VR, Verkalýðsfélags Akraness og Hagsmunasamtaka heimilanna biðla til peningastefnunefndar Seðlabankans og um leið Seðlabankastjóra, að hækka ekki álögur á heimilin þrátt fyrir aukna verðbólgu.
Vaxtahækkanir geta í einhverjum tilfellum verið réttlætanlegar til að slá á verðbólgu en það á ekki við þegar verðbólgan stafar aðallega af utanaðkomandi aðstæðum sem ekki verða raktar hér, auk skorts á húsnæði sem valdið hefur mikilli hækkun húsnæðisverðs.
Hækkun húsnæðisverðs er sannanlega innlendur vandi, en þá ber að hafa tvennt í huga:
Skortur á húsnæði er ekki fólkinu í landinu að kenna. Sá skortur stafar t.d. af allt of lítilli uppbyggingu og skammsýni bæði sveitastjórna og ríkisstjórna undanfarinna ára, í þessum málaflokki. Það getur ekki verið réttlætanlegt að velta afleiðingum þessarar skammsýni yfir á heimili landsins.
Einungis lítið brot þjóðarinnar er á húsnæðismarkaði á hverjum tíma. Það getur ekki verið réttlætanlegt að velta þessum vanda yfir á alla sem skulda húsnæðislán enda, eins og áður er rakið, eiga heimili landsins enga sök á ástandinu.
Þegar verðbólga stafar fyrst og fremst af þáttum eins og heimsfaraldri og stríði út í heimi, getur hækkun vaxta hér á landi ekki haft nokkur áhrif á hana.
Það eina sem hækkun vaxta gerir er að auka á byrðar heimilanna auk þess að beina fjármunum þeirra, algjörlega að ástæðulausu, beint í yfirfullar fjárhirslur bankanna.
Hvað varðar batnandi „eiginfjárstöðu heimilanna" þá stafar hún ekki af því að skuldir heimilanna hafi lækkað, heldur því að matsverð eigna hafi hækkað. Matsverð skiptir í raun engu máli fyrr en eign er seld og jafnvel ekki þá, því markaðurinn hefur hækkað að sama skapi, auk þess sem rétt er að minna á að ráðstöfunarfé heimilanna eykst ekki með hækkandi matsverði þó fasteignagjöld geri það.
Við förum því fram á að Seðlabankinn verji heimilin fyrir áhrifum verðbólgunnar og beiti frekar öðrum stýritækjum sem hann ræður yfir, sem hljóta að vera einhver, en aðalmálið er að auka ekki álögur á heimili landsins.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir formaður Hagsmunasamtaka heimilanna
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR
Vilhjálmur Birgisson formaður Verklýðsfélags Akraness