Eftir Pál Vilhjálmsson kennara og blaðamann:
Ruglingur á Írak og Úkraínu hjá George W. Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, í áróðursræðu fyrir stjórnina í Kænugarði er neðanmálsgrein í sálfræðihernaðinum í Úkraínustríðinu.
Sálfræðistríðið fer fram fyrir opnum tjöldum í fjölmiðlum og fyrir hálfri gátt á samfélagsmiðlum. Í bakherbergjum er plottað og spunnið. Því er slakað út sem talið er að bitið verði á. Svo er slúðrað maður á mann.
Eins og í raunstríðinu á jörðu niðri og í lofthelginni yfir Garðaríki stendur yfir seinni hálfleikur í sálfræðihernaðinum. Í fyrri hálfleik vegnaði stjórninni í Kænugarði vel með Selenskí forseta sem fyrirliða.
Víxlverkun er á milli raunstríðs og sálfræðihernaðar. Til skamms tíma helst baráttuvilji á vígvellinum í krafti yfirþyrmandi velvildar alþjóðar. Litlir sigrar eru gerðir stórir, t.d. brotthvarf Rússa frá úthverfum Kænugarðs og úkraínska sóknin síðustu tíu daga norður af Karkif.
Meginherir Rússa og Úkraínumanna etja kappi í austurhéruðum, Donbass. Þaðan er fátt gott að frétta fyrir Kænugarð. Skipulegt undanhald er herfræði Úkraínuhers þar eystra. Ef ekki er haldið vel á spilum gæti framvindan orðið óskipulagðar hrakfarir.
Meðfram betri stöðu á vígvellinum auka Rússar við sálfræðihernaðinn. Þeir túlkuðu umsóknir Finnlands og Svíþjóðar um Nató-aðild sem fyrsta skref vesturlanda frá Úkraínu. Í gær birti rússneska fréttaveitan RT frásögn af reglulegum samtölum bandarískra og rússneskra herforingja. Yfirbragð fréttarinnar er að dagskráin sé staðan eftir Úkraínustríðið. Nærtæk ályktun er að handverksmenn í stríðsfaginu sjái leikslokin fyrir. Í sama knérunn hjó bandaríski varnarmálaráðherrann fyrir nokkrum dögum þegar hann fór fram á vopnahlé. Á sigurbraut biðja menn ekki um leikhlé.
Uppgjöfinni í Asovstálsmiðjunni er fylgt eftir með fréttum að úkraínskir hermenn leggi niður vopn í Donbass. Á eru floti kenningar um að úkraínska herstjórnin sé þreytt á afskiptum Selenskí forseta og ráðgjafa hans. Misklíð á æðstu stöðum fóðrar vonleysi.
Stríð vinnast og tapast á vígvellinum. En baráttuþrek á vettvangi ræðst af tiltrú. Þegar saman fara ósigrar í vopnaviðskiptum og sálfræðihernaði er stríðstaugin þanin til hins ítrasta.