Hvað um fastanefndina um rangupplýsingar? Spurning handa Elon Musk

frettinFjölmiðlar, Pistlar, TjáningarfrelsiLeave a Comment

Elon Musk virðist hafa sannfært notendur Twitter um að hann sé vonarstjarna í baráttunni fyrir málfrelsi, nú síðast með frammistöðu sinni í viðtali við BBC þar sem hann fékk enn eitt tækifærið til að staðfesta þetta.

„Hver tekur ákvörðun um hvað eru rangupplýsingar?” spurði Musk ráðvilltan fréttamann BBC. „Hver á að hafa það vald?”

Góð spurning og þörf.

En vandamálið við þetta og alla aðra gagnrýni Musk á hugmyndirnar um „rangupplýsingar“ og „upplýsingaóreiðu“ er að fyrirtæki hans, Twitter, hefur sjálft undirritað siðareglur Evrópusambandsins um „rangupplýsingar” og „upplýsingaóreiðu” og þar með undirgengist kröfur um að taka á einmitt þessu tvennu.

Og „kröfur“ þýðir hér kröfur: eins og fjallað var um í fyrri greinum mínum hér og hér, gera lög ESB um stafræna þjónustu (DSA) þær kröfur sem gerðar eru í siðareglunum skyldubundnar, að viðlögðum háum sektum. Eins og ég hef sömuleiðis sýnt fram á í þessum greinum, hefur Elon Musk ítrekað gefið til kynna að hann hafi ekki aðeins farið eftir, heldur sé einnig algerlega samþykkur DSA-reglunum.

Hvernig í ósköpunum er hann fær um að troða þessum hring inn í ferhyrning?

Ennfremur er Twitter þátttakandi í starfshópi um „rangupplýsingar“ sem hefur verið settur á laggirnar í samræmi við siðareglunurnar og hittist að minnsta kosti á sex mánaða fresti, sem og í undirhópum sem starfa á milli funda. (Sjá IX. kafla reglnanna, sem er aðgengilegur hér.)

Verkefnahópnum er stýrt af engum öðrum en framkvæmdastjórn ESB, æðsta stjórnvaldi Evrópusambandsins: sömu framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og DSA veitir fullt vald til að hafa eftirlit með því að reglunum sé fylgt og beita viðurlögum ef í ljós kemur að svo er ekki.

Hver á að geta úrskurðað um hvort eitthvað sé rangar upplýsingar, hver hefur valdið til þess? Þarna sjáum við það í hnotskurn. Þegar um er að ræða Twitter og alla aðra miðla sem eru í samstarfi við ESB, er framkvæmdastjórn Evrópusambandsins úrskurðaraðili um þetta, þar sem það er framkvæmdastjórnin sem mun ákveða hvort Twitter og aðrir miðlar geri nóg til að berjast gegn röngum upplýsingum.

Hér er því spurning mín til Elons Musk: Hvað í ósköpunum ert þú eða fulltrúar þínir að gera í fastanefnd ESB um rangupplýsingar?

Þú sagðir sjálfur í margfrægu tísti sem mjög var fagnað: „Fólk sem slær um sig með rangupplýsingatali er nær örugglega sjálft sekt um að dreifa röngum upplýsingum.” Einmitt. Hvað er það þá sem þú eða fulltrúar þínir eru að ræða í fastanefnd ESB um rangupplýsingar? Eru það ekki rangar upplýsingar? Því umræða um „rangupplýsingar” og hvernig eigi að „berjast” gegn þeim þannig að ESB sé ánægt, þetta er nú einmitt tilgangur nefndarinnar!

Ennfremur, hvaða undirhópum um tiltekin málefni tekur Twitter þátt í, samkvæmt lið 37.4 í siðareglunum?

Að hve miklu leyti hefur framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, eða kannski evrópska utanríkisþjónustan (EEAS), sem einnig á sæti í fastanefndinni, átt þátt í þróun „algríms“ Twitter sem stjórnar sýnileika Twitter notenda?

Því eins og fjallað var um í síðustu grein minni um þetta efni, þá er framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að setja á laggirnar „miðstöð um gagnsæi algríms“ sérstaklega í þessum tilgangi. Ennfremur, eins og hlutar algrímsins sem þú hefur birt sýna, er bæling „rangra upplýsinga“ innbyggð í það. Sjá til dæmis hér að neðan.

Að fá flöggun fyrir slík „brot“ leiðir til takmarkana á sýnileika. Því er spurningin þessi: Hver á að leggja dóm á hvort eitthvað er rangupplýsingar, hver úrskurðar um það? Því fyrst Twitter hefur sett viðmið um slíkt í eigin kóða, þá hlýtur fyrirtækið að viðurkenna einhvern slíkan úrskurðaraðila.

Og í því ljósi er það augljóslega engin tilviljun að helstu flokkar rangupplýsinga sem algrímið vinnur út frá endurspegla einmitt helstu áherslur ESB í baráttu sambandsins fyrir því að hafa eftirlit með umræðum á netinu: Læknisfræðilegar „rangupplýsingar” vitanlega, í tengslum við Covid-19 faraldurinn, en einnig almennar „rangupplýsingar” sem tengjast kosningum, til dæmis fréttir af kosningasvikum í Frakklandi eða Brasilíu, eða „rangupplýsingar” tengdar átökum, til dæmis í tengslum við stríðið í Úkraínu.

Undir nýjum stjórnendum Twitter hefur ógagnsæ ritskoðun algrímsins að mestu leyti tekið við af þeirri gagnsæju ritskoðun sem áður var við lýði, þar sem reikningum notenda var lokað. Skuggabönn hafa með öðrum orðum orðið viðtekin venja.

Á sínum tíma lofaði Elon Musk því að notendur Twitter yrðu látnir vita, væru þeir settir í skuggabann, og greint frá ástæðunni (sjá hér). En þetta loforð hans hefur ekki verið staðið við, ekkert frekar en loforðið um að opna að nýju alla bannaða Twitter reikninga.

Kannski kýs framkvæmdastjórn ESB fremur að ritskoðunin sé ógagnsæ og hefur því hafnað hugmyndinni, rétt eins og hugmyndinni um að opna alla lokaða reikninga.

En hvað sem þessu líður, hvers vegna fjallar Elon Musk aldrei um samvinnuna við ritskoðunararm Evrópusambandsins? Hann talar stöðugt um tilfallandi fyrri samskipti við bandarískar stjórnarstofnanir. En hvað er að gerast í fastanefndinni um „rangupplýsingar”, Elon Musk, og hvernig getur þátttaka í henni mögulega farið saman við skilyrðislausa tryggð þína við tjáningarfrelsið?

Skildu eftir skilaboð