Danir gera samning um afplánun 300 afbrotamanna í fangelsi í Kosovo

frettinIngibjörg Gísladóttir, PistlarLeave a Comment

Á síðasta ári fréttist af hugmyndum Dana um að létta á fangelsiskerfi sínu og semja við Kosovo um að taka við einhverjum föngum. Á Euronews mátti í lok apríl lesa að samningurinn hafi verið undirritaður. Til stendur að senda 300 dæmda afbrotamenn sem koma frá löndum utan ESB og ekki eiga neina framtíð í Danmörku til fangelsisins í Gjilan, 50 km. frá Pristina, snemma árs 2023. Föngum hefur fjölgað í Danmörku um 19% frá 2015 og þrengslin horfa til vandræða. Því á að leigja aðstöðu í Kosovo fyrir 15 milljónir evra á ári.

Fangelsi þetta er nýlegt, var byggt fyrir erlent fjármagn er fékkst til uppbyggingar Kosovo eftir stríðið á Balkanskaga og lauk byggingu þess 2016. Samt þarf þar ýmislegt að gera til að dönskum kröfum um fangelsi verði fullnægt. Meðal annars á að skoða innréttingar klefanna, eldhús- og salernisaðstöðu, koma upp vinnu- og frístundaaðstöðu og aðstöðu til að taka á móti gestum. Setja þarf upp skrifstofur fyrir danska starfsmenn, útrýma myglusveppum, bæta loftræstingu, tölvukerfi og ýmislegt öryggistengt má lesa í Berlinske Tidende.

Séu menn forvitnir um hvernig fangaklefi í Kosovo lítur út þá fór hið danska TV 2 þangað þegar samningurinn kom fyrst til tals og tók myndir. Klefarnir eru tveggja manna, með kojum og svampdýnum. Þar er líka klósett og vaskur, hvort tveggja úr málmi og sturta, en einnig borð og kommóður. Menn eiga sjálfir að sjá um að halda herberginu hreinu.



Fjölþættar ástæður?

Trúlega eru þrengsli í fangelsunum ekki eina ástæða þess að Danir fara þessa leið. Reglur Mannréttindasáttmála Evrópu um rétt manna til fjölskyldulífs hafa valdið erfiðleikum. Ekki er hægt að vísa mönnum úr landi ef þeir eiga ung börn. Kjarninn sagði frá Levakovic fjölskyldunni fyrir nokkrum árum. Þau komu upphaflega frá Króatíu. "Fjöl­skyldan telur nú tæp­lega fimm­tíu manns. Eng­inn úr þessum hópi hefur lokið grunn­skóla né unnið laun­aða vinnu,"sagði í grein í Kjarnanum. Börn sem eru getin í dönskum fangelsum gætu því hamlað brottvísun afbrotamannana.

Einnig gæti verið að Danir eigi við sjaríavandamál að stríða í fangelsunum. Nýlega kom út bresk skýrsla um að íslamistar hefðu náð völdum innan fangelsanna, sett upp sjaríadómstóla og fyrirskipað refsingar, m.a. hýðingar. Dominic Raab sem er varaforsætisráðherra kom fram í viðtali á LBC nýlega og sagði að fjölgun fanga með hryðjuverkadóma lægi að baki vandanum. Einnig sagði hann að ekki mætti trúarleg eða menningarleg tillitssemi verða til þess að menn veigruðu sér við að grípa inn í strax og menn sýndu þess merki að aðhyllast ofstækisfullar skoðanir. Ríkisstjórnin hyggst setja áhrifamikla leiðtoga íslamista í einangrun innan fangelsanna og hefur lagt fram frumvarp sem takmarkar rétt þeirra til að kvarta um að mannréttindi séu á sér brotin, því að þeir hefðu notað tilhæfulausar kvartanir um rasisma og íslamófóbíu gegn vörðunum til að ná völdum innan fangelsanna.

Ef þessi tilraun gengur vel hjá Dönunum þá má búast við að fleiri lönd fylgi á eftir og ekki þýðir að kvarta um íslamófóbíu í Kosovo þar sem nær allir eru múslimar.

Skildu eftir skilaboð