36 umsóknir um skaðabætur eftir Covid bólusetningar hafa borist íslenska ríkinu

frettinInnlendarLeave a Comment

Hér á landi voru sett lög um bætur vegna bóluefnaskaða um það leyti sem COVID bólusetningar hófust. Sjúklingatryggingar bætir tjón þeirra sem fá bólusetningu á Íslandi gegn COVID-19 sjúkdómnum á árunum 2020-2023 með bóluefni frá íslenskum heilbrigðisyfirvöldum.

Skilyrði bótaskyldu er að tjón megi að öllum líkindum rekja til bólusetningar gegn Covid-19 sjúkdómnum og að tjónið nái lágmarki bóta samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu.

Samkvæmt svari Sjúkratrygginga við fyrirspurn Fréttarinnar, hafa stofnuninni borist 36 umsóknir um bætur, þrjár þeirra hafa verið samþykktar en engar greiðslur átt sér stað. Eftir á að meta hvað verður greitt, segir í svari Sjúkratrygginga.

Lyfjastofnun hefur borist 6165 tilkynningar um aukaverkanir af völdum Covid bóluefnanna, þar af teljast 297 þeirra alvarlegar. Alvarleg aukaverkun samkvæmt skilgreiningu Lyfjastofnunar er aukaverkun eða óæskileg áhrif lyfs sem leiðir til dauða, lífshættulegs ástands, sjúkrahúsvistar eða lengingar á sjúkrahúsvist, veldur fötlun eða fæðingargalla hjá mönnum. Einnig eru þær tilkynningar sem taldar eru klínískt mikilvægar flokkaðar sem alvarlegar. Þá telst aukaverkun eða óæskileg áhrif lyfs sem leiðir til dauða eða veldur ólæknandi eða langvarandi sjúkdómseinkennum hjá dýrum vera alvarleg aukaverkun.“

Hér má lesa síðustu sundurliðun Lyfjastofnunar á alvarlegum aukaverkunum eftir tegund Covid bóluefnis. Stofnunin býður ekki upp á frekari sundurgreiningu á tilkynntum aukaverkunum eins og t.d. bandaríski gagnagrunnurinn VAERS, þar sem hægt er að sjá greinargóðar lýsingar á tilkynntum tilfellum.

Lyfjastofnun birtir töflu með enskum heitum yfir tilkynnt tilfelli sem hún sendir til EudraVigilence, sem er evrópskur gagnagrunnur yfir grunaðar aukaverkanir bóluefna.

Upplýsingar Lyfjastofnunar Íslands sýna til dæmis að stofnuninni hafi borist 1403 tilkynningar þar sem grunur liggur á að Covid bóluefnin hafi valdið aukaverkun í taugakerfi, 1251 í móðurlífi og brjóstum, 210 í augum/sjón, 184 tilfelli tengjast hjarta, 51 ónæmiskerfinu, 26 meðgöngu, o.s.frv.

Skildu eftir skilaboð