Til bjargar stöðnuðum borgarstjóra

frettinInnlendarLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Af því sem hér hefur verið minnt á með upprifjun á óefndum kosningaloforðum Dags B. Eggertssonar og Samfylkingarinnar frá árinu 2006 er augljóst að hvað eftir annað hefur innantómum orðum verið haldið að kjósendum höfuðborgarinnar. Það er spólað endalaust í sama farinu og samt látið eins og eitthvað nýtt beri fyrir augu.

Innan meirihluta borgarstjórnar er hvorki vilji né kraftur til að gera það sem lofað er. Vinsælasta úrræði ráðalauss borgarstjóra er þá að snúa sér að ríkisstjórninni og láta eins og hann komist ekki lengra án samkomulags við ráðherra eða að minnsta kosti viljayfirlýsingar.

Eftir að ráðherrar hafa rétt borgarstjóranum hjálparhönd hefjast síðan deilur um efni samkomulagsins eins og nú sést á umræðum um byggð við brautarenda Reykjavíkurflugvallar í Skerjafirði.

Túlkun á samkomulaginu verður deilumál í kosningabaráttunni og dregur ágreiningurinn athygli frá því að í raun var aðeins samið um að breiða yfir þá staðreynd að ekki er vilji til að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni. Óvinir flugvallarins gera ráðherra og ríkisstjórn upp skoðun og segjast berjast við hana í stað þess að viðurkenna að málstaður þeirra nýtur ekki nægilegs stuðnings. Þannig er rifist áratugum saman til að þjóna lund háværs minnihlutahóps.

Undir stjórn Dags B. Eggertssonar hefur ekkert miðað varðandi þjóðarleikvang fyrir knattspyrnu eða þjóðarhöll fyrir handbolta og körfubolta svo að ekki sé minnst á aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir. Eftir uppnám um páskana 2022 var rokið upp til handa og fóta og föstudaginn 6. maí 2022 skrifað undir viljayfirlýsingu í Laugardalnum þar sem lýst var yfir að þjóðarhöllin yrði risin þar árið 2025.

Ritað undir flokkspólitíska viljayfirlýsingu í Laugardal. Tímamörkin standast ekki. Snýst yfirlýsingin um samstarf að loknum borgarstjórnarkosningum? (mbl/Kristinn Magnússon).

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, létu það eftir Degi B. að rita undir slíka yfirlýsingu sem verður strax marklaus þegar litið er á ártalið 2025. Rifrildið verður um hver hindri að þjóðarhöllin verði ekki risin þá.

Katrín er formaður flokks, VG, sem stendur að meirihluta Dags B. í borgarstjórn og framsóknarmaðurinn Ásmundur Einar vonar að sinn maður verði liðsmaður Dags B. að kosningum loknum. Þetta er eina handbæra skýringin á undirskrift ráðherranna. Þau taka þátt í leikaraskapnum með borgarstjóra á flokkspólitískum forsendum.

Til að rétta hlut fjölskyldubílsins í Reykjavík var á kjörtímabilinu gerður svonefndur samgöngusáttmáli milli ríkisins og borgaryfirvalda.

Dagur B. túlkar samninginn þannig að hann standi undir kostnaði við óframkvæmanlegt óskaverkefni hans frá 2006, að leggja Miklubraut í stokk. Vegagerðin skoðar hins vegar hagkvæmni ganga undir Miklubraut. Dagur B. nefnir draumarárið 2025 sem stokk-árið. Það er álíka fjarlægur draumur og að þá verði þjóðarhöll risin.

Verði Dagur B. áfram borgarstjóri er fyrirsjáanlegt að áfram verður spólað í farinu frá 2006. Undir hans stjórn er allur sköpunar- og framkvæmdaþróttur úr sögunni. Frekari stöðnun leiðir til meiri afturfarar.

Greinin birtist fyrst á bjorn.is 9.maí 2022.

Skildu eftir skilaboð