Fræðimenn gagnrýna Black Lives Matter samtökin

frettinIngibjörg Gísladóttir, PistlarLeave a Comment

Nú þegar menn eru hættir að knékrjúpa til að sýna BLM (Black Lives Matter) samtökunum stuðning þá gæti verið orðið mögulegt að horfa á þau gagnrýnum augum. Á Fox News er haft eftir íhaldssama blaðamanninum (sjaldgæfir fuglar) Jason Riley að samfélög svartra séu verr stödd en áður því BLM hafi einblínt á vandamál tengdum laganna vörðum og gert þá varfærnari og ólíklegri til að hafa afskipti af svörtum svo að glæpamennirnir hefðu nú frítt spil. Hann bendir á að í 97- 98% tilfella morða á svörtu fólki þá eigi lögreglan ekki hlut að máli. Í greininni er graf sem sýnir fjölda myrtra blökkumanna eftir árum og fer föllnum stöðugt fjölgandi.

Einnig er spjallað við Carol Swain, fyrrum lagaprófessor við Vanderbilt háskólann. Hún hefur reyndar aldrei heillast af BLM, eða marxisma enda "self made". Í æsku var hún svo fátæk að hún átti ekki skó og gat því ekki farið í skólann ef snjóaði. Hún segir að hver sæmilega skynsamur maður myndi eiga erfitt með að benda á að hvaða leyti aktívismi BLM hefði gagnast samfélagi svartra. BLM hefði rangsnúið réttarkerfinu svo að mál væru nú flutt í fjölmiðlunum og hrætt dómara og kviðdómendur til hlýðni. Leiðtogar samtakanna hefðu engan áhuga á að leyfa réttarkerfinu að hafa sinn gang eða að telja menn saklausa þar til sekt væri sönnuð.

Swain segir að BLM einblíni á stök dæmi um ofbeldi lögreglu en hunsi hina hryllilegu glæpi er svartir fremja gegn svörtum á hverjum degi í borgum alls staðar í landinu. Margir "progressives," hvítir sem svartir, hafi tileinkað sér þá hættulegu hugmynd að það sé réttur svartra að bjóða lögreglunni birginn og hlýða ekki fyrirskipunum hennar. Slíkt grafi undan lögum og reglu en auki á glæpsamlega hegðun. Hún segir að samfélag svartra muni sjá breytingar þegar nógu margir leiðtoga þeirra kalli eftir afturhvarfi til þeirra gilda og grunnreglna er fyrri kynslóðir höfðu, en þær hafi virt mannslífin, verið stoltar af samfélögum sínum og leitast við að bæta tilveru sína með einstaklingsframtaki og hugvitsemi (hugmyndir hennar féllu ekki í kramið meðal woke nemenda Vanderbilt).

Í greininni kemur fram að kallið um minni löggæslu (helsta krafa BLM) sé ekki meirihlutakrafa svartra því samkvæmt Gallupkönnun frá því í ágúst 2020 vildi 81% svartra Bandaríkjamanna hafa lögregluna jafn lengi eða lengur í sínu hverfi en 19% vildi sjá minna af henni. Leiðtogar BLM virðast hafa stjórnast af eiginhagsmunum. Langstærsti hluti þess söfnunarfjár er þeim barst virðist horfinn en fréttir berast af húsakaupum í dýrum, hverfum, svo sem af 6 milljóna dollara glæsihýsi í Kaliforníu, partíum og fleiru. Bókin um Félaga Napóleon kemur upp í hugann. Dýrin gerðu uppreisn gegn óréttlátu kerfi en í lok bókarinnar sést enginn munur á svínunum og bændunum í nágrenninu. Sumir eru nefnilega jafnari en aðrir.

Skildu eftir skilaboð