Málverk Fridu Kahlo seldist á 5,8 milljarða

frettinErlent

Málverk eftir mexíkósku listakonuna Fridu Kahlo seldist í gær í upphoðshúsinu Sotheby í New York fyrir 34,9 milljónir dala, um 5,8 milljarða króna. Þetta er hæsta verð sem greitt hefur verið á uppboði fyrir rómanskt-amerískt listaverk.

Metið hafði áður verið slegið með sölu á málverki eftir Diego Rivera, sem Kahlo giftist tvisvar og átti í áralöngu og stormasömu hjónabandi með. Verk Rivera seldist á 9,76 milljónir dala árið 2018 eða um 1,3 milljarð króna.

Málverkið Diego og ég var ein af síðustu sjálfsmyndum Kahlo og sýnir hana tárvota með eiginmann sinn Diego Rivera málaðan á ennið. Á uppboðinu var verkinu lýst sem „einu mikilvægasta verki Kahlo sem nokkurn tíma hefur komið á uppboð."

Kaupandinn heitir Eduardo F. Cosantini, stofnandi málverkasafns í Argentínu, samkvæmt New York Times. Frida Kahlo sem er almennt álitin einn af merkustu málurum 20. aldarinnar var fræg fyrir innilegar sjálfsmyndir sem endurspegluðu bæði sársauka og einangrun. Hún fæddist árið 1907 og lést 1954.