Kristín Amalía Atladóttir skrifar:
Sem landeiganda ber mér að girða land mitt af vilji ég ekki að sauðfé annarra valsi þar um. Já, þú last rétt, mér ber að leggja út milljónir til þess að vernda land mitt og gróður þess fyrir búfénaði annarra. Jafnvel skógræktarbændur verða að hlýta þessu til að vernda ræktun sína. Geri ég það ekki hafa búfjáreigendur frjálsan aðgang að landi mínu til beitar, jafnvel á garðplöntur og annan garðagróður við hús mitt.
Sem landeiganda ber mér, skv. lögum, að smala heimaland mitt, burtséð frá því hvort ég á fé eða ekki. Einn dag á ári verð ég, skv. lögum, að smala annarra manna fé. Dagsetning er ákveðin af fjallskilanefnd sveitafélags án samráðs við mig. Já, þú last rétt. Í einn dag á ári er ég skikkuð með lögum að gefa sauðfjáreigendum í nágrenni mínu vinnu mína og tíma. Íslensk lög heimila nauðungarvinnu í þágu eins samfélagshóps.
Þegar ég er búin að smala í heilan dag, án kunnáttu, tækja og ökutækja sem sauðfjárlaus kotbóndi býr ekki yfir, ber mér að hýsa og fæða þær skepnur sem ég smala (séu þær 1 eða 100) í allt að tvo daga. Já, þú last rétt. Eigi ég ekki fjárhús eða önnur hús er líklega eina úrræðið að bjóða fénu til stofu. Fjallskilanefndir hafa mismunandi hátt á þessu síðasta atriði en það þekkist að landeigandanum er gert skylt að flytja féð heim til þess og afhenda eiganda að nauðungarsmölun lokinni.