Lokunaraðgerðir þar til þriðju bólusetningu er náð?

frettinInnlendar

Hert verður á samkomutakmörkunum á miðnætti en þá mega fimmtíu manns koma saman en þó með svigrúmi fyrir 500 manna viðburði. Opnunartími veitinga- og skemmtistaða verður styttur um klukkustund og þeim gert að loka klukkan 22:00.

Þetta sagði Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, fréttamönnum þegar hún kom út af löngum ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum í Tjarnargötu í hádeginu.

Áfram er gert ráð fyrir eins metra fjarlægðarreglu og grímuskyldu sem tók gildi fyrir viku ef næst ekki 1. metra nálægðartakmörkun . Sundlaugar og líkamsræktarstöðvar geta tekið á móti 75% af leyfilegum hámarksfjölda.

Fimm hundruð manna viðburðir verða heimilir ef gestir geta sýnt fram á neikvæða niðurstöðu úr hraðrófi og grímuskylda er virt. Veitingastaðir þurfa að loka klukkan 22:00 en síðustu gestir að vera farnir út fyrir klukkan 23:00.

Þá sagði Svandís að að stóra átakið væri að gefa 160.000 manns örvunarskammt af bóluefni fyrir áramót. En þess má geta að Ísraelar undirbúa sig nú undir þann fjórða.

Svandís bætti því svo til að vonir stæðu til að aðgerðirnar skiluðu árangri en ekkert er hægt að fullyrða í þeim efnum.

Kórónuveirusmituðum hefur fjölgað mikið að undanförnu og hefur met yfir fjölda daglegra smita verið slegið fjórum sinnum á síðustu vikunni. Tvö hundrað manns greindust smitaðir á miðvikudag og hafa þeir ekki verið fleiri á einum degi frá upphafi kórónuveirufaraldursins.

Aðeins vika er liðin frá því að grímuskyldu var víða komið á aftur og 500 manna samkomubann tók gildi á miðvikudag. Þó var leyfilegt að halda allt að 1.500 manna viðburði ef gestir gætu sýnt fram á neikvætt hraðpróf. Þá var afgreiðslutími veitingastaða styttur um tvær klukkustundir frá því sem fyrir var og var þeim gert að loka klukkan 23:00.