Fréttinni barst rétt í þessu fréttatilkynning frá Stjórnarráði Íslands, hún er svohljóðandi:
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, undirrita viljayfirlýsingu um byggingu nýrrar þjóðarhallar í innanhúsíþróttum í dag, föstudaginn 6. maí, kl. 15:30 í Laugardalnum. Undirritunin fer fram utandyra í trjágöngunum í Laugardal vestanmegin við Skautahöllina eins og sýnt er á korti að neðan. Bílastæði eru við Skautahöllina og Laugardalshöll.
Ráðherra íþróttamála, forsætisráðherra og borgarstjóri verða til viðtals að lokinni undirritun.
Nánari upplýsingar verða veittar á staðnum.
Uppfært:
Hér eru nánari upplýsingar um viljayfirlýsingu um byggingu þjóðarhallar í innanhússíþróttum.
Sameiginleg fréttatilkynning forsætisráðuneytis, mennta- og barnamálaráðuneytis og Reykjavíkurborgar fylgir hér að neðan og sameiginleg viljayfirlýsing þessara aðila í viðhengi.
- Ríki og Reykjavíkurborg eru sammála um að ráðast í byggingu þjóðarhallar í innanhússíþróttum í Laugardal. Stefnt er að því að framkvæmdum ljúki 2025.
- Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um byggingu þjóðarhallar í innanhússíþróttum. Þjóðarhöllin mun uppfylla kröfur fyrir alþjóðlega keppni innanhússíþróttagreinum og stórbæta íþróttaaðstöðu fyrir skóla og íþróttafélög í Laugardal.
- Ríki og Reykjavíkurborg munu tryggja fjármögnun á stofnkostnaði í sínum langtímaáætlunum. Kostnaðarmat mun liggja fyrir eftir frumathugun og endanlega hönnun. Ákveðið hefur verið að kostnaðarskipting taki mið af nýtingu mannvirkisins sem og þeim kröfum sem hvor aðili hefur; ríkið vegna þarfa sérsambanda og alþjóðlegra krafna til keppnisaðstöðu landsliða og Reykjavíkurborg vegna þarfa íþróttafélaga og íþróttakennslu.
- Þegar liggja fyrir greiningar á þörfum sérsambanda Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) fyrir æfingar og keppnir landsliða og á þörfum Reykjavíkurborgar vegna íþróttafélaga og íþróttakennslu skóla.
- Sérstök framkvæmdanefnd verður stofnuð um þjóðarhöll í innanhússíþróttum sem mun sjá um frumathugun og undirbúning á fyrirkomulagi byggingaframkvæmda, s.s. vegna hönnunar, tæknilegrar útfærslu, rekstrarforms og hvernig staðið verður að fjármögnun. Notkunarmöguleikar mannvirkisins verða kannaðir til hlítar.
- Ríki og borg munu standa sameiginlega að hugmyndasamkeppni um hönnun mannvirkis og útlit og eru sammála um að leggja kraft í verkið. Stefnt er að því að framkvæmdum sé lokið árið 2025.
- Áfram verður unnið að undirbúningi þjóðarleikvangs fyrir frjálsíþróttir í Laugardal og þjóðarleikvangs í knattspyrnu. Markaðskönnun vegna þjóðarleikvangs í knattspyrnu verður unnin með það að markmiði að draga fram skýra valkosti um næstu skref í uppbyggingunni.
Stjórnarráð Íslands
Mennta- og barnamálaráðuneytið