Neytendasamtökin telja skilmála lána með breytilegum vöxtum ólöglega, þar sem ákvarðanir um vaxtabreytingar eru verulega matskenndar og ógegnsæjar. Þess vegna er ekki hægt að sannreyna hvort þær séu réttmætar. Neytendasamtökin ætla að stefna bönkunum á allra næstu vikum. Jafnframt eru lántakar hvattir til að bregðast fljótt við og verja rétt sinn og fjárkröfur, að öðrum kosti geta þær fyrnst og þannig tapast.
Fyrir rúmu ári kröfðu Neytendasamtökin bankana um lagfæringu skilmála sinna um breytilega vexti í lánasamningum og leiðréttingu á hlut þeirra lántaka sem hallað hefur verið á með vaxtabreytingum sem standast ekki ákvæði laga. Bankarnir höfnuðu kröfum Neytendasamtakanna þrátt fyrir fjölmarga dóma og úrskurði sem allir hafa fallið á sama veg: óskýrir skilmálar og einhliða vaxtabreytingar er fyrirkomulag sem stenst ekki lög. Má í því sambandi benda á dóm Hæstaréttar frá árinu 2017 þar sem Íslandsbanka var gert að endurgreiða þúsundum lántakenda oftekna vexti, dóma Evrópudómstólsins, og úrskurð Neytendastofu.
Vaxtamálið varðar öll lán með breytilegum vöxtum til neytenda, bæði verðtryggð og óverðtryggð, hjá öllum lánastofnunum, bæði húsnæðislán sem og önnur lán, jafnvel þó að ekki hafi reynt á vaxtabreytingar. Lán sem bera „fasta vexti“ hluta lánstímans, til dæmis 3-5 ár, en sem geta tekið breytingum, eru í raun lán með breytilegum vöxtum. Lánin einskorðast ekki við bankana, heldur einnig aðrar lánastofnanir, svo sem lífeyrissjóði og sparisjóði. Þetta verðar einnig lán sem hafa verið greidd upp á síðastliðnum fjórum árum.
Til að gefa einhverja hugmynd um hvaða upphæðir er að ræða fyrir hvern og einn lántaka má miða við dæmigert 30 m.kr. húsnæðislán. Hvert oftekið prósentustig í vöxtum nemur 300.000 kr. á ári. Neytendasamtökunum reiknast til að oftakan sé allt að 2,25 prósentustig eða sem nemur 675.000 kr. á ári, miðað við gefnar forsendur. Dæmi eru um lán þar sem oftaka bankanna nemur mörgum milljónum króna, að mati sérfræðinga á vegum Neytendasamtakanna.
Mikilvægast er þó það að lántakar séu ekki útsettir fyrir einhliða ákvörðunum um vaxtabreytingar lána sinna í framtíðinni. Vextir eru nú teknir að hækka aftur eftir skeið lægri vaxta og því þarf að vera alveg skýrt hvað ræður vaxtaákvörðunum, enda um mikla hagsmuni að tefla fyrir lántaka.
Ekki liggja fyrir opinberar upplýsingar um fjölda eða upphæð lána með skilmála um breytilega vexti og því þarf að taka eftirfarandi tölum með fyrirvara. En í lok mars 2021 námu útlán viðskiptabankanna til heimilanna tæpum 1.550 milljörðum króna. Neytendasamtökin telja að stærstur hluti þessara lána sé með ólöglegum skilmála um breytilega vexti. Þannig nemur hvert prósentustig til eða frá 15,5 milljörðum króna.
Hefur þú tekið lán með breytilegum vöxtum? Fjölmargir dómar og úrskurðir hafa fallið á sama veg, að lán með breytilegum vöxtum standast ekki lög. Þú gætir átt kröfu um endurgreiðslu …en bara ef þú tekur þátt.
Allar nánari upplýsingar og skráning til þátttöku á vaxtamalid.is