Blaðamenn hóta bloggara málsókn

frettinPistlarLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans og Arn­ar Þór Ing­ólfs­son blaðamaður sömu útgáfu hóta tilfallandi bloggara málssókn ef hann biðst ekki afsökunar og dregur til baka sem ósönn eftirfarandi ummæli:

Arn­ar Þór Ing­ólfs­son og Þórður Snær Júlí­us­son, blaðamenn á Kjarn­an­um, [...] eiga aðild, beina eða óbeina, að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans.

Ummælin féllu í bloggfærslunni Blaðamenn verðlauna glæpi.

Lögfræðingurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson sendir bréf fyrir hönd þeirra félaga og segir málsókn næsta skref ef ekki verður orðið við kröfum um afsökun og afturköllun ummæla.

Vandast nú mál bloggara. Miðað við málssóknir af þessum toga er líklegur kostnaður 1 til 1,5 m.kr. hvort sem málið vinnst eða tapast. Það eru þrenn eða fern útborguð mánaðarlaun kennara.

Ódýrast væri að biðjast afsökunar og segja ummælin röng.

En þá væri beðist afsökunar á sannindum og þau sögð ósönn. Illa er komið fyrir manni sem fargar sannindum og segir rétt rangt til að sleppa við málssókn.

Arnar Þór og Þórður Snær eiga aðild, beina eða óbeina, að málinu sem kennt er við Pál skipstjóra. Almælt tíðindi eru að Arnar Þór og Þórður Snær eru sakborningar í lögreglurannsókn. Það heitir að ,,eiga aðild". Að öðrum kosti væru þeir ekki grunaðir. Þótt þeir væru aðeins vitni ættu þeir aðild. Tvímenningarnir voru ekki afskiptalausir áhorfendur.

Þórður Snær og Arnar Þór skrifuðu alræmda grein byggða á gögnum sem afrituð voru úr síma Páls skipstjóra. Í greininni, sem birtist 21. maí á síðasta ár, viðurkenna félagarnir að ,,lögbrot" var framið, bara ekki af þeim sjálfum. Blaðamennirnir ,,eiga aðild" ef þeir hagnast á lögbrotinu. Það liggur í hlutarins eðli.

Páll skipstjóri kærði til lögreglu 14. maí, viku áður en Kjarninn (og Stundin) birtu gögn úr símanum. Lengi vel neitaði Þórður Snær að lögreglurannsókn stæði yfir á byrlun og stuldi. Í nóvember skrifaði ritstjórinn leiðara með yfirskriftinni Glæpur í höfði Páls Vilhjálmssonar. Þar segir m.a.

Til að taka af allan vafa: það er eng­inn blaða­maður til rann­sóknar fyrir að hafa reynt að drepa skip­stjóra, né fyrir að stela sím­anum hans. Þetta er hug­ar­burður og áróður...

Samt sem áður eru fjórir blaðamenn hið minnsta með stöðu grunaðra í yfirstandandi lögreglurannsókn. Glæpir voru framdir og blaðamenn eru sakborningar. Það er enginn hugarburður heldur grjótharðar staðreyndir.

Í skýrslu lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, dagsett 23. febrúar 2022, segir að fjölmiðlar, RÚV, Kjarninn og Stundin, hafi nýtt sér ,,augljós brot", ,,bæði faglega og fjárhagslega." Þetta er að eiga aðild.

Af þessu leiðir getur tilfallandi bloggari ekki beðist afsöknunar og enn síður játað að rangt sé farið með. Gögn frá lögreglu sýna að Arnar Þór og Þórður Snær eiga aðild, beina eða óbeina, að refsiverðu athæfi. Í væntanlegu sakamáli verður ákært á grunni sakamálaannsóknar, verjendur blaðamannanna færa rök fyrir sýknu og dómari úrskurðar. Þeir sem eiga málsaðild eru ákærðu, vitni og tjónþoli - Páll skipstjóri.

Ef ríkisstyrktur Kjarninn, Arnar Þór og Þórður Snær, stefna bloggara fyrir að birta sannindi er svo komið að þöggun er vopn blaðamanna. Frjáls umræða var einu sinni aðalsmerki blaðamanna. Nú er hún Snorrabúð stekkur.

Skildu eftir skilaboð