Gef oss í dag vort daglegt dóp

frettinArnar Sverrisson, LyfjaiðnaðurinnLeave a Comment

Eftir Arnar Sverrisson sálfræðing:

Í grennd við Gaustad geðsjúkrahúsið í Noregi má finna Ris kirkjugarðinn. Þar má berja augum minningarstein, sem oft og tíðum er kallaður, ”Skammarsteinninn.” Þessi minnisvarði er reistur á fjöldagröf geðsjúklinga, sem ekki þoldu lækningarnar og guldu fyrir með lífi sínu. Það er að sönnu athyglisvert, að þarna voru grafnir geðsjúklingar fram til ársins 1989. 

Það vekur undrun og angurværð að hugsa til þessa fólks. Margt var beitt ofbeldi, þegar við innlögn. Hvers vegna ætli yfirvöld hafi reynt að hindra minningarstund þeim til heiðurs og okkur til áminningar? Ég fylltist líka hryggð, þegar ég rölti milli ómerktra grafa við geðsjúkrahúsið í Nyköbing

Norski rithöfundurinn, Per-Aslak Ertesvåg, fjallar um þetta í bók sinni, ”Sofðu nú vært, litli Noregur” (Sov, mitt lille Norge). Þarna eru mörg leyndarmál grafin með fólki sem hlaut geðlækningu

Leyndarmálið er svo viðkvæmt, að valdhafar neita að upplýsa um fjölda líkamsleifa og dánarorsakir. En það má gera sér tiltölulega skýrt í hugarlund, að þarna hvíli fórnarlömb meðferðartilrauna á sviði geðlækninga. Hinir fróðu geta sér til um, að þarna kynni að hvíla hluti þeirra, sem urðu fyrir heilaskurðlækningum (lobotomi – hvítuskurður, geiraskurður). 

Í sögu geðlækninganna er mannvonska áberandi, enda þótt dæmi séu um annað eins og t.d. sveitamennsku sem og hvíldar- og næringarkúrainnlagnir Silas Weir Mitchel (1829-1914). 

Áberandi eru aðferðir eins og til dæmis köld böð, raflost (electrochock), einangrun, spennitreyjur, strekkingarbekkir, lyfjadá (krampadá), innkirtlabrottnám, gelding, höfuðkúpuborun, skynvillulyf og svo framvegis. Sumum þessara aðferða hefur verið beitt við pyndingar. 

Nokkrar aðferðanna eru enn við líði eins og spennitreyjur, einangrun og raflost. Það er nú kallað rafkrampalækning (electro convulsive therapy). Einhverra hluta vegna hafa geðlæknar mikið dálæti á krömpum, sem flestir læknar reyna þó að koma í veg fyrir. Og nú eru skynvillulyfin komin í tísku. Það er margt skrítið í geðlækningum ekki síður en í kýrhausnum. 

Við lyfjatilraunir á sjötta áratugi síðustu aldar uppgötvuðu læknar óvænta aukaverkun. Sjúklingarnir urðu værir og sljóir. Geðlyf hafði séð dagsins ljós. „Chlorpraomzine“ var afkvæmið skýrt. Í Bandaríkjunum gekk það undir nafninu „Thorazine.“ 

Heimildir með grein.

Skildu eftir skilaboð