Þessi greini eftir Jón Ívar Einarsson lækni og prófessor við Harvard og Erling Óskar Kristjánsson verkfræðing birtist í Morgunblaðinu í dag:
„Það finnast engin áreiðanleg gögn sem styðja staðhæfingar um að óbólusettir séu líklegri til að smitast af Covid-19.“
Eftir tæplega tvö ár af takmörkunum og frelsisskerðingu eru margir farnir að sýna merki langþreytu. Fólk venst aðgerðunum og fær æ róttækari hugmyndir um hvernig megi hefta útbreiðslu veirunnar og draga úr álagi af heilbrigðiskerfinu, í von um að endurheimta eðlilegt líf – fyrir sig sjálft.
Nýlega hafa heyrst raddir um að hérlendis verði tekin upp mismununarstefna í formi svokallaðra bóluefnapassa. Bóluefnapassar afnema jafnréttisregluna, sem er ein undirstaða vestræns samfélags. Þeim er ætlað að kúga fólk til að þiggja lyf gegn eigin samvisku og grafa þannig undan frelsi fólks til að ráða yfir eigin líkama og heilsu. Þeir eru notaðir til að skerða rétt fólks til að afla sér menntunar og vinna fyrir fjölskyldu sinni. Allt þetta vegna veiru sem er nú með dánartíðni um eða undir 0,1%.
Talsmenn stefnunnar halda því fram að óbólusettir séu líklegri til að smitast, bera smit, leggjast inn á spítala og dvelji þar lengur að jafnaði. Þeir trúa því að passarnir leysi þessi vandamál. Vert er að staldra við og spyrja sig hvort þessar forsendur séu réttar og byggðar á traustum vísindalegum grunni.
Eru óbólusettir líklegri til að smitast?
Talsmenn bóluefnapassa halda því iðulega fram að óbólusettir séu þrefalt líklegri til að smitast en sóttvarnalæknir hefur talað um að bólusettir séu 50% ólíklegri til að smitast. Hvort er rétt?
Raunin er sú að engin hágæðarannsókn (slembiröðuð íhlutunarrannsókn) hefur metið vörn bóluefnanna gegn einkennalausu smiti. Það finnast því engin áreiðanleg gögn sem styðja staðhæfingar um að óbólusettir séu líklegri til að smitast af Covid-19.
Staðhæfingar um vörn bóluefnanna gegn einkennalausu smiti byggjast á gögnum úr skimun og athugunarrannsóknum sem byggðar eru á þeim gögnum. Ýmsir þættir geta haft áhrif á niðurstöður bæði úr skimun og athugunarrannsóknum, svo slíkar rannsóknir geta ekki framkallað vísbendingar í háum gæðaflokki.
Fjöldi athugunarrannsókna hefur leitt í ljós að vörn bóluefna við C19 dvínar með tímanum. Rannsókn frá Katar, birt í læknatímaritinu NEJM, gaf til kynna að vörn gegn smiti fimm mánuðum eftir annan skammt væri einungis 20%. Rannsókn frá Svíþjóð sem læknatímaritið Lancet er að ritrýna gefur til kynna að vörn gegn smiti með einkennum sé 40% hálfu ári eftir annan skammt og sé alveg horfin þremur mánuðum síðar. Þannig er vissulega útlit fyrir að vörn gegn einkennalausu smiti sé einhver til að byrja með, en óvissan er mikil vegna utanaðkomandi þátta sem hafa áhrif á þessar niðurstöður.
Rannsókn í Lancet sýndi t.d. að 38% óbólusettra smituðust af heimilisfólki sínu, en aðeins 25% bólusettra smituðust. Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna birti rannsókn í sumar sem sýndi að 74% smita hefðu verið meðal bólusettra þótt aðeins 69% fólks væru bólusett. Rannsóknin dró vörn bóluefnanna við smiti verulega í efa.
Er réttmætt að kenna óbólusettum um faraldurinn þegar virkni bóluefnanna er svona óljós?
Eru óbólusettir líklegri til að dreifa smitum?
Bólusettir eru ólíklegri til að finna fyrir C19-einkennum og þannig eykst hættan á að þeir smiti aðra óafvitandi.
Fjöldi rannsókna bendir til að veirumagn sé ekki minna í smituðum bólusettum einstaklingum þótt þeir séu oft með minni einkenni en óbólusettir. Bóluefni sem fela einkenni en draga ekki úr smiti geta þannig aukið útbreiðslu veirunnar. Áðurnefnd rannsókn í Lancet sýndi að 25% bólusettra en aðeins 23% óbólusettra hefðu smitað heimilisfólk sitt. Mörg dæmi eru um að bólusettir hafi smitað marga jafnvel í fullbólusettum hópum.
Dregur útbreidd bólusetning úr smitum?
Ætla mætti að minna væri um C19-smit á þeim svæðum þar sem bólusetningarhlutfall er hátt en svo virðist ekki vera. Nýleg rannsókn sýnir að slík fylgni er ekki fyrir hendi. Smit voru jafnvel tíðari þar sem hlutfall bólusetninga var hátt.
Ástæðan gæti verið sú að bólusettir fari síður varlega því þeir telji sig vel varða fyrir smiti, og þegar þeir sýkjast séu þeir ólíklegri til að finna fyrir einkennum, gæti sín því síður og dreifi smiti í meira mæli.
Eru óbólusettir byrði á heilbrigðiskerfinu?
Margt bendir til þess að bóluefnin veiti vörn gegn alvarlegum veikindum. Bólusetning óbólusettra gæti sennilega hlíft okkur fyrir nokkrum innlögnum á næstu mánuðum. Að vera óbólusettur veldur hins vegar ekki endilega meira álagi á heilbrigðiskerfið en aðrir áhættuþættir svo sem aldur og undirliggjandi sjúkdómar. Ef það ætti að mismuna fólki á þeim grundvelli að það sé baggi á heilbrigðiskerfinu er erfitt að sjá hvert það myndi leiða. Ætti að nota sömu rök til að mismuna fólki sem er í áhættuhópi vegna lífsstílssjúkdóma? Betri leið er að efla heilbrigðiskerfið svo það geti sinnt hlutverki sínu án þess að mismuna borgurunum.
Skila bóluefnapassar árangri?
Reynsla annarra þjóða sýnir að það að beina harðari sóttvarnaaðgerðum að óbólusettum hefur ekki spornað við útbreiðslu og álagi. Bóluefnapassar hafa hins vegar orðið tilefni til fjöldamótmæla í mörgum borgum og dregið úr trausti á stjórnvöldum.
Það er lítið til af vönduðum rannsóknum um virkni bóluefnapassa, en ein óritrýnd rannsókn bendir til þess að upptaka bóluefnapassa dragi ekki úr tíðni smita. Ekkert bendir til að þátttaka í bólusetningu sé meiri þar sem bóluefnapassar eru í notkun. Tvær rannsóknir gefa til kynna að bóluefnapassar dragi úr vilja fólks til að láta bólusetja sig og dragi almennt úr trausti á heilbrigðisyfirvöldum – enda eiga neikvæðir hvatar það til að hafa öfug áhrif. Ástandið hefur ekki batnað í þeim löndum sem hafa farið þessa leið.
Ástandið er hins vegar betra hjá þeim ríkjum sem hafa kosið að fylgja sjálfbærri stefnu í sóttvörnum. Það er að efla heilbrigðiskerfin, beita snemm-meðferð, vernda viðkvæma hópa og leyfa fólki að lifa óröskuðu lífi. Á Vesturlöndum eru helstu dæmin Flórída, Texas og fleiri ríki í Bandaríkjunum, sem og Svíþjóð. Sænsk stjórnvöld ákváðu hins vegar nýlega að taka upp bóluefnapassa, þvert á ráðleggingar sóttvarnalæknis þar í landi. Það virðist því hafa verið pólitísk ákvörðun, ekki byggð á vísindum.
Lágmörkum skaðann
Þegar upp er staðið viljum við geta horft til baka og verið stolt af því hvernig við tókumst á við þetta. Stolt af því að hafa ekki gengið eins langt og önnur lönd í frelsissviptingum og mannréttindabrotum. Stolt af því að hafa sýnt samstöðu og umburðarlyndi, frekar en að snúast hvert gegn öðru. Stolt af því að hafa látið rökin og vísindin ráða aðgerðum, frekar en að herma í blindni eftir öðrum löndum. Fyrr eða síðar munu flestir sennilega smitast, bæði bólusettir og óbólusettir. Náttúrulegt ónæmi mun veita síðari hópnum góða vörn gegn endursmiti. Faraldurinn mun taka enda, en skaðinn af óhóflegum aðgerðum gæti fylgt okkur til komandi ára. Reynum að lágmarka þann skaða.
Nálgast má heimildaskrá á www.kofid.is/boluefnapassar .
Jón Ívar er læknir, lýðheilsufræðingur og prófessor við læknadeild Harvard-háskóla. Erling Óskar er BS í verkfræði og vefstjóri kofid.is.