Einar Þorsteinsson fréttamaður á RÚV og einn stjórnenda Kastljóss hefur ákveðið að láta af störfum hjá RÚV en hann greindi frá ákvörðun sinni í skilaboðum til starfsmanna RÚV fyrr í dag.
„Ég hef ákveðið að þiggja starf sem mér bauðst fyrir skömmu. Þetta er erfið ákvörðun því fréttastofan er mitt annað heimili og það er erfitt að kveðja ykkur vini mína. Ég get því miður ekki sagt ykkur strax frá því hvert ég er að fara en það skýrist fljótlega. En ég hætti sem sagt í dag. Um leið og ég hlakka til nýrra starfa þá á ég eftir að sakna ykkar óskaplega og ég vona að ykkur gangi vel í baráttunni,“ segir hann í skilaboðunum.
Baldvin Þór nýr ritstjóri Kastljóss
Nokkrar vendingar hafa átt sér stað í starfsmannamálum á RÚV að undanförnu en Kjarninn greindi frá því á Þorláksmessu að Baldvin Þór Bergsson myndi láta af störfum sem dagskrárstjóri Rásar tvö og númiðla RÚV um áramót og taka við starfi ritstjóra nýs Kastljóss. Samhliða myndi hann áfram leiða verkefnið „nýr ruv.is“ og móta tillögur að framtíðarfyrirkomulagi vefritstjórnar ríkismiðilsins.
Í byrjun nóvember greindi Rakel Þorbergsdóttir frá því að hún hefði ákveðið að láta af störfum sem fréttastjóri RÚV. Rakel hafði gegnt starfinu frá því í apríl 2014 og í heild starfað í 22 ár á fréttastofum RÚV.
Í tilkynningu RÚV um málið sagði að starf fréttastjóra yrði auglýst laust til umsóknar fljótlega á nýju ári. Heiðar Örn Sigurfinnsson varafréttastjóri myndi gegna starfi fréttastjóra frá því að Rakel léti af störfum um áramótin og þar til nýr fréttastjóri hefði verið ráðinn.
Kjarninn greindi frá.