Ingólfur Þórarinsson tónlistarmaður sendi rétt í þessu frá sér yfirlysingu þess efnis að hann sé saklaus og muni halda áfram að berjast þótt hann þurfi að gera það einn á báti, og birtir hann samskipti við lögregluna máli sínu til stuðnings og tölvupóst frá lögmanni sínum.
Ingó hefur verið borinn þungum sökum af nafnlausu kvennfólki og vísar hann í frétt DV frá því í maí en var rifjað upp í dag á miðlinum, þ.e. ásökun frá nafnlausri konu sem er deilt af meðlimum Öfgahópsins. Nafnlausa konan heldur því fram að hún hafi farið á lögreglustöðina til þess að kæra Ingólf en málið hafi verið fyrnt. Engin staðfesting fylgir með þess efnis að lögreglan hafi vísað málinu frá eða er birt með færslunni, og því fremur hægt að flokka sem órökstuddar dylgjur í garð Ingólfs.
Yfirlýsing Ingólfs:
„Ég fer að verða ansi þreklaus í þessu öllu og enn og aftur hef ég enga leið til að verja mig þar sem allt er nafnlaust. Að eg fari svo að kýla konu og hrækja framan í er í besta falli galið en þetta synir hversu langt ákveðnir hópar eru til í að ganga.
Hér kemur skýrt fram að ég hef ALDREI verið ákærður fyrir ofbeldisbrot eða kynferðisbrot enda aldrei gert slíkt. Húsbrotið eru mistök þegar ég fór í sund eftir lokun í Vestmannaeyjum.
Ég veit ekki hvers vegna DV birtir svona en væntanlega því þar var ég nafngreindur fyrst undir mörgum lygum og vægast sagt ógeðfelldum sögum.
Ég mun berjast þar til ég dey að hafa aldrei nauðgað, riðið börnum eða lamið konur. Það skal ég sverja upp á konuna mína, Pinna og Gumma bróður þau sem ég elska mest.
Ég hvet svo fólk til að fara að blanda sér aðeins í þessi màl, lofa því að annars geta allir lent í svona og ef þú beygir þig ekki er logið. Við hvað eru allir annars hræddir? Þangað til venjulegt fólk stoppar þessa bilun tekur þetta yfir allt samfélagið og þetta er orðið vopn til að drepa hvern sem er.