Páll Steingrímsson skipstjóri hjá Samherja, opnaði sig í dag um atvikið sem ratað hefur ítrekað í fréttir eftir að honum var byrlað eitur og síma hans stolið og gögnum úr honum lekið í fjölmiðla. Atvikið varð til þess að Páll var fluttur á gjörgæsludeild Landspítalands.
Páll segir að honum hafi verið boðinn friður frá ákveðnum hópi fjölmiðlamanna ef hann drægi kæruna á símastuldinum til baka.
Í samtali við Fréttina segir Páll að málið sé hápólitískt og tveir flokkar, Samfylkingin og Píratar, standi að baki árásinni og verið sé að reyna kaupa sér tíma með því að neita að mæta í skýrslutöku.
Páll segir að ef umræddir fjölmiðlamenn sem kallaðir hafa verið til skýrslutöku hafi ekkert að fela væri lítið mál fyrir þá að mæta og gefa sinn vitnisburð.
Þóra Arnórsdóttir hefur nú áfrýjað niðurstöðu héraðsdóms til Landsréttar, en Þóra hefur stöðu sakbornings í málinu. Þóra fer fram á að Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, Eyþór Þorbergsson, staðgengill lögreglustjóra, og aðrir starfsmenn embættisins víki sæti við rannsókn Samherja-símamálsins. Þessu var hafnað af héraðsdómi.
Páll segir orðrétt í pistli sínum:
„Eins og ég hef áður sagt tók ég þá ákvörðun um að halda mig til hlés meðan málið er í rannsókn lögreglu. Ég kærði engan einstakling heldur aðeins stuld á símanum mínum. Rannsókn lögreglu hefur greinilega leitt hana á þann stað að fjórir fjölmiðlamenn eru með stöðu sakbornings fyrir eitthvert athæfi. Ólíkt öllum öðrum landsmönnum sem endað hafa, með réttu eða röngu, í þeirri stöðu að vera sakborningar, hafa fjölmiðlamennirnir barist á hæl og hnakka um að mæta í skýrslutöku. Í orði hafa þeir sagst ætla að mæta sallarólegir í skýrslutökur en í verki reyna þeir alla mögulega og ómögulega lagaklæki til að komast undan því, en segjast jafnframt engin lög hafa brotið og séu ekki yfir það hafnir að ræða við lögreglu. Gjörðir þeirra segja hins vegar aðra sögu. Sú staðreynd að þegar heimildarmaður fjölmiðlamannanna var yfirheyrður mörgum mánuðum eftir stuldinn hafi fjölmiðlamennirnir verið í samskiptum við hann, haft síma hans í fórum sínum og í kjölfarið var mér boðið að ég fengi frið frá ákveðnum hópi fjölmiðlamanna ef ég myndi draga kæruna til baka, þetta segir nefnilega allt annað en “ég hef engin lög brotið.““
Ég er bara venjulegur maður sem hef orðið að þola harða atlögu að heilsu minni og æru af óvenju ósvífnum fjölmiðlamönnum sem ég vil meina að starfi eins og glæpamenn. Fólki af þessu sauðahúsi vil ég helst mæta fyrir dómstólum í von um að ná fram því réttlæti að fá að njóta friðhelgi einkalífs sem allir borgara landsins eiga rétt á og varið er í stjórnarskrá.“