Þarf að innleiða þungarokk í íslenska grunnskóla?

frettinGeir Ágústsson, Skólakerfið1 Comment

Eftir Geir Ágústsson:

Ég fékk tölvupóst um daginn sem meðlimur tölvupóstlista Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Í honum var ákall til stráka um að skrá sig í háskólanám, nánast óháð því hvað þeir vita, vilja, geta eða kunna. Ástæðan er ákveðið vandamál, sem ég hef samúð með, en hef mínar efasemdir um lausnina, og þannig er það. Ein snýr að því að það er of seint að moka strákum í háskóla ef skólakerfið fram að þeim tímapunkti hefur ekki undirbúið þá og dæmir þá til að falla og detta úr námi og missa móðinn. Og hvernig stendur á því (fyrir utan að það er búið að berja úr þeim karlmennskuna, drifkraftinn, metnaðinn og áhugann)?

Á mínum grunnskólaárum voru Metallica og Guns N´ Roses vinsælustu hljómsveitirnar meðal okkar strákanna, þótt ég hafi kannski ekki alveg verið á nótunum í því á þeim tíma. Í myndmennt voru sumir strákanna að reyna teikna merki þessara hljómsveita eins vel og þeir gátu og skila af sér sem verkefni. Þeir eyddu sínum peningum og tíma í að kaupa og hlusta á tónlist þessara hljómsveita, söfnuðu jafnvel síðu hári eins og forsprakkar þeirra og æfðu sig á hljóðfærum til að reyna spila lög þeirra.

Ég þróaði með mér smekk fyrir þungarokki einhverjum árum seinna og hef ekki snúið aftur. Sérstaklega var ég, og er, hrifinn af tónlist hljómsveitarinnar Slipknot, og hún heldur mér oft við efnið í vinnunni við ákveðin tækifæri.

Hvað um það. Þungarokk er eins og menn vita: Þungt. Takturinn er yfirleitt hraður og hávaðinn mikill. Á tónleikum baða menn út höndum, ýta við öðrum og er ýtt á móti, keyra hausinn upp og niður og öskra eins og lungun leyfa þegar þannig liggur við. Myndbönd frá þungarokkstónleikum gefa eflaust mynd af ofbeldi, brjálæði og stjórnleysi. En sem ítrekað vitni get ég vottað að svo er ekki. Þetta eru meðal friðsælustu viðburða sem um getur og fólk passar hvert annað þegar hamagangurinn er mikill (með örfáum undantekningum - einu sinni og bara einu sinni varð ég vitni að því að eitthvert vöðvatröllið var að leita að átökum en gekk illa).

En hvað kemur þetta lélegri mætingu stráka í háskóla við? Kannski ekkert, en mín uppástunga er sú að stráka vantar útrás og fá hana ekki lengur. Þeir eru í læstu búri, og meira svo en á mínum grunnskólaárum, sem að mestu leyti fór fram undir styrkri stjórn miðaldra, vingjarnlegrar konu sem náði til allra. Þeir sitja á orku sem er bæld niður í skólanum og springur í loft upp utan skólans - í rangan farveg.

Kannski þarf að innleiða þungarokk í námsskrá til að mæta þessu misræmi í skipulagningu og þörf.

Ég þurfti ekki á slíku að halda á sínum tíma en sé fyrir mér að of fastir rammar hefðu kæft sál margra minna fyrrum bekkjabræðra í órólegu deildinni sem hafa fundið sína hillu í dag - frá tónlistargerð og markaðssetningu til forritunar.

Útrásin þarf auðvitað ekki að vera þungarokkstónleikar. Ég ræddi fyrir ekki löngu við móður uppkomins drengs sem rakst á alla á sinni grunnskólagöngu fyrir utan einn kennara sem sendi strákinn út í hlaupatúr með reglulegu millibili og gat svo kennt honum þess á milli eins og öðrum. Strákur sem allir kölluðu ofvirkan kallaði kennarinn bara virkan.

Það er eitthvað mikið að í grunn- og framhaldsskólakennslu drengja á Íslandi eins og tölurnar segja með blikkljósum og óhljóðum. Það er gott að ráðherra háskólanna tekur eftir, en það er slæmt ef það er eini ráðherrann sem tekur eftir.

Mín uppástunga: Hefjið hverja kennslustund á því að leyfa strákunum, að minnsta kosti, að fá útrás við lagið People=Shit, með Slipknot. Ef kennslustundin er ekki rólegri eftir það miðað við aðrar án slíkrar útrásar þá borga ég kaffibolla fyrir viðkomandi kennara.

One Comment on “Þarf að innleiða þungarokk í íslenska grunnskóla?”

Skildu eftir skilaboð