Forsætisráðherra hefur eyðilagt samningsstöðu Íslands með yfirlýsingu um losunarheimildir

frettinInnlendar1 Comment

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur í síðdegisútvarpi Útvarps Sögu í dag. Sigmundur sagði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hafa eyðilagt samningsstöðu Íslands með yfirlýsingu sinni í gær um að Ísland hefði fengið undanþágur á losunarheimildum í flugsamgöngum.

Sigmundur sagði að um væri að ræða ákveðna sjónhverfingu því staðreyndin væri sú að þetta er frestun á greiðslu í tvö ár. Það sé útfært þannig að heimildir til losunar séu ekki teknar eins hratt af flugfélögunum eins og venjan er heldur sé það gert á aðlögunartíma og feli í sér fulla greiðsluskyldu á losunarheimildunum. Eftir tvö ár taki síðan kerfið við og þá verða engar undanþágur eða tilfærslur. Það sem verra er, er að með yfirlýsingum um samkomulag og undanþágur hafi forsætisráðherra eyðilagt samningsstöðu Íslands í málinu því málið á eftir að koma fyrir sameiginlega nefnd hjá EFTA og ESB, sagði Sigmundur.

Yfirlýsingin mun stórskaða íslenska hagsmuni

Sigmundur benti á að þegar kerfið taki við eftir tvö ár er það nákvæmlega sama fyrirkomulagið sem ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi áður sagt vera óásættanlegt og hafa sagt frá því hvernig það muni fara með Ísland, meðal annars í bréfum og á fundum með fulltrúum Evrópusambandsins. Ríkisstjórnin hefur sagt að fyrirkomulagið muni rústa stöðu Íslands sem tengimiðstöðvar í Atlantshafi þar sem það muni verða hlutfallslega meiri kostnaður fyrir flugfélög sem fljúgi til landsins heldur en önnur.

Þetta þýðir að það verði miklu hagkvæmara fyrir ferðamenn að kaupa flug annars staðar. Staðan sem Ísland hefur haft sem tengimiðstöð í Atlantshafi hefur til þessa haft mjög góð áhrif fyrir okkur því Ísland hefur val um miklu fleiri ferðir en annars og fleiri áfangastaði á betri kjörum.

„Þannig að þegar þetta er komið í gegn þá fækkar áfangastöðum héðan til mikilla muna, flugferðum fækkar og þær verða miklu dýrari, enda er markmiðið með þessu að fólk sé ekki að fljúga svona mikið“ sagði Sigmundur.

Þetta er sjónhverfing hjá forsætisráðherra

Arnþrúður spurði Sigmund hvernig skilja eigi yfirlýsingu forsætisráðherra. Sigmundur sagði að sjónhverfing væri rétta orðið því þeir sem hafa kynnt sér málið hafi séð að það væri í raun ekkert að frétta og ekkert nýtt miðað við það sem fulltrúar Evrópusambandsins höfðu nefnt áður. Samt sem áður hafi verið notuð orð eins og samkomulag og undanþága, þetta sé einfaldlega ekki undanþága fyrir Ísland, heldur frestun.

Hlusta má á allan þáttinn á vef Útvarps Sögu.

One Comment on “Forsætisráðherra hefur eyðilagt samningsstöðu Íslands með yfirlýsingu um losunarheimildir”

 1. Minna flug til landsins þýðir minna framboð af hótelum innanlands – þeim er jú aðallega haldið uppi af útlendingum.
  Minna af bíleleigubílum leiðir til minni umsvifa bílaumboða, og olíufélaga. N1, semsagt. Meðal annars…
  Minni umsvif í veitingarekstri.
  Og svo framvegis…
  Ferðaþjónustan er láglaunarekstur sem skapar þem sem þar vinna lítið, en afleidd störf eru mörg, og þetta var alveg að skapa gjaldeyri.
  Og eftir 2 ár fer það að dala mjög hratt.
  Og ef ríkið fær að ráða (sem það gerir) þá kemur ekkert í staðinn.
  Takk fyrir það.

Skildu eftir skilaboð