Brotist inn í Samstöðina – öllum tækjum stolið og búnaður eyðilagður

frettinInnlendar1 Comment

Brotist var inn í húsnæði Samstöðvarinnar í Bolholti í nótt og flest öllum tækjum í stúdíói stöðvarinnar stolið og kaplar eyðilagðir. Dagskrá Samstöðvarinnar mun því liggja niðri næstu daga á meðan safnað verður fyrir nýjum tækjum.

„Svo sem allt sem við áttum var tekið og svo var annað eyðilagt,“ segir Gunnar Smári Egilsson ritstjóri Samstöðvarinnar. „Þetta voru myndavélar, linsur, hljóðmixerar og annað sem við höfum safnað upp á löngum tíma. Ætli tapið séu ekki nokkrar milljónir í peningum talið. Samstöðin er rekin fyrir styrki og stuðning hlustenda í gegnum Alþýðufélagið og á enga digra sjóði að sækja í.“

Ólíklegt er að innbrotið hafi verið framið aðeins í auðgunarskyni. Endursölumarkaður á myndavélum eða hljóðmixerum getur varla svo virkur að þeir sem brutust inn fá nema brot af því sem það kostaði Samstöðina að byggja upp stúdíóið. Það voru einnig framin skemmdarverk, kaplar klipptir í sundur og gengið svo frá að ólíklegt er að Samstöðin geti hafið útsendingar í bráð.

Fyrir fáeinum mánuðum voru rúður brotnar í Vorstjörnunni – Alþýðuhúsi þar sem Samstöðin, Sósíalistaflokkurinn og mörg félagasamtök eru til húsa. Forystufólk flokksins fá oft hótanir um meiðingar. „Það má allt eins vera að einhverjir hafi verið á ferð í nótt sem þola illa róttæka samfélagsumræðu eða gagnrýni á stjórnvöld,“ segir Gunnar Smári.

Hvað gerir Samstöðin nú? „Við erum að melta þetta,“ segir Gunnar Smári. „Ég vildi að ég gæti sagt að við getum byrjað útsendingu strax á mánudag en ég veit bara ekki hvort við ráðum við það. Samstöðin er fátæk og á illa við þessum áföllum. Þau tæki sem voru eyðilögð eða stolið kosta hvert um sig ekki mikið, eru sum gömul og hæpið að við fáum þetta tjón bætt í gegnum tryggingar. Og ef ég þekki tryggingafélögin rétt myndi það taka okkur vikur, mánuði og ár.“

Samstöðin er eign Alþýðufélagsins, sem er félagsskapur þeirra sem greiða einskonar áskrift að Samstöðinni, frá tvö þúsund krónum á mánuði (sjá hér: Félagaskráning Samstöðvarinnar).

„Ætli við verðum ekki að leita til þeirra sem hafa horft og hlustað á Samstöðina,“ segir Gunnar Smári. Og bendir á að þau sem vilja hjálpa til við kaup á nýjum tækjum geti lagt inn á reikning Samstöðvarinnar, bankanúmer: 1161-16-201669 Kennitala: 550891-1669

„En best væri náttúrlega að þeir sem brutust inn skili tækjunum,“ bætir Gunnar Smári við. „Við munum glöð taka við þeim og ekki taka eftir hverjir koma með þau.“

One Comment on “Brotist inn í Samstöðina – öllum tækjum stolið og búnaður eyðilagður”

  1. Það kæmi mér ekki á óvart að þeir væru búnir að læra af kollegum sínum að sviðsetja eitthvað innbrot og vilja því ekki að málið verði rannsakað. Þeir hafa nóg af svokölluðum “kapítalistum” til að fjármagna sig. Í mínum huga er Gunnar Smári ekkert annað en “kapítalisti” í ónotuðum vinnufötum.

Skildu eftir skilaboð