Eiður Smári Guðjohnsen er hættur störfum sem aðstoðarþjálfari karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu. Þetta kemur fram í tilkynningu sem KSÍ og Eiður sendu frá sér rétt í þessu.
Í tilkynningunni segir að komist hafi verið að samkomulagi um starfslok hans en KSÍ virkjaði endurskoðunarákvæði í ráðningasamningi hans og Eiður lætur af störfum 1. desember næstkomandi.
Eiður kom inn í þjálfarateymið strax og Arnar Þór Viðarsson var ráðinn landsliðsþjálfari í desember 2020 og hætti þá störfum hjá FH en þar hafði hann áður verið búinn að ráða sig sem aðalþjálfara til tveggja ára.
„Samkomulag um starfslok mín voru tekin með hagsmuni mína, landsliðsins og KSÍ að leiðarljósi. Ég vil þakka öllum innan sambandsins fyrir frábært samstarf undanfarið ár. Síðasta ár hefur verið mjög krefjandi bæði innan vallar sem og utan bæði fyrir mig persónulega sem og sambandið. Áfram Ísland," segir Eiður í sameiginlegri tilkynningu hans og KSÍ.