Bólusetningarskylda og lögregluríki

frettinPistlar

Þórarinn Hjartarson sagnfræðingur skrifar:

Um allan heim eru átök og spenna sem virðast vaxa með hverjum deginum. Opinbert tilefni átakanna nú er deilan um mismunun óbólusettra með lögum, lögum sem innleidd hafa verið í ýmsum löndum, og skref verið tekin í þá átt í næstu nágrannalöndum okkar (Noregi, Svíþjóð). Þar er um að ræða  innanríkisvegabréf, víða nefnt ,,grænn passi“ eða „kórónupassi“, bólusetningarskilríki sem sett eru sem skilyrði fyrir borgaralegum réttindum. Við nánari athugun sést að deilan snýst um nokkrar meginreglur réttarríkis, og um lýðræðið.

Á Íslandi hefur sóttvarnarlæknir fengið að leggja línuna undanfarin misseri í kerfi sem kalla mætti ,,sóttvarnarríki“ frekar en réttarríki. Núna telur hann ,,ekki faglegar forsendur fyrir að mismuna bólusettum og óbólusettum að svo stöddu.“ Þórólfur gefur samt hugmyndinni um mismunun undir fótinn, að veita þeim sem fengið hafa örvunarskammt ,,réttindi umfram aðra" ef sá skammtur reynist vel. Undir þetta hafa einhverjir ráðherrar tekið, og sóttvarnargúrú Kári Stefánsson líka. Svo varla boðar það gott um framhaldið.

Innanríkisvegabréf – hvað þýðir það?

Opinská mismunun milli þegnanna er nú innleidd í einu landinu af öðru. Um er að ræða mestu frelsisskerðingar á borgara í hinum vestræna heimi á friðartímum. Öfgakennd dæmi eru Ástralía, Austurríki, Lettland, Rússland, Kanada. Aðferðin er að útiloka óbólusetta í áföngum frá samfélaginu og gera þeim lífið óbærilegt. Vitnisburður um það er t.d. þetta neyðarkall frá Ástralíu, þar sem stórnvöld ganga lengst.

Í flestum löndum er áróðurinn fyrir bólusetningu (nefndur ,,upplýsing) ákafur og linnulaus. Það dugar samt ekki til þess að allir hlýði. Í Austurríki er þriðjungur enn óbólusettur, hlutfallið er litlu minna í Bandaríkjunum, í ESB-borginni Brussel nærri helmingur. En ef fullnusta á skyldubólusetningu og áróðurinn dugar ekki er ekki annað eftir en valdboð og þvingun gegn stórum minnihluta þegnanna. Réttarríkið og lögregluríkið vega salt, og þróunin stefnir að því síðarnefnda. Í einu landi af öðru.

Mismunun af þessu tagi minnir illilega á aðskilnaðarkerfið sem ríkti í Suður-Afríku. Þar var innanríkisvegabréf miðlægt atriði til að sundurgreina borgarana m.t.t. kynþáttar. Gyðingastjarnan í Þýskalandi var einnig vel þekkt merki til sundurgreiningar þegnanna. Innanríkisvegabréf voru líka miðlægt atriði í stjórnarháttum nasista bæði í Þýskalandi og herteknum löndum Heimsstyrjaldarinnar síðari. En að lokinni þeirri styrjöld var eftirfarandi grein sett inn í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna nýstofnaðra (sjöunda grein): ,,Allir skulu jafnir fyrir lögunum og eiga rétt á jafnri vernd þeirra, án nokkurrar mismununar.

Frá lokunarstefnu til bólusetningarskyldu

Frá upphafi faraldurs hefur sóttvarnarstefnan verið miðstýrð frá WHO sem orðið er verkfæri lyfjaauðvalsins. Fjórir stærstu kostunaraðilar samtakanna eru USA, Bretland, Bill & Melinda Gates Foundation og GAVI Alliance, en stærsti kostunaraðili síðasttalda er aftur á móti Bill & Melinda Gates Foundation.

Og stefnan hefur verið óttastjórnun, stjórnun með tilskipunum og mottóið verið ,,hlýðni.“ Hræðsluáróðurinn var frá byrjun kerfisbundinn og massífur. Ríkjandi meginaðferð WHO var aðferð samfélagslegra takmarkana og lokana sem drápu mun fleiri en sjúkdómurinn sjálfur.

 Og lokunarstefnan skyldi gilda þangað til ,,bóluefni væri þróað.“  Í krafti sóttvarnaraðgerðanna voru ýmis mannréttindi afnumin til lengri eða skemmri tíma. Árið 2021 voru bóluefni komin fram, prófuð í afar stuttan tíma, og allt árið hefur baráttuaðferðin verið enn frekar á forsendum lyfja- og bóluefnaframleiðenda: einhliða áróður fyrir því að bólusetja alla heimsbyggðina. Óttastjórnunin hélt áfram og mannréttindin hafa illa skilað sér til baka.

Þetta hefur víða leitt til mikillar samfélagslegrar spennu. Fyrst með og móti bólusetningarherferðinni. Ástæða mikillar tortryggni í garð nýju efnanna er m.a. ofurvald bóluefnaframleiðenda, einhliða áróðurinn og offorsið í dreifingu lítt prófaðra bóluefna, óttastjórnunin, skoðanakúgunin, eftirlitssamfélagið og framhald á skerðingu mannréttinda. Ríkjandi áróður stillir því upp þannig að átökin standi milli fylgjenda og andstæðinga bóluefna almennt (jafnvel vísindaandstæðinga á lágu greindarstigi). Það er liður í að afmennska andstæðingana. Þetta er rangt, ,,anti-vaxxerseru fæst okkar. Heldur hefur spurningin verið: Vilt þú taka þessi tilteknu (tilrauna-) bóluefni eða ekki?

En spurningin er ekki lengur hvort við viljum eða viljum ekki. Hún er hins vegar þessi: Máttu segja nei? Hið stjórnlynda svar er: nei. Þau færa fyrir því nokkur rök. Einkum þessi: Óbólusettir bera ábyrgð á smitinu í samfélaginu!

Óttastjórnun – og mótmæli

Danski forsætisráðherrann Mette Fredriksen sagði nú í nóvember um þá óbólusettu: ,,Það er lítill hópur sem virðir ekki leikreglurnar sem gilda í samfélaginu í heimsfaraldri. Með því bera menn ábyrgð á öllu danska samfélaginu núna.“

Og kanslari Austurríkis orðaði það svo: ,,Þeir óbólusettu bera ábyrgð á árás á heilbrigðiskerfið okkar.“ Forseti austurríska læknaráðsins lýsti yfir: ,,Maður þarf kannski að binda nokkra og sprauta svo,“ ennfremur að tryggja þurfi að ,,þeir óbólusettu upplifi gífurleg óþægindi í vinnunni.“

Endalaus smit-tölfræði í fjölmiðlum hefur frá upphafi faraldurs sýnst hafa þann megintilgang að hámarka óttann í samfélaginu, og það hefur haft nokkurn veginn tilætluð áhrif. Beiting ótta er meðvitað pólitískt vopn, ekki nýtt vopn. Ekki síst ótti þegnanna hver við annan. Notkun ótta og óöryggis er stjórnunaraðferð alræðishyggju (totalitarisma). Það er aðferð til að breyta hugsandi almenningi í hrædda hjörð – og hræddri hjörð er auðvelt að stjórna. Allra best þykir þá að láta þegnana stjórna hver öðrum. Beiting kjörorðsins Við erum öll almannavarnir! getur t.d. virkað vel í að siga einum hópi á annan.

Í Covid-fárinu í Bretlandi var stofnuð nefnd um aðferðir til að hafa áhrif á sóttvarnarhegðun fólks og hún beitti óspart óttanum til þess. Nefndin kallaðist Scientific Pandemic Influenza Group on Behavior. Meðlimir úr nefndinni hafa nú viðurkennt að aðferðirnar hafi verið ,,siðlausar“ og tilheyri ,,alræðishyggju.“ Þetta skrifar CNBC News.

Átakið World Wide Demonstration (einnig þekkt sem World Wide Rally For Freedom) skipulagði þann 20. nóvember 2021 alþjóðlegan aðgerðadag til að hvetja borgarana til að berjast gegn Covid-tengdum kúgunaraðgerðum og takmörkunum í einstökum löndum, og barátta gegn innanríkisvegabréfum var öllu öðru fremur í fókus. Ástralir börðu hraustlega frá sér (150-200 þúsund mótmæltu í Sydney, 350-500 þúsund í Melbourne). Í Vín í Austurríki voru stærstu mótmælaaðgerðir um langan aldur, kannski 100 þúsund manns. Hér sýna þeir Patrick Henningsen og Brian Gerrish myndbandsklippur af aðgerðunum (sjá fyrstu 7 mínútur) á UK Column News.

Aðgerðirnar fóru yfirgnæfandi friðsamlega fram. Íslenskir meginstraumsmiðlar voru sjálfum sér samkvæmir og gerðu þeim afar lítil skil, nema mótmælunum í Rotterdam þar sem urðu nokkrar óeirðir við lögreglu. Fréttablaðið lét nægja að vitna í hollenska forsætisráðherrann sem sagði: „Ég mun aldrei sætta mig við að hálf­vitar beiti hreinu of­beldi gegn fólki...sem vill tryggja öryggi í landinu.” Og að kvöldi mótmæladagsins sagði RÚV fréttir frá Austurríki, ekki frá 100 þúsund mótmælendum heldur frá tveimur 16 ára drengjum sem hefðu ætlað að ,,hella bensíni yfir lögreglumenn” og kveikja í. 

Að óbólusettir beri meginábyrgð á álagi á heilbrigðiskerfinu stenst reyndar enga skoðun. Ísland er með bólusettustu löndum heims, en það kemur að litlu haldi þar sem landið er nú dökkrautt á alþjóðlegum litaskala fyrir Covid-smit! Breska nýlendan Gíbraltar mælist með langhæst hlutfall bólusettra af öllum löndum, yfir 100% ! Þar hafa greinst 50 ný smit á dag að jafnaði undanfarnar vikur (íbúafjöldi á borð við Kópavog) og er smitið í veldisvexti. Stjórnvöld heita á íbúa að sleppa öllu samkomuhaldi og einnig öllum einkaveislum fyrir jól. 

Frá upphafi hafa borist miklar tilkynningar um aukaverkanir af bóluefnunum nýju. Lyfjastofnun Íslands hafa borist ríflega 5.500 tilkynningar um aukaverkanir, þar af eru tæplega 230 vegna ,,alvarlegra aukaverkana.”  Það þýðir ein alvarleg aukaverkun á hverja 1000 bólusetta, sem er mörghundruðföld áhætta miðað við venjulegar bólusetningar. Vitað er að Kórónuveiran er ungu fólki mjög hættulítil. Aukaverkanirnar hafa hins vegar ekki lagst léttar á ungt fólk, nema síður væri. Það getur því verið fullkomlega málefnaleg ákvörðun, ekki síst hjá ungu heilbrigðu fólki, að láta ekki bólusetja sig (og sá hópur er líka að meirihluta ungt fólk).

Bólusettir virðast smita lítt eða ekkert minna en óbólusettir. Og meirihluti innlagna á Íslandi er líka yfirleitt fullbólusett fólk, svo það er rangt að ,,hinir líkþráu" og óbólusettu setji hér allt á hliðina. Hitt mun vera rétt að hlutfallslega fleiri óbólusettir leggist inn. En nægir það til að skerða mannréttindi þeirra? Með sömu rökum mætti skerða mannréttindi t.d. fólks í yfirvigt, reykingamanna, þeirra sem borða óhollt og valda mun meira álagi á heilbrigðiskerfið. Í þessu samhengi er aðalatriðið áðurnefnt prinsipp réttarríkis og SÞ um að allir skuli jafnir fyrir lögum.

Er veikin Covid-19 þess virði?

Er tilefni til að afnema réttarríkið og setja samfélagið á hliðina út af sjúkdómi þar sem dánarhlutfall smitaðra er nálægt 0,2%? Í Bulletin of the World Health Organization í október 2020 birtist grein eftir viðurkenndan faraldsfræðing, John Ioannidis (prófessor Stanford University), um dánartíðni af völdum covid-19 sem sýndi dánarhlutfall smitaðra (IFR) á nokkrum ólíkum svæðum á jörðinni. Rannsókn Ioannidis var gerð meðan faraldurinn var nálægt hámarki og áður en bóluefni komu fram. Hún sýndi að dánarhlutfall smitaðra af covid væri allbreytilegt frá einu svæði til annars í veröldinni:

„Óleiðrétt mat á dánarhlutfalli smitaðra af covid-19 var breytilegt, frá 0,01% til 0,67% (miðgildið 0,1%) á 19 stöðum með dánartíðni undir alþjóðlegu meðaltali, frá 0,07% til 0,73% (miðgildi 0,2%) á 17 stöðum með dánartíðni yfir meðaltali en samt með minna en 500 covidtengd dauðsföll pr. milljón íbúa, og frá 0,2% til 1,63% (miðgildi 0,71%) á 15 stöðum sem höfðu yfir 500 covid-dauðsföll pr. milljón íbúa. Miðgildi dánarhlutfalls var samkvæmt leiðréttu mati 0,09%, 0,20% og 0,57% fyrir þessa þrjá ólíkt staðsettu hópa.“

En fyrir aldurshópinn undir 70 ára aldri var niðurstaða Ioannidis hins vegar þessi: „Fyrir fólk undir 70 ára aldri var dánarhlutfall smitaðra af covid á 40 stöðum með aðgengilegu talnaefni frá 0,00% til 0,31% (miðgildi 0,05%). Leiðrétt mat var það sama.

Talan 0,1% sýnist vera viðurkennd tala (meðaltal) fyrir dánarhlutfall árstíðabundinnar inflúensu í seinni tíð. Það þýðir þá að skv. tölum Ioannidis um covid-19 er dánarhlutfall smitaðs fólks undir sjötugu helmingi lægra af þeim sjúkdómi en af árstíðabundinni inflúensu, en ef reiknað er fyrir alla aldurshópa er dánarhlutfallið kannski helmingi hærra en fyrir venjulega inflúensu.

Ef horft er á Ísland hefði hugsanlega mátt réttlæta slíkar mannréttindaskerðingar ef um væri að ræða sjúkdóm á borð við Spænsku veikina sem drap 500 manns á einum mánuði 1918. Covid hefur þó aðeins átt þátt í dauða sex manns á öllu árinu 2021, og sem vænta mátti áttu aðrir sjúkdómar líka þátt í þessum sex dauðsföllum. Covid er nýtt form öndunarfærasjúkdóms. Vegna þess að  hann er nýr herjar hann á þá sem hafa skert ónæmiskerfi vegna aldurs eða sjúkdóma.

Áhrifin á samfélgsgerðina: valdið herðir tökin

Áhrif Covid-19 á heilsufar Íslendinga eru ekki stórvægileg. Aðaláhrifin eru óbein og þau eru valin: áhrif sóttvarnaraðgerðanna á samfélagsgerðina í landinu. Þau eru gríðarleg. Þau eru fyrst og fremst stórlega aukið vald yfirvaldsins í landinu yfir undirsátum sínum, lögformlegt vald en þó enn frekar sálrænt. Það gæti komið á óvart að alþýðusamtök og þeir sem kalla sig pólitíska fulltrúa alþýðu á íslenskum vinstri væng hafa ekki veitt þessari þróun neitt viðnám. Sannast sagna hefur  gagnrýnin hér á landi fremur komið frá íhaldssömum mannréttindasinnum. Gott dæmi er Arnar Þór Jónsson.

Þessi þróun er auðvitað ekki séríslenskt fyrirbæri, aðaláhrif ,,faraldursins" á alþjóðavísu eru einmitt þessi sömu. Og þetta er ekki einhver óvænt aukaafurð hinna hnattrænu aðgerða, heldur meðvituð pólitík. Það endurspeglar styrkleikahlutföll stéttanna nú um stundir. Valdið herðir tökin.