrinum fór af stað árverknisátak samfélagsvefja um að eyða „upplýsingaóreiðu“. En vandamálið er að það sem féll undir hattinn „samsæriskenning“ eða „upplýsingaóreiða“ fyrir tveimur árum er margt staðfest vísindi í dag. Má í því samhengi benda á virkni og árangur grímunotkunar sem tekin hefur verið til endurskoðunar í ljósi rannsókna og kostina við náttúrulegt ónæmi gegn covid umfram tilbúið, eins og nýleg rannsókn sem birtist í The Lancet hefur leitt í ljós.
Það er einfaldlega varhugavert að merkja tjáningu einstaklinga, jafnvel viðurkenndra fræðimanna, sem „upplýsingaóreiðu“ þegar sú er ekki raunin. Þetta er aðför að tjáningarfrelsi, sem á að miðla að upplýstri umræðu, lýðræði og vísindalegri framvindu.
Opin umræða er forsenda lýðræðisins
Þegar ég hóf nám í fjölmiðlafræði, við Háskólann í Malmö fyrir 20 árum síðan, höfðu helstu samfélagsmiðlar á borð við Facebook og Twitter ekki litið dagsins ljós. Menn höfðu ekki miklar áhyggjur af „upplýsingaóreiðu“. Í staðinn var tjáningarfrelsi í hávegum haft. Enda stórkostlegt afrek Vesturlanda að hafa opnað fyrir þau samfélagslegu mannréttindi að geta stundað opna umræðu. Annars væri ekkert lýðræði.
Í náminu var mér kennt að kryfja texta niður í öreindir. Greina ásetning höfundar, hugsanleg hagsmunatengsl, einhliða málflutning eða áróður. Hlutleysi væri hin heilaga staðsetning blaðamannsins, sem hann ætti undir öllum kringumstæðum að sækjast eftir. Hann væri áhorfandi og miðlari, ekki þátttakandi.
Mér var kennt að leita til frumheimildarmanna til að nálgast upplýsingar frá þeim beint. Rök þyrftu að mæta mótrökum. Báðar hliðar þyrftu að heyrast. Í fræðigreinum þyrfti að gera grein fyrir hugmyndafræði fræðimanna sem eru með mismunandi nálganir til þess að útbúa heilsteypta og margþætta heildarmynd af hvers kyns orðræðu. Þannig býðst lesanda tækifæri til að taka eigin afstöðu á meðan honum eru kynntir helstu þættir sem tengjast upplýsingagjöfinni.
Ábyrgð stjórnvalda verður ekki umflúin
Einhverra hluta vegna hvarf þessi viðleitni til þess að viðhalda opinni umræðu í faraldrinum. Menn voru þaggaðir þegar þeir áttu ekki að vera þaggaðir. Upplýsingagjöf stjórnvalda, og sömuleiðis fjölmiðla, var einhliða og laus við gagnrýni. Einhliða upplýsingagjöf sem þolir enga gagnrýni eða efasemdir er áróður. Sú þöggun og ritskoðun sem hefur farið fram hefur ekki síst orðið til þess að magna upp bæði skautun og vantraust í samfélaginu. Hófstillt umræða hverfur þegar hófstilltir menn eru þaggaðir.
Þó verður það að teljast jákvætt að Fjölmiðlanefnd kalli eftir hófstilltri og upplýstri umræðu og vissulega má hafa áhyggjur af hverskyns ofstækisfullri tjáningu eða hatri.
En ef það á að læra eitthvað af þessum faraldursárum þá er það að fara varlega í að ritstýra umræðu og að þagga heilbrigða efahyggju og gagnrýni.
Heimildir:
Skýrsla fjölmiðlanefndar, „Upplýsingaóreiða og skautun í íslensku samfélagi, 2023“
https://fjolmidlanefnd.is/wp-content/uploads/2023/02/Upply%CC%81singao%CC%81reida-og-skautun-i%CC%81-i%CC%81slensku-samfe%CC%81lagi.pdf?fbclid=IwAR1Ba6ZcQXtrmgM-DXFk8j3uuXuoKjj4ADtI1R48FLEdj0UrxArUcbFTLmY
Rannsókn birt í Cochrane Library, „The pooled results of RCTs did not show a clear reduction in respiratory viral infection with the use of medical/surgical masks.“
https://www.cochranelibrary.com/cdsr/doi/10.1002/14651858.CD006207.pub6/full?fbclid=IwAR3fXjbI3UCUpBlkSxoaKtDKBgX3JM_Ez-BrAX85ketEx63-k-qT-ExkPlM
Rannsókn á náttúrulegu ónæmi birt í The Lancet, „Protection from severe disease was high for all variants.“
https://www.thelancet.com/journals/lancet/article/PIIS0140-6736(22)02465-5/fulltext
Fréttaskýring á rannsókn á náttúrulegu ónæmi á NBC News, „The immunity generated from an infection was found to be “at least as high, if not higher” than that provided by two doses of an mRNA vaccine.“
https://www.nbcnews.com/news/amp/rcna71027?fbclid=IwAR3fXjbI3UCUpBlkSxoaKtDKBgX3JM_Ez-BrAX85ketEx63-k-qT-ExkPlMAX85ketEx63-k-qT-ExkPlM
Þaggaðir vísindamenn við Harvard og Stanford háskóla lýsa persónulegri reynslu sinni af þöggun og hafa áhyggjur af framþróun vísinda; „we need to save science“.
https://www.youtube.com/live/FlwqqgYAyZs?feature=share&fbclid=IwAR3HmhcHVn4wnnAm3N9cTlu_OOkzS5QLf678aqU3mkHRQygpS_irNSQQUm8
Greinin birtist fyrst á Krossgötur 23.febrúar 2023