Eftir Jón Magnússon:
Áróðursþáttur frá BBC var sýndur í sjónvarpinu í kvöld. Þetta rifjaði upp fyrir mér skrif Fraser Nelson um viðbrögð við loftslagskvíða.
Fraser sagðist hafa fengið tölvupóst frá bæjarfélaginu þar sem boðið var upp á námskeið fyrir fólk með loftslagskvíða. Loftslagssálfræðingur (hvað svo sem það nú er) hefði stjórnað hópnum og spurt fólk um líðanina. Svörin voru: hræddur, sakbitinn, hjálparvana, reiður. Stjórnandinn sagði það eðlilegt, en fólk ætti að halda sér frá umræðum um loftslagsmál.
Það er hægara sagt en gert. Endalaus áróður er í sjónvarpi. loftslagsáróður er kennsluefni í skólum. Dálkahöfundurinn vísaði til loftslagsáróðursþáttarins sem sýndur var í sjónvarpinu í gærkvöld og þess neikvæða áróðurs sem þar var. Stjórnmálamenn, fjölmiðlar og „vísindamenn“ sem lifa á því að halda fram að það sé banvæn loftslagshlýnun hamast við að yfirbjóða hvern annan og mála hlutina stöðugt dekkri litum.
Afleiðingin af þessu ofstæki er að koma í ljós. Sumir eru dauðhræddir einkum börn og unglingar. Fólk neitar sér jafnvel um að eiga börn. Samt er ekkert merkilegt að gerast nema á teikniborði þeirra sem vilja bara skoða neikvæðar fréttir.
En skattlagning á almenning og afleiðingarnar af „grænu stefnunni“ sem felst aðallega í að styrkja ákveðin fyrirtæki og millifæra peninga frá skattgreiðendum til ákveðinna framleiðenda er aftur á móti að koma í ljós og fleirum og fleirum ofbýður þrátt fyrir allan áróðurinn og átta sig á að þetta er komið allt of langt.
Hollenskir bændur hafa orðið illilega fyrir barðinu á þessum trúarbrögðum og mótmæla kröftuglega. Sænski umhverfisráðherrann er í rólegheitum að útvatna grænu lögin sem hún tók í arf frá sósíalistunum og Emanuel Macron er í vandræðum heima fyrir þar sem gulvestungarnir neituðu að taka meiri hækkunum á orkuverði og hófu mótmælaaðgerðir og hafa krafist þess að Evrópusambandið hætti þessu og segja það sé þegar nóg komið. Þýskaland skrifaði upp á að bensínbílar yrðu bannaðir frá árinu 2035, en er nú á móti þeirri hugmynd.
Þegar loftslagspólitíkin fór á flug í Evrópu, þá var aldrei spurt hvað kostar þetta. Hverju náum við fram. Þýski flutningamálaráðherrann leyfði sér meira að segja að spyrja um daginn. „Hvaða skynsemi er í því að kaupa rafmagnsbíl ef rafmagnið er framleitt með því að brenna kolum“?
En það er aldrei minnst á jákvæðu hliðarnar sem eru að gerast á henni jörð. Jörðin hefur aldrei verið grænni og dauðsföllum tengdum loftslagi hefur fækkað um 90% á einni öld. Ástæðan er einföld ríkar þjóðir eiga betra með að takast á við náttúruvá.
Með því að veikja efnahagslegar undirstöður Vesturlanda má búast við að hættan aukist frá því sem nú er í stað þess að það dragi úr henni.
En það er ekki beint búin að vera hamfarahlýnun á Íslandi síðustu misserin og það eru engar stórkostlegar breytingar á veðurfari eða loftslagi umfram það sem gerist og gerst hefur í sögu jarðarinnar. Við erum frekar svo heppin að búa við meiri stöðugleika en iðulega hefur verið fyrir hendi - og þá þarf að skattleggja það að fólki líður vel og hræða það.
4 Comments on “Glórulaus áróður og viðbrögð við loftslagskvíða”
Þessi loftslagshræðsluáróður snýst eingöngu um að almenningur sætti sig við aukna skattlagningu og skert lífskjör, og að vera undir stöðugu eftirliti og hlýta tilskipunum alríkisstjórnarinnar. Því miður sýndu Covid-takmarkanir að fólk er tilbúið að fórna frelsinu og búa við sömu aðstæður og almenningur í einræðisríkinu Kína.
Óþrjótandi orka, kjarnorkan, hefur verið tiltæk í næstum 80 ár. Hún gefur fjandakornið ekki verið hættulegri en hinn ákaft boðaði heimsendir vegna „hamfarahlýnunar af mannavöldum.“
Þetta er áróður sem hefur ekkert með raunveruleg vísindi að gera, nú er flótti „loftlagsvísindamanna“ af Twitter sem voru boðberar dómsdags vegna CO2 því þeir það heldur ekkert það sem þau segja. Hitastigi jarðar er stjórnað af El Nino fyrirbærinu. Það hitnar áður en CO2 hækkar, en ekki öfugt eins og þessir falsvísindi sem er augljós áróður því þetta getur verið notað sem stjórnunartól í höndum geðsjúklinga. Fólk gleymir því að einungis 0.004% af andrúmsloftinu er CO2 og er lífsnauðynlegt öllu lífi. Ákjósanlegt magn af CO2 ppm er í kringumn 800ppm, Það er ca 400ppm í dag. Ef það fellur í 200ppm er öllu lífi á jörðinni ógnað. Áður en þau fara að spúa þessum innihaldslausa áróðri út af lífsnauðsynlegri gastegund, ætti fólk að átta sig á að CO2 var mun meira þegar litið er aftur í aldir og þá þreifst líf á jörðinni.
Ég sá ekki þennan þátt (enda búinn að fá nóg af svona loftslags-hamfara-áróðri). Ég veit hinsvegar fyrirfram að svona þættir eru gerðir til þess að skapa ótta og allar markaðsetninga og propaganda aðferðir notaðar. Vitnað er á vísindamenn, sem eru; þegar betur er að gáð mjög vafasamir eða bara alls ekki vísindamenn. Allskonar misfærslur, ýkjur og staðreyndavillur eru sett fram sem sannleikur væri.
Stóri fíllinn í póstulínsbúiðinni er vissulega að fjölmiðlar flytja þessi gervivísindi endalaust eins og fullkominn sannleik væri að ræða. Niðurstaðan er sú að það þýðir lítið að ræða þessi mál við nokkurn mann (það virðist vera búið að festa það í hausinn á þeim). Og svo halda lífskjör okkar áfram að versna og virðist stefna í örbirgð og fátækt um alla Evrópu.