Þegar hugmyndafræðin og raunveruleikinn mætast

frettinEldur Deville, Heilbrigðismál, Transmál4 Comments

Eftir Eld Ísidór (greinin var send Vísi til birtingar sem skoðanagrein en hefur ekki birst þar - sjá svar Vísis undir greininni).

Eldur Ísidór

Félagið Málfrelsi bauð til fundar um fræðslustarf Samtakanna ´78 mánudaginn 15. maí. Það var fjölmennt á fundinum á Kringlukránni og nauðsynlegt að bæta við stólum þar sem salurinn var afar þétt setinn og margir þurftu að standa.

Á Vísi hafa birst greinar, opið bréf og undirskriftasöfnun til þess að skapa óvild í garð Samtakanna 22- Hagsmunasamtaka Samkynhneigðra, sem ég er í forsvari fyrir.

Fjallað hefur verið um okkur á RÚV og á Vísi án þess að við okkur hafi verið rætt. Þess vegna rita ég nú í von um að Vísir sé kannski lýðræðislegur vettvangur fyrir skoðanaskipti.

Á mánudagskvöld flutti Þorbjörg Þorvaldsdóttir, bæjarfulltrúi í Garðabæ, sérstök verkefnastýra hjá Samtökunum ´78 og fyrrverandi formaður félagsins erindi á Kringlukránni og sat fyrir svörum.

Það hefur reynst afar erfitt fyrir okkur í 22 að eiga samskipti við ´78 vegna þess að þau hafa iðulega annaðhvort neitað að ræða við okkur á opinberum vettvangi, eða hætt við á síðustu stundu, eins og þó nokkrir hlaðvarpsstjórnendur landsins vita.

Þess vegna var það kjörið tækifæri fyrir okkur að mæta Samtökunum ´78 augliti til auglitis og leyfa þeim að verja hugmyndir og kenningar sínar á opinberum vettvangi og í beinu streymi á vef Málfrelsis.

Þann 29. apríl sl. birti Vísir grein eftir Þorbjörgu, Aftur um heilbrigðisþjónustu transbarna og ungmenna. Það gerði hún eflaust vegna gagnrýni okkar um að það sem hún lét falla í annari grein, sem birt var í Morgunblaðinu 18. apríl og á vef Samtakanna ´78 um öryggi hormónablokkera og að virkni þeirra séu afturkræf.  Hún vísaði í Samtök aktívista í translækningum WPATH máli sínu til stuðnings.

Bretar, Svíar og Finnar hafa algjörlega hætt notkun sinni á hormónablokkerum á ókynþroska börnum, nema í mjög svo einangruðum tilvikum í rannsóknarskyni, þar sem þau geta valdið framheilaskaða og innkirtlafræðingar eru ekki á einu máli um virkni þeirra.

Þess vegna fannst mér kjörið að spyrja Þorbjörgu á fundinum hvort hún hafi lesið allt skjalið sem hún vísaði í á Vísi. Hún viðurkenndi að það hafði hún ekki gert. Ef hún hefði lesið allt skjalið, þá hefði hún að öllum líkindum tekið eftir því að samtökin WPATH hafa fellt aldursviðmið sín niður á skurðlækningum á börnum sem segjast vera eitthvað annað kyn er þau eru, og einnig fellt aldursviðmið sín niður er varðar lyfjaúrræði, þ.e. hormóna og stopphormóna svokallaða. Einnig í sama skjali eru geldingar eða "eunuchs" á ensku, kynnt til leiks sem kynvitund og skurðaðgerðir til að gera fólk kynfæralaust, kynnt sem hentugt meðferðarúrræði fyrir fólk á öllum aldri.

Þessar viðmiðanir sem WPATH gefa út reglulega eru notuð af aktívistum hérlendis til þess að ná markmiðum sínum í heilbrigðiskerfinu.

Ég spurði í framhaldinu Þorbjörgu að því hvort Samtökin ´78 myndu styðja blátt bann við skurðlækningum og lyfjagjöfum til barna vegna kynama yngri en 18 ára. Því vildi hún ekki svara.

Því miður skein það í gegn allan fundinn að sú sérfræðiþekking sem almenningi er talin trú um að forsprakkar Samtakanna ´78 búi yfir er ekki til staðar. Hún er engin. Það varð deginum ljósara að allt starfið er drifið af hugmyndafræðilegum kenningum kynjafræðinga sem þolir enga gagnrýni, enda voru sumir forsvarsmenn Samtakanna ´78 sem voru á staðnum gjarnir á að reyna að grípa fram í fyrir fundarmönnum, grípa fram í fyrir Þorbjörgu sjálfa og hefðu gengið út ef salurinn hefði ekki verið svo þétt setinn og ekki hefði verið auðvelt að ganga friðsamlega af fundinum.

Spurð út í transbörn og heilbrigðisþjónustu viðurkenndi Þorbjörg að Samtökin ´78 og hún sjálf væru ekki sérfræðingar og gætu því ekki tjáð sig um heilbrigðismálefni, en láta heilbrigðisstarfsfólk og BUGL sjá um það. Hins vegar eins og við vitum, ef heilbrigðisstarfsfólkið fer gegn þeirra línu þá er fólkinu fljótlega fyrirskipað að draga ummæli sín til baka og ásakað um transfóbíu. Þetta sást vel eftir að Stundin sem þá hét birti grein í maí á síðasta ári. Á innanvið sólarhring var téður starfsmaður látinn biðjast afsökunar og véfengja það sem hann hafði sagt.  Íslenskt heilbrigðisstarfsfólk hefur leitað á náðir erlendra samtaka heilbrigðisstarfsmanna til þess að fá ráð við því hvernig eigi að láta aktívisma hafa eins lítið truflandi áhrif á störf þeirra, því ágangurinn er á tíðum yfirþyrmandi fyrir þá.

Það er því merkilegt að almenningi og stjórnmálamönnum sé talin sú trú að hérna séu sérfræðingar á ferð á vettvangi Samtakanna ´78. Þau geta ekki svarað spurningum um meginþorra starfsemi þeirra, transbörnin svokölluðu. 90% af viðburðum auglýstum á vegg Samtakanna ´78 á Facebook eru stuðningshópar fyrir transungmenni niður í 10 ára.

Á hvaða faglegu forsendum eru Samtökin ´78 að veita þjónustu til þessa fólks?

Ég er þakklátur Málfrelsi fyrir að hafa boðið til þessa fundar. Núna er til streymi af fundinum þar sem fólk getur séð og kannski orðið hvatning til þess að skoða málin á gagnrýninn hátt.

Eldur Ísidór

Formaður Samtakanna 22 - Hagsmunasamtaka Samkynhneigðra 

Svar Vísis til Elds:

Sæll Eldur Ísidór,

Greinar á Vísi skulu standast ýmsar kröfur, þar á meðal sannleiksgildi staðhæfinga. Þá mega þær ekki vera í andstöðu við lög, þar á meðal ákvæði um hatursorðræðu og ærumeiðingar.

Sjá reglur okkar um skoðanagreinar hér

Það eru nokkur atriði í grein þinni þar sem þarf að koma til móts við þessar kröfur Vísis.

Í fyrsta lagi þarf að vísa til heimilda á nokkrum stöðum.

Í öðru lagi ferðu frjálslega með nokkur orð eins og aktívista.

Í þriðja lagi ferðu frjálslega með fullyrðingar um Samtökin 78. Til dæmis starfa þar sérfræðingar, þó það sé ekki á sviði heilbrigðisvísinda.

Í fjórða lagi talarðu um börn „sem segjast vera eitthvað annað kyn en þau eru." Þetta er niðrandi orðfæri. Talað er um trans börn eða börn með kynáttunarvanda skv. íslenskum lögum.

Þú getur farið yfir greinina og sent okkur aftur til lesturs. Þá endurskoðum við hvort við birtum hana.

4 Comments on “Þegar hugmyndafræðin og raunveruleikinn mætast”

 1. Þakka þér fyrir einarða afstöðu í þessu máli. Vonandi tekst að vekja fólk til meðvitundar um villigöturnar sem af transhugmyndafræðinni leiðir . Megi hin heilbrigða skynsemi og sannleikurinn sigra.

 2. Vel sagt Eldur .. Hef ekkert við þetta að bæta.

  En sjáið bara svarið frá Vísi! Það er ástæða fyrir því að ég fer ekki lengur inn á síðuna þeirra.. Vá segi ég bara…

 3. Fyndið að Vísir þykist vera kominn með einhvern sérstakan gæðastaðal á innsendum greinum

  Þetta er jú fjölmiðillinn sem birti lygagrein eftir Arndísi Önnu þingmann Pírata þegar að það lá ljóst fyrir að málflutningur hennar var lygi.

  Eins er stórkostlegt að sjá að þau vísi í einhver einhverjar meintar reglur um hatursorðræðu. Sérstaklega í ljósi þess að það er ekkert hatursfullt í þessum pistli.

  Ég minnist þess ekki að nýleg grein transaðgerðarsinna hafi innihaldið neinar tilvísanir.

  Alltaf gott að það séu reglur sem gilda um suma en ekki aðra.

 4. Þórarinn, fréttafluttningur á Vísi eða DV hefur ekkert með sannleika að gera, þetta eru stærstu rótþrærnar í ísleskri fjölmiðlun!

  Algjörir sorpmiðlar!

Skildu eftir skilaboð