Blaðamenn hótuðu Páli skipstjóra og vinkonu hans

frettinPistlarLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar.

Í síma Páls skipstjóra Steingrímssonar var myndband af honum og konu sem hann átti vingott við eftir skilnað. Síma Páls var stolið fyrir ári að undirlagi RÚV, Stundarinnar og Kjarnans, RSK-miðlum. Blaðamenn afrituðu öll gögn úr símanum. Skipstjórinn var meðvitundarlaus vegna byrlunar þegar símanum var stolið.

Páll kærði stuldinn 14. maí sl. ár. Eftir að lögreglurannsókn hófst gripu blaðamenn RSK-miðla til þess ráðs að hóta dreifingu á myndskeiði er sýndu atlot hans og ónafngreindrar konu.

Samkvæmt gögnum sem þegar hafa birst, vegna málarekstrar blaðamanna gegn lögreglu, verða blaðamennirnir ákærðir fyrir brot á friðhelgi einkalífs og að hóta birtingu á efni af kynferðislegum toga. Tilgangur hótunar blaðamannanna var að kúga Pál skipstjóra að falla frá kæru á símastuldi.

Að minnsta kosti fjórir blaðamenn RSK-miðla eru með stöðu grunaðra í lögreglurannsókn en líklega eru þeir fleiri. Þeir neita að mæta til yfirheyrslu. Það sem meira er: þeir þegja þunnu hljóði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðum. Það er af sem áður var.

Gögn sem birt voru fyrir héraðsdómi 23. febrúar sýna að lögreglan er með tölvupósta og símtöl blaðamanna RSK-miðla að leggja á ráðin um hvernig og hvenær yrði látið til skarar skríða gegn Páli og vinkonu hans. Blaðamenn og fjölmiðlar sem skipuleggja allsherjarárás á einkalíf fólks til að komast sjálfir undan réttvísinni er nýlunda, ekki aðeins á Íslandi heldur í sögu vestrænnar blaðamennsku.

Um áramótin birtist frétt í Stundinni, sem unnin var upp úr gögnum Páls. Tilgangur fréttarinnar var að vekja athygli skipstjórans á því að RSK-miðlar sætu á upplýsingum sem þeir myndu nota sæi skipstjórinn sig ekki um hönd og afturkallaði kæruna frá 14. maí.

En með atferli sínu grófu blaðamennirnir eigin gröf. Lögreglan var komin á sporið og fylgdist með aðgerðum þeirra að kúga Pál til að falla frá kærunni.

Blaðamennirnir, fjórir eða sex, og fjölmiðlar þeirra kaupa lögfræðiþjónustu í gríð og erg til að komast hjá skýrslutöku lögreglu. Þeir vita sem er að eftir skýrslutökuna verður þeim birt opinber ákæra og málið fer fyrir dómstóla. Í þeim málarekstri koma fram efnisatriði sem RÚV, Stundin og Kjarninn vilja ekki að vitnist. Blaðamenn og fjölmiðlar lifa á orðsporinu. Ef trúverðugleikinn fer í ruslflokk er úti um afkomuna.

Almenningur stendur í þeirri trú að blaðamennska og glæpaiðja sé ekki sama starfsgreinin. Dómsmálið yfir blaðamönnum RÚV, Stundarinnar og Kjarnans mun veita innsýn í óþekkta starfshætti fjölmiðla. Ekki verður það falleg sjón.

Skildu eftir skilaboð