ESB finnur ekki 300 milljarða evra af frystum rússneskum gjaldeyriseignum

Erna Ýr ÖldudóttirErlent, Erna Ýr Öldudóttir, Evrópusambandið, Fjármál, ÚkraínustríðiðLeave a Comment

Ekki hefur tekist að finna megnið af rússneska gjaldeyrisvaraforðanum, eða um 300 milljarða evra, sem frystur var í evrópskum bönkum eftir 24. febrúar í fyrra. Þetta hefur litháenski fréttavefurinn Delfi eftir ónefndum heimildum innan úr Evrópusambandinu, í umfjöllun sem birtist þann 21. febrúar síðastliðinn.

Evrópskur þingmannahópur hafði krafist þess af framkvæmdastjórninni, að gerð yrði samantekt yfir frystar eigur rússneska ríkisins. Frá upphafi stríðsins hafa evrópskir og bandarískir stjórnmálamenn lagt til að gjaldeyrisforði Rússlands verði gerður upptækur og notaður til að bæta Úkraínu tjónið vegna stríðsins. Slík eignaupptaka er ólögleg, en það virðist ekki vera þeim hindrun í að setja fram þessar kröfur.

Samkvæmt heimildarmönnum í Brussel og Kænugarði, virðist magn rússneska CBR-forðans, sem fundist hefur í ESB-löndunum, aðeins brot af uppgefinni fjárhæð. Tilkynnt hafði verið um 300 milljarða evra, skömmu eftir innrás Rússlands í Úkraínu 24. febrúar í fyrra, en þær upplýsingar höfðu m.a. komið fram á vef Seðlabanka Rússlands.

Ofmat frá upphafi eða komust mýs í haframjölspakkann?

Háttsettur starfsmaður framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem vildi ekki láta nafns síns getið, greindi Delfi frá því að evrópsk fjármálayfirvöld hafi, þrátt fyrir upphaflegar yfirlýsingar um 300 milljarða evra í eigu Seðlabanka Rússlands, ekki fundið fjármunina. 

Hann sagði að mat þeirra á magni erlendra eigna bankans sé eingöngu byggt á gögnum Rússneska seðlabankans sjálfs, sem gert var áður en innrás í Úkraínu hófst 24. febrúar 2022. Viðmælandi Delfi sagði að í raun og veru sé fjárhæð lokaðra eigna mun lægri. 

Mögulega hefði eignastýringing á rússneska varaforðanum verið flóknari en menn hefðu áður talið, að sögn heimildarmannsins. Einungis hafi tekist að staðsetja 33,8 milljarða evra af heildar uppgefinni fjárhæð að svo komnu máli.

Til viðbótar hafa fundist 21,5 milljarðar frystra evra í einkaeigu rússneskra ríkisborgara. Einnig er óheimilt að ráðstafa þeim eignum eða vöxtum af þeim, nema það takist að sanna að þeirra hafi verið aflað á glæpsamlegan hátt.

Gríðarlegt magn vestrænna eigna lokaðar inni í Rússlandi

Á móti kemur að milljarðar dollara af eignum vestrænna fjárfesta eru fastir í Rússlandi. Þar sitja þær og safna arðsemi og vöxtum, en eigendur þeirra eru ófærir um að nálgast þær vegna viðskiptaþvingana. Sumir fjárfestar halda í vonina, en aðrir hafa þegar afskrifað þær. Um þetta fjallaði Bloomberg í fyrradag.

Þar á meðal eru stórir fjárfestingasjóðir eins og JP Morgan og BlackRock. Seðlabankastjóri Rússlands, Elvira Nabiullina, fékkst ekki til að gefa upp samanlagt magn eigna erlendra fjárfesta í Rússlandi á fréttamannafundi í mánuðinum, en sagði að þær haldi vexti sínum áfram.

Elvira Nabiullina, seðlabankastjóri Rússlands.

Skildu eftir skilaboð