Furðulegt háttalag hlutfalls um nótt
„Hvað gæti réttlætt svo stórfellda og skyndilega breytingu á áður útgefnum gögnum?“
Skömmu fyrir jól tók smithlutfall eftir fjölda bóluefnaskammta að taka stórstígum breytingum hérlendis samfara því að hið nýja ómikron-afbrigði kórónuveirunnar fór að ná yfirhöndinni. Undir lok ársins var svo komið að 14 daga nýgengi smita meðal tvíbólusettra hafði sjöfaldast og var orðið tvöfalt á við óbólusetta, en meðal þríbólusettra hafði nýgengi ellefufaldast.
Þessar upplýsingar komust í dreifingu um og upp úr áramótum og vöktu athygli margra. Hinn 7. janúar birtist tilkynning á covid.is um að uppfærslu gagna á vefnum yrði hætt tímabundið meðan hann væri endurskipulagður. Daginn eftir birti ég grein í Morgunblaðinu þar sem fjallað var um þessa þróun. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir brást við samdægurs með pistli á covid.is sem fjölmiðlar fjölluðu einnig um. Sagði hann kerfisbundna skekkju í tölunum; margir sem væru skráðir til heimilis á Íslandi byggju í raun ekki á landinu, hefðu verið bólusettir erlendis en væru skráðir óbólusettir hér. Því væri ekki hægt að draga þá ályktun sem gögnin studdu greinilega við.
Rökum sóttvarnalæknis er auðvelt að hrinda með einföldum hugarreikningi. Í grein í Morgunblaðinu þriðjudaginn 11. janúar benti ég á að til að skýring hans stæðist hefði hann þurft að ofáætla fjölda óbólusettra um 90% til að smithlutfall þeirra næði smithlutfalli tvíbólusettra. Slíkt ofmat á stærð hópsins væri afar ósennilegt.
Það var loks að morgni 13. janúar sem aftur mátti sjá gögn um smithlutföll hópa á vefnum covid.is. Einn hængur var þó á: Meðan 14 daga nýgengi tví- og þríbólusettra fullorðinna og barna var nærri óbreytt hafði nýgengi óbólusettra tekið óútskýrt stökk þá um nóttina. Frá og með 27. desember voru gögnin gjörbreytt. Þann dag hafði hlutfallið hækkað um 4%, um 11% daginn eftir, síðan um 12%, 14%, 15% og endaði í 20% hækkun hinn 4. janúar!
Hvað gæti réttlætt svo stórfellda og skyndilega breytingu á áður útgefnum gögnum? Annaðhvort hefði stór hópur óbólusetts fólks þurft að hverfa sporlaust síðari hluta desembermánaðar, eða mikill fjöldi smita, öll meðal óbólusettra, hefði þurft að finnast eftir á. En engar slíkar skýringar hafa komið fram.
Þessi skyndilega og veigamikla breyting opinberra gagna á sér stað strax í kjölfar þess að gögnin taka að sýna þróun sem er í beinni mótsögn við síendurteknar fullyrðingar sóttvarnalæknis. Er hér um mistök að ræða, eða á breytingin sér aðra skýringu? Þessu hygg ég að Landlæknisembættið þurfi að svara.
2 Comments on “Landlæknisembættið svari fyrir stórfellda og skyndilega breytingu á áður útgefnum gögnum”
Góðar ábendingar þessarar greinar.
Spurningin sem ætti að skipta okkur almenning mestu máli er.
Hvort er það mikilvægara fyrir persónur í sóttvarnarmálum að hafi og hafa haft rétt fyrir sér, eða að nota reynslu og gögn til að komast að hinu rétta?
Ég geri að flestir heilbrigðir einstaklingar vilji hið síðarnefnda en miðað við viðbrögð sóttvarnarlæknis allt frá upphafi faraldurs og ekki síst nú upp á síðkastið bendir flest til þess að hið fyrrnefnda sé það sem skiptir HANN mestu máli. Dæmi hver fyrir sig.
Fólk sem sem þarf að hafa rétt fyrir sér er ekki hæft í almannaþjónustu og ef slíkt fólk hefur mikil völd að þá getur það beinlínis orðið þjóðfélaginu hættulegt.
Bjarki.
Takk fyrir þetta góða komment. Hverju orði sannara.