Fyrstu tilfelli COVID-19 frá upphafi faraldursins komu upp á afskektu eyjunni Kiribati 19. janúar sl. Kiribati er einangrað eyríki í miðju Kyrrahafi með um það bil 122.000 íbúa.
Kiribati lokaði landamærum sínum fyrir 10 mánuðum en opnaði aftur í þessum mánuði.
Það var kirkja mormóna sem leigði flugvél til að fljúga til Kiribati núna í janúar til að koma heim 54 af þegnum eyríkisins. Margir ferðalanganna voru trúboðar sem höfðu farið frá Kiribati áður en landið lokaði landamærunum.
Settar voru mjög strangar varúðarráðstafanir til að tryggja að ferðalangarnir kæmu ekki með COVID-19 til óspilltu eyjarinnar.
Í fyrsta lagi þurftu allir að vera að fullu bólusettir. Í öðru lagi þurftu farþegar að leggja fram neikvætt COVID-19 próf þrisvar sinnum á Fiji eyjum, þaðan sem flogið var. Í þriðja lagi urðu þeir að vera í sóttkví í tvær vikur áður flogið var af stað og í fjórða lagi voru þeir svo látnir vera í sóttkví og frekari sýnatökur teknar eftir að þeir komu til Kiribati.
Þrátt fyrir þessar miklu ráðstafanir greindust tveir þriðju hlutar ferðalanganna með veiruna eftir komuna frá Fiji. Af 54 farþegum reyndust 36 smitaðir.
Þann 19. janúar tilkynnti Kiribati um 37 ný tilfelli. Þann 28. janúar voru þau orðin 181 en engin dauðsföll.
Kiribati kom fljótt á takmörkunum þ.m.t. útgöngubanni og sóttkví, en um 33% íbúa Kiribati eru að fullu Covid bólusettir.
Ekki ósvipað ástand kom upp í síðasta mánuði á Suðurskautslandinu þegar nærri tveir þriðju hlutar rannsóknarstarfsmanna í Princess Elisabeth Polar stöðinni smituðust þrátt fyrir strangar heilsufarsreglur. Starfsmenn stöðvarinnar voru einnig að fullu bólusettir, tóku mörg PCR próf og voru settir í sóttkví áður en þeir komu í rannsóknarstöðina.