Sverrir Einar áfrýjar meiðyrðamáli á hendur Sindra Þór Sigríðarsyni

frettinInnlendarLeave a Comment

Sverrir Einar Eiríksson athafnamaður og eigandi Nýju Vínbúðarinnar, hefur ákveðið að áfrýja máli sínu á hendur Sindra Þór Sigríðarsyni Hilmarssyni markaðsstjóra Tjarnarbíós sem einnig er stefnt í öðru meiðyrðamáli um þessar mundir.

„Eftir nokkra umhugsun hef ég ákveðið að áfrýja til Landsréttar dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í meiðyrðamáli mínu á hendur Sindra Þór Sigríðarsyni. Ég sætti mig ekki við þá niðurstöðu héraðsdóms að Sindri hafi mátt úthúða mér á samfélagsmiðlum án tilefnis, með fullyrðingum sem voru í senn meiðandi og rangar,“ segir Sverrir á fésbókarsíðu sinni.

Sindri er nú fyrir dómstólum vegna þess að Ingólfur Þórarinssson stefndi honum fyrir sömu sakir, þ.e. alvarleg meiðyrði sem hann lét falla á Internetinu.

Sverrir Einar höfðaði mál gegn Sindra Þór vegna þriggja ummæla sem Sindri lét falla á samfélagsmiðlum í haust eftir að þeir fóru í hár saman á Twitter. Þá var mál Kolbeins Sigþórssonar knattspyrnumáls á allra vörum og Sverrir átt í rökræðum við ýmsa á Twitter um málið, meðal annars við meðlimi Öfgahópsins.

Getur ekki unað niðurstöðu héraðsdóms

„Ljóst er að Sindri Þór gerði hvað hann gat til þess að valda mér sem mestu tjóni með því að draga starf mitt og lifibrauð inn í ummæli sín. Þá þykir mér rökstuðningur héraðsdóms ekki sannfærandi og gefa tilefni til að skjóta málinu til æðra dómstigs. Ég ber miklar vonir til þess að Landsréttur rétti af kúrsinn í þessari dómaframkvæmd,“ segir Sverrir Einar.

Í áfrýjunarstefnu kemur fram að þess er krafist að hinum áfrýjaða dómi verði hrundið og Sindri Þór dæmdur til að greiða Sverri 3.000.000 krónur, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 17. september 2021 til 17. október 2021 og með dráttarvöxtum samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sömu laga þeim degi til greiðsludags.

Ummælin sem Sindri lét falla um Sverri eru eftirfarandi:

1. „Þetta er Sverrir. Sverrir á og rekur Nýju Vínbúðina. Sverrir eltir, áreitir og niðurlægir konur á internetinu. Konur sem berjast gegn kynferðisofbeldi. Meðlimi Öfga. Ekki vera eins og Sverrir.“

2. „Þetta er Sverrir. Sverri finnst gaman að áreita konur á samfélagsmiðlum og þess vegna eru fáir að fylgja honum. En einn þeirra sem er fylgjandi Sverri og hans aðferðum er Tómas Þóroddsson, sérlegur Ingó-vinur og fráfarandi stjórnarmaður KSÍ. Ekki vera eins og þeir.“

3. „Þetta er Sverrir. Sverri finnst konur svo lítils virði að hann sér enga ástæðu til að hjálpa þeim ef þær hleypa ekki uppá sig að launum. Ekki vera eins og Sverrir.“

Skildu eftir skilaboð