Beinagrindur í skáp veirutíma

frettinGeir ÁgústssonLeave a Comment

Eftir Geir Ágústsson:

Á tímum heimsfaraldurs, svokallaðs, var mjög sterkum skilaboðum beint á mjög einsleitan hátt til íbúa flestra vestrænna ríkja. Þessi skilaboð breyttust vissulega – á tímabili voru grímur óþarfar en síðar ómissandi, fjöldatakmarkanir breyttu fjöldanum í sífellu, skólaganga var stundum leyfð og stundum ekki, og svona mætti lengi telja – en þegar skilaboðin breyttust þá breyttust þau á öllum miðlum. Fréttamiðlarnir voru mjög samstíga, svo dæmi sé tekið. Það var sennilega auðsótt mál af hálfu yfirvalda því hvaða blaðamaður vill tala úr takt og vera stimplaður samsæriskenningasmiður sem afneitar hættulegri veiru? Fáir.

Öllu lúmskari var stjórnin á opinberri umræðu á samfélagsmiðlum. Margir héldu í góðri trú að opinskáar og gagnrýnar umræður væru hálfgerð réttindi á slíkum miðlum og þurftu svo að bíta í það súra epli að vera bannaðir eða takmarkaðir áýmsan hátt (innleggjum eytt, aðgangi eytt, innlegg falin öðrum og þar fram eftir götunum). Grunsemdir vöknuðu snemma um skipulagða ritskoðun af hálfu samfélagsmiðlanna. Ástæðurnar voru á reiki. Mögulega var um að ræða sjálfstætt mat þeirra á hættu heimsfaraldursins, mögulega að fölsk vísindi gætu valdið miklum skaða á samfélaginu og ábyrgðarfullir stjórnendur samfélagsmiðla væru með hag almennings efst á blaði þegar þeir lokuðu á óæskilegar skoðanir.

Raunin er önnur og varhugaverðari. Nú þegar rykið er að mestu sest eftir heimsfaraldurinn eru beinagrindur veirutíma byrjaðar að læðast út úr skápnum. Í ljós er að koma að samfélagsmiðlar voru ekki að sinna einhverri ábyrgri og sjálfstæðri varðstöðu um vísindin. Þeir voru verktakar yfirvalda og sáu um að framkvæma stefnu þeirra. Nýleg gögn í Ástralíu veita gott sýnidæmi. Nú hefur komið í ljós að samfélagsmiðlar hafi beinlínis tekið við fyrirmælum frá áströlskum yfirvöldum um hvaða skoðanir mættu og mættu ekki birtast á samfélagsmiðlum. Yfirvöld sendu einfaldlega ábendingar til samfélagsmiðla eins og Instagram og Twitter, bentu á færslur og hópa sem voru þeim ekki að skapi, og samfélagsmiðlarnir sáu um tiltektina.

Svipaðar afhjúpanir eru að birtast í fleiri ríkjum og byrja að mynda heildstæða mynd, sem er sú að samfélagsmiðlar eru íraun opinberir ríkismiðlar sem eiga að veita yfirvöldum vernd frekar en samfélaginu miðlun.

Það er full ástæða til að hafa grafalvarlegar áhyggjur af þessu samstarfi miðla af ýmsu tagi og yfirvalda og jafnvel alþjóðlegra stofnana  sem vilja ekki þola gagnrýni og málefnalegt aðhald. Hér er ekki bara um að ræða einhverja brjálæðinga með álhatta sem verða fyrir slíkri ritskoðun. Á veirutímum voru læknar, vísindamenn, prófessorar, stjórnmálamenn, blaðamenn og margir aðrir fjarlægðir á einn eða annan hátt úr opinberri umræðu ef þeir viku frámeginstefinu. Málfrelsið var einfaldlega tekið úr sambandi. Sumir fundu krókaleiðir, sumir voru utan seilingar með eigin miðlun og héldu sínu striki (vinsælir hlaðvarpsstjórnendur þar á meðal). Leitin að sannleikanum hélt áfram en hún gerðiþað ekki á samfélagsmiðlunum. Hún fann sér aðra farvegi.

Nú þegar beinagrindurnar eru byrjaðar að velta úr skápunum er kominn tími til að staldra við að hugleiða hvað við gerum næst þegar blásið er í yfirgengilegar skerðingar á borgaralegu frelsi fólks. Fyrsta skrefið fyrir alla er að byrja tjá sig, og óttast ekki.

Greinin birtist fyrst á Krossgötur.is 27.05.2023.

Skildu eftir skilaboð