Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands tilkynnti í breska þinginu í dag að ríkisstjórnin hefði ákveðið að afnema svokallaðar „Plan B“ takmarkanir. Hann rökstuddi þetta með því segja að gögn bentu til þess að Omicron-bylgjan hefði náð hámarki í landinu.
Afnám „Plan B“ takmarkana kemur á sama tíma og forsætisráðherrann berst við aukinn þrýsting um afsögn vegna brota sem framin voru í Downing Stræti 10, embættisbústað forsætisráðherrans, á reglum um takmarkanir, meðan á heimsfaraldrinum hefur staðið.
Það helsta sem kom fram hjá forsætisráðherranum var að:
- Hætt verður að krefjast Covid passa sem þurft hefur til að komast inn á næturklúbba og stærri viðburði frá og með 26. janúar nk. en þá renna núverandi reglur út og verða því ekki endurnýjaðar.
- Þó geta fyrirtæki valið að nota Covid passann ef þau óska þess.
- Þá verða tilmæli um að fólk vinni heiman frá sér felld strax niður og stefnt skal að því að fólk mæti aftur til vinnu.
- Notkun andlitsgríma verður ekki lengur skylda, þó verður fólki enn ráðlagt að nota grímur í lokuðum eða fjölmennum rýmum og þegar það hittir ókunnuga.
- Þá munu framhaldsskólanemar ekki lengur þurfa að vera með andlitsgrímur í kennslustofum og leiðbeiningar stjórnvalda um notkun þeirra á sameiginlegum svæðum verða afnumdar fljótlega.
- Fólk sem mælist jákvætt í sýnatöku, útsettir og óbólusettir munu áfram þurfa að sæta einangrun, en Johnson sagðist reikna með því að sú regla verði ekki endurnýjuð þegar hún fellur úr gildi þann 24. mars.
Í lok mars verður litið á Covid sem landlægan faraldur en ekki heimsfaraldur. „Þar sem COVID verður skilgreint sem landlægur faraldur, munum við þurfa að skipta út lagalegum kröfum fyrir ráðgjöf og leiðbeiningar og hvetja fólk sem er með veiruna til að vera varkárt og taka tillit til annarra,“ sagði forsætisráðherrann.
Forsætisráðherrann neitaði að taka til endurskoðunar kröfu um bólusetningu heilbrigðisstarfsmanna sem eru í fremstu víglínu og vísaði til þess að „sönnunargögnin væru augljós um að heilbrigðisstarfsmenn ættu að láta bólusetja sig“.
Boris er ekki bara að reyna að verjast kröfum um afsögn heldur fékk hann á mánudaginn undirskriftarsöfnun, með meira en 200.000 undirskriftum, þar sem þess var krafist að hætt yrði með bólusetningavegabréf og sambærileg COVID vottorð.
Undirskriftasöfnun þar sem krafist er afturköllunar á reglum um bólusetningaskyldu fyrir heilbrigðisstarfsmenn, var einnig afhent forsætisráðherranum á mánudag, og var hún þá með um 160.000 undirskriftir.