Orkustofnun sópar kolunum undir teppið: skilgreinir kol nú sem efni en ekki orku

frettinKolefniskvóti, Orkumál1 Comment

Um árabil hefur Orkustofnun gefið út yfirlit yfir frumorkunotkun Íslendinga frá árinu 1940. Þar hafa innflutt kol ætíð verið talin fram. Orkuinnihald þeirra verið um 2% af heildarorkunotkuninni undanfarna áratugi.

Allt þar til í síðustu útgáfunni sem kom út árið 2021. Þar hafa kolin einfaldlega verið felld brott með þeim orðum að „kol eru aðeins notuð í iðnaðarferla og teljast því ekki til frumorkunotkunar.

Eins og sjá má á þessari mynd um frumorkunotkun frá Orkustofnun hverfa kolin úr orkubúskap Íslendinga árið 2020.

Kolin eru engu að síður áfram talin fram sem orka fyrir árin 1940 – 2019. Frekar ruglingslegt.

Orkuskipti á blaði

Við þessa breytingu á skilningi Orkustofnunar á kolum hækkaði hlutfall endurnýjanlegrar orku hér á landi um 2%. Það kemur sér vel í „orkuskiptunum“ sem ekkert hefur miðað fram undanfarinn áratug eftir að stjórnmálamenn fóru að tala þindarlaust um þau. Með því að leiðrétta þennan gamla skilning vísindamanna á Orkustofnun um eðli kola náðist mesti árangur í orkuskiptum í 15 ár. Þótt innflutningur kola hafi verið að aukast.

Innflutningur kola hefur aukist um 40% undanfarin 5 ár samkvæmt tölum Hagstofu.

En hvað kom til? Hvers vegna þessi kúvending á skilningi vísindamanna á Orkustofnun á eðli og notkun kola?

Vinstri grænu vísindin?

Fyrst fór að bera á þessum nýja skilningi – að kol séu ekki orka – í einhvers konar grænþvottatilraunum Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs fyrir nokkrum árum. VG hafði forgöngu um verulega ríkisstyrki og skattaívilnanir fyrir iðnað á Bakka þótt almennt væri það stefna vinstri stjórnarinnar að hækka skatta. Þetta var eitt af lokamálum hreinu vinstri stjórnarinnar 2013. Þegar varð svo heyrinkunnugt árið 2017 hve mikinn kolainnflutning þyrfti til að iðnaðurinn gæti gengið varð það heldur vandræðalegt mál fyrir hreyfinguna. Hún var stofnuð í nafni náttúrunnar og hrellir almenning með alls kyns sköttum og skyldum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda en niðurgreiðir svo kolainnflutning.

Síðan hafa menn reynt að búa til þessa deilu um keisarans skegg – eru kolin ekki frekar efni en orka? Þótt öllum megi vera ljóst að þau eru orkuríkt efni.

Allt eins mætti hugsa sér að hártoga það að olía í steinolíulampa sé orka því menn hafi ekki áhuga á orkunni heldur ljósinu sem stafar af brunanum. Eða að orkan úr lampanum sé jafnvel bara andi ef menn vilja vera verulega sniðugir.

Sömuleiðis gæti komið sér vel fyrir hina úthrópuðu Dieselvél ef menn segðu sem svo að þar sem aðeins þriðjungur orkunnar nýtist í að koma t.d. bíl áfram (hitt fer út í loftið sem varmi) beri að draga 2/3 orkunnar frá orkubúskap vélarinnar. Með slíkum kúnstum mætti nánast ljúka orkuskiptum hér á landi.

Orka er orka þótt hún fari í súginn

Jafnvel þótt menn fallist á þá skilgreiningu að kolin séu notuð sem efni en ekki orka í iðnaðarferlinu breytir það því ekki að í kolunum býr orka sem ekki er lengur til reiðu þegar kolefnið kemur út úr skorsteini verksmiðjunnar sem CO2. Að hve miklu leyti orkan nýtist er algert aukaatriði. Orkan er notuð þótt hún fari öll forgörðum.

Kalla vinstri grænir sig ekki líka áfram græna þótt allt þetta græna hafi farið fyrir ofan garð og neðan?

Greinin birtist fyrst á Andríki 26.02.2023

One Comment on “Orkustofnun sópar kolunum undir teppið: skilgreinir kol nú sem efni en ekki orku”

  1. Önnur svokölluð “fossil fuels” (kerosene, bensín og díselolía) eru sem sagt bara ,,efni” en ekki orkugjafar.

    Ok.

Skildu eftir skilaboð