Fjölmiðlar reyna að hafa áhrif á val kjósenda – ekki öll framboð með í kappræðum

frettinPistlarLeave a Comment

Jóhannes Loftsson,verkfræðingur og oddviti Ábyrgar Framtíðar, er ósáttur við að fjölmiðlar skuli ekki bjóða öllum flokkum sem eru í framboði til sveitastjórnarkosningunum í Reykjavík að taka þátt í kappræðum og spyr til hvers verið sé að greiða fjölmiðlum hundruð milljóna í rekstrarstyrki ef þeir bera ekki meiri virðingu fyrir lýðræðinu en þetta? Jóhannes segir að um aðför að lýðræðinu sé að ræða og með þessari framkomu séu helstu fjölmiðlar, sem fá hundruð milljóna af skattfé borgarana, að reyna að hafa áhrif á val kjósenda.

Pistill Jóhannesar er á facebook og er svohljóðandi:

Til að raunverulegar breytingar eigi sér stað í samfélaginu, þarf stundum að vera hægt að kjósa inn ný öfl og nýjar hugmyndir. Ný framboð geta því gegnt afar mikilvægu hlutverki að leiða þjóðina í nýjar og oft betri áttir.

Þessu eru stórir fjölmiðlar eins og Stundin, Morgunblaðið og Stöð 2 greinilega ekki sammála og eru að beita valdi sínu aktíft gegn nýjum framboðum í Reykjavík. Í kappræðum sem þessir fjölmiðlar hafa verið með hafa þeir útilokað tvö nýjustu framboðin. Til að setja þetta í samhengi þá mundi einhverjum Sjálfstæðismanninum líklega verða aðeins um ef þeirra flokkur væri útilokaður með þessum hætti.

Nú er það alveg skiljanlegt að fjölmiðlar geti verið hliðhollir ákveðnum öflum sem þeir beita sér fyrir og kannski ekkert óeðlilegt að fleiri viðtöl birtist við þá stjórnmálamenn sem þeir eru sammála. En þegar kemur að kappræðum, sem eru til þess að gefa kjósendum val þannig að þeir að lágmarki viti hvaða valkostir eru í boði svo kjósendur sjálfir geti tekið upplýsta ákvörðun um hvaða flokk á að kjósa. En þetta val vilja hinir stóru fjölmiðlar ekki gefa sínum áhorfendum. Þeir eru búnir að velja fyrir þá.

Þessi framsetning Stundarinnar, Stöðvar 2 og Morgunblaðsins með sínum kappræðum er ekki lýðræðisleg heldur aðför að lýðræðinu. Allir flokkar sem bjóða sig fram í borginni hafa þegar farið í gegnum inntökuprófið með meðmælasöfnun og uppstillingu lista, þannig að með því að útskúfa nýjum flokkum úr sínum kappræðum eru þessir fjölmiðlar freklega að reyna að hafa áhrif á hið lögbundna lýðræðislega ferli.

Finnst fólki þetta virkilega eðlilegt?

Vill fólk virkilega bara geta kosið það gamla sem aldrei breytir neinu? Ábyrg framtíð er eini flokkurinn sem talar fyrir tvöfalt meiri styttingu en Sundabraut með Viðeyjarleið. Ábyrg framtíð er eini flokkurinn sem talar fyrir að efla dagforeldrakerfið eins og gert er í nágrannaþjóðunum. Ábyrg framtíð er eini flokkurinn sem talar fyrir að efla Reykjavíkurflugvöll með meira millilandaflugi þ.a. tekjur komi inn og hægt sé að laga flugvöllinn m.t.t. hljóðvistar. Ábyrg framtíð er eini flokkurinn sem tala fyrir að allar framkvæmdir í Reykjavík fari í óháð mat áður en fjárhagsskuldbinding er gerð, líkt og gert er í nágrannalöndunum, til að útrýma illa undirbúnum verkefnum og stöðva sóun í borginni.

Finnst fólki virkilega ekki eðlilegt að kjósendur hafi val um að kjósa slíkar lausnir? Til hvers er verið að greiða þessum fjölmiðlum hundruð milljóna í rekstrarstyrki ef þeir bera ekki meiri virðingu fyrir lýðræðinu en þetta?


Skildu eftir skilaboð