Eftir Arnar Sverrisson sálfræðing:
Kona er nefnd Yeonmi Park. Hún fæddist árið 1993 i Norður-Kóreu í námunda við landamæri Kína. Faðir hennar var handtekinn fyrir ólöglega verslun, smygl. Þrettán ára gömul flúði hún ánauðina, ásamt systur, þremur árum eldri. Hungurvofan vofði yfir eins og stórum hluta heimsbyggðarinnar um þessar mundir.
Yeonmi lýsir eigin reynslu af kúgandi samfélagi og leiðtogadýrkun. Hugsun fólks, jafnvel tungumálið sjálft, var undir eftirliti stjórnvalda. Yeonmi nefnir í fyrirlestri spaugilegt dæmi. Henni hafði ævinlega verið sagt, að Foringinn legði nótt við nýtan í þágu þjóðar sinnar. Fyrir hugskotasjónum Yeonmi var hann hálfhorfallinn eins og almúginn, sem hann skammtaði hrísgrjón úr hnefa. Það var fyrst, þegar hún kom suður fyrir landamærin, að það rann upp fyrir henni, að karl væri sílspikaður. Hún lærði þar með nýtt hugtak.
Foreldrar Yeonmi sameinuðust dætrunum í Kína. Þegar faðir hennar lést, afréð hún og móðirin að flýja til Mongólíu. (Eldri systirin hafi skilist frá þeim.) Þær komust við illan leik yfir Gobi eyðimörkina, tilbúnar með hnífana til að stytta sér aldur, ef illa færi, og þær neyddar til að hverfa aftur til Norður-Kóreu. Mútur dugðu til að þeim væri hleypt inn í Mongólíu.
Flótta Yeonmi var þar með ekki lokið. Árið 2009 tókst henni og móðurinni að komast til Suður-Kóreu. En Kim il-sung (1912-1994) og sonurinn, Kim Jong-un (f. 1984) höfðu tekið sér bólfestu í huganum. Yeonmi trúði því enn, að Foringinn gæti lesið hugsanir hennar.
Þegar hún las bók George Orwell (1903-1950) um „Dýrabýlið“ (Animal Farm), náði hún að hrista Leiðtogann af sér. En það var, þegar hún las framtíðarskáldsögu hins breska höfundar, „1984,“ að rann upp fyrir Yeonmi, að það hafði einungis þurft alræði yfir þrem kynslóðum til að skapa hliðstætt ríki í Norður-Kóreu.
Líf Yeonmi er þyrnum stráð. Hún var m.a. seld í ánauð og nauðgað. En frelsisbaráttan er sigur hennar. Fórnarlamb er ég ekki, segir hún. Frelsi til að heyra um og lesa hugmyndir, andstæðar hinum viðurkenndu og leyfðu, er kjarninn í frelsishugtaki þessarar hugdjörfu og gáfuðu konu. „Fjölmiðlun og upplýsing handan kerfisins frelsa okkur,“ segir hún.
Yeonmi lauk grunnmenntun í Suður-Kóreu. Árið 2014 sótti hún framhaldsmenntun til Bandaríkja Norður-Ameríku. Hún settist á skólabekk í einum af stjörnuháskólum BNA, Columbia. Smám saman sótti að henni hrollur. Minningarnar frá Norður-Kóreu gerðust ágengar. Á námskeiðunum var gerð krafa um stjórnmálalegan rétttrúnað og rétta hugsun. Yeonmi neyddist að temja sér eins konar sjálfsritskoðun. „Raunar hvarflaði að mér, að hér færi fram menningarmorð, að við værum að ganga af okkur dauðum,“ segir hún.
Til að mynda lærði Yeonmi, að leyfði hún karlmanni að opna fyrir sig dyr, væri hún þar með að samþykkja drottnun hans. Þegar Yeonmi maldaði í móinn og sagði það háttprýði og umhyggju, stóð ekki á svari kennarans. Það er innræting frá móðurlandinu.
Spurningu kanadíska sálfræðingsins, Jordan Bernt Peterson (f. 1962) um mat hennar á náminu, segir Yeonmi: „Maður lifandi! Þessi fjögur ár frá 2016-2020 voru algjör vitfirring.“ Hún lauk þó námi í hagfræði, en lærði á leiðinni, að austurríski tónjöfurinn, Wolfgang Amadeus Mozart (1756-1791) hefði verið kreddukarl og enski rithöfundurinn, Jane Austin (1775-1817), varhugaverður nýlendusinni.
Háskólanámið tímaeyðsla - frelsið þarf að vernda
Það var draumur pabba, að ég hlyti háskólamenntun. En menntun mín við Columbia háskólann var tímaeyðsla, gagnslaus og dýr. Ég mun ekki greiða fyrir slíka menntun sonar míns, segir Yeonmi.
Hún skrifaði baráttu- og reyslusögu sína: „In Order to Live. A North Korean Journey to Freedom,“ sem kom út árið 2015.
Frelsisskerðing og hugstjórnun færist hratt í vöxt í veröldinni. Norður-Kóreumenn feta dyggilega í fótspor Kínverja í öllu því, sem að eftirliti og skerðingu málfrelsis lýtur. Í flokksræðisríkjum eða alræðisríkjum kemur það varla á óvart.
En því miður gætir sömu tilhneigingar á Vesturlöndum. Ríkisstjórnir auka stöðugt eftirlit með þegnunum og leggja áherslu á rétttrúnað og skerðingu málfrelsis eins og nýlega hefur sést í veiruvitfirringunni og í Úkraínustríðinu.
Með hliðsjón af sögu Yeonmi er hollt að hugsa sinn gang. Henni hefur nefnilega lærst, að frelsið þurfi að vernda og fyrir því að berjast.