Allt verður Úkraínumönnum að ógæfu

frettinArnar Sverrisson, Úkraínustríðið2 Comments

Eftir Arnar Sverrisson:

Meðan sprengjugnýr ærir íbúa í Kænugarði og klukkurnar glymja á Wall Street, vex ógæfa Úkraínumanna. Land úkraínskra bænda er sprengt, mengað og selt. Samfélagið löðrar í spillingu, meira að segja hæstiréttur. Það hriktir svo sannarlega í grunnstoðum úkraínsks samfélags. Harðari atlaga gegn rússneskri tungu og menningu er boðuð í nýrri löggjöf.

Olena Gordina, prófessor við Þjóðarvísindastofnun (National Academy of Sciences of Ukraine) segir á þessa leið.

Um þessar mundir heyja stríð og deyja sínum drottni þúsundir pilta og stúlkna, bændurnir í stríðinu. Þau eru öreigar orðnir. Jarðnæðismarkaðurinn verður stöðugt frjálsari og jarðnæði í auknum mæli falboðið. Uppkaup rýra stöðug rétt Úkraínumanna til eigin lands, landsins, sem þeir láta lífið fyrir.

Og hverjir skyldu það vera, sem ásælast land Úkraínumanna, sem er svo frjósamt, að sögn, að einu má gilda, hverju þar er stungið niður. Allt vex, þroskast og dafnar. Þetta hafa auðjöfrar og alþjóðafyrirtæki lengi vitað, enda hefur ásælni þeirra verið stöðug.

Margir um hituna í Úkraínu

Það eru margir um hituna. Sádí-Arabar og Kínverjar hafa krækt sér í spildur. En mestu munar um uppkaup alþjóðlegra auðhringa í samvinnu við innlenda auðvalda, sem beita fyrir sig gjörspilltum stjórnvöldum og siðblindum stjórnmálamönnum. Þeim tókst að hleypa upp samfélaginu, steypa stjórnvöldum og heyja stríð.

Yfirskin þessara aðgerða er kunnuglegt og margnotað í fyrri styrjöldum; tilefnislaus árás, stríð í þágu frelsis, lýðræðis, kvenna, barna og annars lítilmagna.

Hinn voldugi leiðtogi, Volodymyr, keyrði í gegnum þingið „endurbætur“ á lögum um jarðnæði. Þar á eftir fagnaði hann nýunnu fjárfestingafrelsi á Wall Street með húsbændum sínum.

Fjárfestar virðast bjartsýnir á, að í úkraínskri jörð muni vaxa peningar eins og flest annað. Jarðnæði rennur út eins og heitar lummur, þrátt fyrir andstöðu úkraínskra bænda. Landbúnaðarsamsteypur Vesturlanda kaupa þar nú jörð sem óðast. Um þriðjungur jarðnæðis er um þessar mundir á þeirra höndum.

Uppkaup á jörð

Uppkaupin eru skiljanleg í ljósi þess, að hinn fjárkæni forstjóri alþjóðafjárfestingasjóðsins, Svarta kletts (Black Rock), Larry Fink, mælti með fjárfestingum í jarðnæði og vatni. „Gerið langtímafjárfestingar í landbúnaði og vatnsbúskapi – og skreppið svo á ströndina,“ sagði hann.

Óháða hugveitan, The Oakland Institute, hefur samið fróðlega skýrslu um ástandið. Sama þróun á sér stað í Afríku. Alþjóðaauðvaldið gín yfir ræktarlandi bænda. „Kornið“ (Grain), alþjóðasamtök í þágu smábænda, hafa einnig skrifað fróðlega skýrslu um málið.

Samkvæmt Oakland Institute berjast úkraínskir bændur um í heljarklóm Alþjóðagjaldeyrisvarasjóðsins (International Monetary Fund) og Alþjóðabankans. Þessar stofnanir eru undir stjórn vestræns alþjóðaauðvalds og ótæpilega beitt til að mergsjúga íbúa „þriðja heimsins“ svokallaða – og ekki síður systur og bræður í neyð á Vesturlöndum - eins og eymingjans Íslendinga. Úkraínumenn eru þriðju stærstu skuldunautar Alþjóðagjaldeyrisvarasjóðsins.

Það hafa greinilega margir tekið Larry á orðinu. Bólusetninga-Bill fer hamförum í uppkaupum á jarðnæði í Bandaríkjunum. Frænkur mínar og frænkur í Dakóta fnæsa. Það er viðbúið, að fylgt verði þeirri stefnu Evrópusambandsins að greiða bændum fyrir að rækta ekki akra sína.

Uppkaup á landbúnaðarlandi standa sömuleiðis yfir í stórum stíl í Evrópu. Í Hollandi er það mest áberandi. Alþjóðauðhringarnir skotra um leið rauðglóandi glyrnum sínum á land bænda í Ástralíu.

Það er nöturlegt til þess að hugsa, að meðan landi og þjóð Úkraínu hrakar stöðugt, hugsi leiðtogar þess um fátt eitt annað en vopn og stríð – og eigin hag auðvitað. Það er ekki síður sorglegt, að vestrænir leiðtogar skirrist við að bera klæði á vopnin, en æsa sem mest þeir mega til frekari átaka eins og sjónarspilið í Hörpu ber svo skýran vott um.

Vaxandi mótmæli gegn þátttöku í stríðinu

Vaxandi mótmæli gegn þátttöku Vesturlandabúa í Úkraínustríðinu, láta Evrópuleiðtogar sig engu skipta frekar en flestir fjölmiðla.

Hinn volaði Volodymyr er teymdur eins og hver annar trúður milli stríðsráðstefna, þjóðþinga og þjóðhöfðingja, þar sem hann flytur sömu þuluna aftur og aftur um baráttu Úkraínumanna fyrir frelsun Evrópu og Bandaríkjannna.

Alheimsefnahagsráðið (World Economic Forum) býður Volodymyr meira að segja velkominn í smiðju sína. En þar er járnið hamrað meðan heitt er; Endurræsingin mikla (The Great Reset) eða hin Nýja heimsskipan (The New World Order), sem tók á sig mynd fyrir rúmri öld síðan. Volodymyr er þar vísmaður, en líklega býður hann ekki í grun, að stríð gegn almenningi og bændum í Úkraínu sé hluti Endurræsingarinnar miklu.

Þrástefið í úkraínsku harmkviðunni er, eftir sem áður, einfalt; drengir þjóðarinnar eru drepnir þúsundum saman í hjaðningavígum við rússneska frændur sína, fórnað á altari gírugra siðleysingja.

Tilvísanir og heimildir með greininni má sjá hér.

2 Comments on “Allt verður Úkraínumönnum að ógæfu”

  1. JB, það versta er að fávitarnir sem eru í aðalhlutverki eru alltaf að kasta meira bensíni á eldin í stað þess að slökkva hann. Það virkar alls ekki að útiloka Rússland frá öllum ráðum og með viðskiptaþvíngunumog alheims þjófnaði á eigum rússneskra borgara og maður tali ekki um stækkun NATO árásarbandalagsins! Menn verða að setjast niður og horfa á þá staðreynd að það var ekki rússinn sem startaði þessu!

    hér er nokkuð góð lýsing af atburðarrásinni!
    https://www.youtube.com/watch?v=lg9jWsgQdb4

Skildu eftir skilaboð