Eftir Þorstein Siglaugsson hagfræðing:
Eftir 20. desember tóku tölur um 14 daga nýgengi smita af Covid-19 eftir bólusetningarstöðu mjög óvænta stefnu. Þegar þetta er ritað hafa smit fullbólusettra fullorðinna með örvun á hver 100 þúsund ríflega ellefufaldast og smit tvíbólusettra fullorðinna sjöfaldast. Á sama tíma hafa smit óbólusettra aðeins 2,6-faldast. Meðal barna sjáum við sömu breytingu, smit fullbólusettra tæplega tífaldast meðan smit meðal óbólusettra 2,4-faldast.
Það er ekki auðvelt að skýra þennan viðsnúning með hegðun, svo skyndileg og afgerandi hegðunarbreyting milli hópa er útilokuð. Ekki er heldur líklegt að ásókn í skimun hafi skyndilega stóraukist meðal sumra hópa en ekki annarra. Við vitum að smitvörn bóluefnanna dvínar hratt, en að hún hverfi svo skyndilega er útilokað. Líklegasta skýringin er hið nýja omicron-afbrigði veirunnar. Erlend gögn benda líka til að þau bóluefni sem við höfum nú yfir að ráða hafi lítil sem engin áhrif á hvort fólk smitast af því.
Nýgengistölur 5. janúar eftir bólusetningarstöðu á 100 þúsund innan hvers hóps
Gögnin sem birt eru á covid.is eru vegin, þau taka tillit til mismunandi stærðar hópa.[i] Af þeim má því draga ályktanir um mismunandi smitlíkur eftir hópum. Eins og staðan er nú eru þríbólusettir einungis 30% ólíklegri til að smitast en óbólusettir og hjá bólusettum börnum munar aðeins 15%, og þessi litli munur dvínar hratt hjá báðum hópum. Stærsta fréttin er þó sú að tvíbólusettir eru nú næstum tvöfalt líklegri til að smitast en óbólusettir. Þetta bendir til að vörnin sem tveir skammtar bóluefnis veita sé í raun minni en engin, hún er öfug.
Breytingar á nýgengi og smitlíkum síðan 20. desember
Nokkuð skýr leitni er í þessum gögnum. Með sama áframhaldi má vænta þess að mjög fljótlega verði sú litla vernd sem þreföld bólusetning veitir enn gegn smiti alveg horfin – þeir verði jafnlíklegir til að smitast og óbólusettir, og bólusett börn einnig.
Það vekur furðu að þessi stórfellda breyting í smittíðni skuli enn ekki hafa ratað í fjölmiðla, og ekki síður að grundvallarforsendubreyting af þessu tagi virðist engin áhrif hafa á fyrirætlanir stjórnvalda, annars vegar um bólusetningu ungra heilbrigðra barna sem veiran er afar hættulítil, og hins vegar fyrirætlanir um að mismuna fólki eftir fjölda bóluefnaskammta. Það er skylda stjórnvalda að grundvalla aðgerðir á staðreyndum og endurskoða þær þegar forsendur breytast. Það hljóta þau að gera nú.