Bakmút fallin – Hiróshíma friður?

frettinPáll Vilhjálmsson, ÚkraínustríðiðLeave a Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson:

Yfir 200 daga umsátri um úkraínsku borgina Bakmút lauk í gær með rússneskum sigri. Selenskí forseti Úkraínu var í frægustu borg Japans, að hitta vestræna bakhjarla, þegar hann fékk fréttirnar. „Í dag færist friðurinn nær,“ sagði forsetinn. Hiróshíma-friður er annað orð yfir uppgjöf.

Opinbera frásögnin er önnur. Úkraínumenn eiga að fá F-16 herþotur til að breyta vígstöðunni. Áður fékk Selenskí undravopn eins og HIMARS eldflaugakerfi og Patriot-loftvarnir sem áttu að valda straumhvörfum en gerðu ekki.

Meint undravopn vesturlanda skipta ekki sköpum. Fjöldi hermanna vegur þyngra. Rússland er fimm sinnum stærra að mannfjölda en Úkraína.

Veigamesti einstaki þátturinn í stríðsátökunum er jafnframt sá sem erfiðast er að henda reiður á. Það er þanþol samfélaganna tveggja, úkraínska og rússneska. Mannslífum er fórnað í þúsundavís og verðmætum sóað. Hve lengi getur það haldið áfram án þess að veruleg ókyrrð grafi um sig? Enginn veit svarið við þeirri spurningu, ekki einu sinni valdhafar í Kænugarði og Kreml. Er átök dragast á langinn færist sá tími nær að annað tveggja samfélaganna í Garðaríki eða Bjarmalandi segir njet, hingað og ekki lengra. Augnablikið er kennt við október 1917.

Velgengi á vígvelli eykur þanþolið en mótgangur veit á vonleysi. Fall Bakmút er sálfræðilegur sigur Rússa en veikleikamerki Úkraínu.

Til að rétta hlut sinn er Úkraínu brýnt að sýna árangur á vígvellinum. Boðuð stórsókn í Suður-Úkraínu lætur ekki á sér kræla. Töfin gæti stafað af ótta við að sú aðgerð yrði síðasti naglinn í líkkistuna. Sókn tapar fleiri hermönnum en vörn, að öðru jöfnu. Stórskotalið er banvænsta vopnið í þessu stríði. Rússar eru sagðir í færum að skjóta 20-30 þúsund fallbyssuskotum á dag á afmörkuðum vígvelli, Úkraínumenn helmingi færri. Ólíku er saman að jafna.

Gríðarlegar mannfórnir í einni stríðsaðgerð er skilaði litlum landvinningum gætu riðið baggamuninn í Garðaríki.

Í Die Welt birtist grein er segir snögg stríðslok möguleg. Er annar stríðsaðilinn sér fram á tap innan fyrirsjáanlegs tíma, þriggja til sex mánaða, leitar hann eftir vopnahléi. Annað orð yfir Hiróshíma-frið.

Skildu eftir skilaboð