Að deyja með Covid en ekki af völdum þess – ,,hagræðing“ á tölfræði

frettinPistlar

Már Kristjánsson læknir og forstöðumaður smitsjúkdómadeildar Landspítalans hefur upplýst að andlát fólks sem sýkt er af Covid teljist sem andlát tengd Covid-19. Þetta kom fram í fréttum á Vísi.is í gær. Sagt var frá því að karlmaður hafi látist með Covid en á síðu Landspítalans segir:

„Eitt andlát var um helgina en sá einstaklingur var lagður inn af öðrum orsökum en COVID-19", segir á síðu Landspítalans. En að sögn Más telst andlátið vera tengt Covid. Sóttvarnarlæknir hefur staðfest að andlátið verði skráð sem Covid tengt andlát.

Þessi umræða hefur verið áberandi í Bretlandi og Bandaríkjunum, þ.e.a.s. að dánarorsök sé skráð COvid-19 þrátt fyrir að dánarorsök sé í raun önnur.

Í apríl sl. var sagt frá því í The Telegraph að fjórðungur skráðra Covid andláta hafi ekki verið af völdum Covid heldur af öðrum ástæðum. 

Skv. lögum um ritun dánarvottorða hér á landi skal sá læknir er skoðar líkið skrá líklega dánarorsök á vottorðið.  Tölfræði um dánarorsakir byggir á dánarvottorðum. Þegar birtar eru opinberar tölur um andlát eftir dánarorsökum á Íslandi er aðeins stuðst við svokölluð undirliggjandi dánarmein, segir á vef Landlæknis. 

Miðað við þessar upplýsingar og þær frá Landspítala um að maðurinn hafi verið lagður inn af öðrum örsökum en Covid, verður dánarorsök varla skráð sem Covid. Það er reyndar þannig að Covid er ekki talinn upp sem ein af mögulegum dánarorsökum í gögnum Hagstofunnar. Skv. þeim opinberu gögnum lést enginn af völdum Covid árið 2020. Þar er þó að finna inflúensu og lungnabólgu.

Í sumar kom fram hjá Runólfi Pálssyni lækni á Landspítala, að þeir sem höfðu verið bólusettir fyrir viku teljist í raun óbólusettir á Landspítalanum og væru því flokkaðir sem svo. Þannig eru gögn um bólusetta og óbólusetta villandi.

Hér er augljóslega verið er að hagræða talnaefni, að telja þá sem vissulega eru bólusettir (þrátt fyrir að ákveðinn tími sé ekki liðinn frá bólusetning) sem óbólusetta og telja þá sem greinast með kórónuveiruna en látast af öðrum ástæðum, sem Covid andlát.

Andlát vegna bóluefna

Til samanburðar heldur Lyfjastofnun utan um tilkynnt dauðsföll af völdum Covid bóluefna, þ.e.a.s. þar sem grunur leikur á að bóluefnin hafi orsakað andlátin.

Þar má sjá að nánast hvert einasta andlát er tengt við undirliggjandi sjúkdóma og/eða „háan" aldur, þrátt fyrir að eitt aldursbilið sé 65-74 ára:

24 þeirra varða andlát. 18 andlát vörðuðu aldraða** einstaklinga, 15 þeirra með staðfesta undirliggjandi sjúkdóma. Fimm andlát vörðuðu eldri*** einstaklinga, fjórir þeirra með staðfesta undirliggjandi sjúkdóma. Eitt andlátið varðaði einstakling á aldursbilinu 60-64 ára með staðfestan undirliggjandi sjúkdóm. (** Aldraðir einstaklingar eru hér skilgreindir 75 og eldri.*** Eldri einstaklingar eru hér skilgreindir á aldursbilinu 65-74 ára.)

Formúlan er því nokkurn veginn svona: Andlát sem tilkynnt er til Lyfjastofnunar þar sem grunur liggur á að bóluefnin hafi leitt til dauða, eru skrifuð á undirliggjandi sjúkdóma eða aldur. Andlát þar sem einstaklingar deyja af völdum undirliggjandi sjúkdóma, þar á meðal háaldrað fólk,  en greinast einnig með kórónuveiruna, eru skráð á Covid.  Og ný-og hálfbólusettir einstaklingar sem veikjast af Covid, eru taldir óbólusettir. 
Hér er einnig frétt um það hvernig CDC í Bandaríkjunum leiðbeinir sjúkrahúsum að skrá látna bólusetta einstaklinga sem óbólusetta.