Jón Magnússon lögmaður skrifar:
Borgarstjórinn í Reykjavík Dagur B.Eggertsson hefur sýnt af sér meiri snilli við að halda völlum en nokkur annar íslenskur stjórnmálamaður sennilega fyrr og síðar.
Völd hans í Borginni byggjast m.a. á að hilla til sín villuráfandi Framsóknarmann, taka skemmtikraftinn sem fékk á sínum tíma fylgi í borgarstjórnarkosningum, í fangið og gera hann að borgarstjóra, þó að Dagur stýrði öllu og réði öllu. Nema e.t.v. litnum á kjól skemmtikraftsins í gleðigöngum þess tíma.
Þrátt fyrir stöðugt minnkandi fylgi við Dag í kosningum, þar sem flokkur hans hefur beðið hvert afhroðið á fætur öðru, þá hefur Degi alltaf tekist að koma skríðandi úr brunarústum Samfylkingar og fá til liðs við sig nýja flokka til að halda völdum.
Slíkur línudans og pólitísk ástaratlot sem borgarstjóri hefur sýnt þeim sem hann þarf að eiga vingott við til að halda völdum hefur að sjálfsögðu kostað sitt en þann kostnað greiða borgarbúar en ekki Dagur sbr. aukin launakostnað borgarstjórnar síðast til að ná Vinstri grænum um borð.
Þó Dagur hafi sýnt af sér mandaríska snilld við að halda völdum, hefur snilldin ekki verið sú sama við að stjórna borginni. Fjárhagsleg staða Borgarinnar er hræðileg, viðhald gatna er fyrir neðan allar hellur, hreinsun gatna og gangstíga er óviðunandi. Reykjavík Dags B. Eggertssonar er borg þar sem svifryksmengun er iðulega yfir hættumörkum og veldur dauðsföllum í borg sem telur rétt rúm 100 þúsund íbúa.
Vegna pólitískrar bábilju og tískustrauma reynt að ráða því með hvaða hætti fólk fer á milli staða. Stefna Dagsmeirihlutans í samgöngumálum og fleiri málum byggir á alræðishugmyndum og fyrirlitningu á venjulegu vinnandi fólki og getu þess til að taka eigin ákvarðanir.
Getur virkilega einhver nema innvígður og innmúraður Pírati, VG. Viðreisn eða Samfylking greitt þeim flokkum atkvæði sem stóðu að braggaruglinu í Nauthólsvík. Þar kom í ljós algjör óstjórn, spilling og ill meðferð á almannafé. Það er þó bara toppurinn á stóra borgarísjaka spillingarinnar.
"Snillingur" eins og Dagur getur ekki haldið pólitískum loftfimleikum sínum áfram nema aðrir séu tilbúnir til að taka þátt í loddaraleiknum með honum. Á það geta Reykvíkingar ekki látið reyna enn einu sinni. Meirihlutaflokkana í borgarstjórn er því ekki hægt að kjósa.
Atkvæði greitt Samfylkingu, VG, Pírötum og Viðreisn í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík er atkvæði greitt með áframhaldandi spillingu, áframhaldandi fjármálalegri óstjórn, áframhaldandi afskiptum af því hvernig borgararnir ferðast og áframhaldandi loftmengun auk ýmiss annars.
Dönsku stráin við braggan í Nauthólsvíkinni þó ekki væru annað ættu að vera nóg til að kjósendur höfnuðu algerlega Samfylkingu, VG,Pírötum og að ógleymdri nýjustu hækjunni Viðreisn.
One Comment on “„Snillingurinn“”
Góði Guð gefðu að Dagur nàttblindi finni aldrei bílastæði og verði ævarandi fastur í Reykjavík á ground hog day við að leita að bílastæðum.