Eftir Arnar Sverrisson:
Gríski sagnaritarinn, Hómer (f. -928), var tilbeiðandi blóðsúthellinga; enska skáldið, John Milton (1608-1674) misnotaði dætur sínar; austurríski tónjöfurinn, Wolfgang Amadeus Mozart (1756-1791) og þýski tónsnillingurinn, Ludwig van Beethoven (1770-1827) voru kynóþokkar, eins og gríski heimspekingurinn, Aristóteles (-384-322); enska skáldið, Jane Austin (1775-1817), var nýlendukúgari.
Og eiginlega stálu karlvísindamenn oftast vísindaheiðrinum af eiginkonum sínum, sem er enn þá ein sönnun eitraðrar karlmennsku. Þetta er nokkur dæmi af mörgum um áherslur og þróun í hug- og félagsvísindum hinna betri háskóla í vesturvegi.
Þetta veldur ýmsum áhyggjum. T.d. kanadíska blaðamanninum, Rex Murphy (f. 1947). Hann hlaut menntun í enskum bókmenntun í heimalandi sínu og við háskólann í Oxford í Englandi. Rex hefur um langa ævi fylgst með þróun vísindanna. Hann segir m.a.:
„Hugvísindin eru samkvæmt mínum dómi hin versta lágkúra – vansæmd. … Það sorglegasta, sem yfir Vesturlönd hefur dunið, er innkoma annars flokks hugsuða, pótintáta stjórnmálanna með áróður í farteskinu í stað kennslu. Við höfum nær því gengið af sál háskólanna dauðri.“
Það er af sem áður var: Háskólarnir „dýrkuðu bestu sköpunarverkin, það besta, sem efst var á baugi, hverju sinni, afburðahugsuði, fáguðustu vísindin. Og þau lögðu að nemandanum þakklæti fyrir framlag þeirra afbragðshugsuða, sem skipt hafa sköpum fyrir mannkyn allt.“
Hann ráðleggur foreldrum að senda börn sín ekki í háskóla, nema þá helst til að nema raungreinar. En þar eru reyndar einnig blikur á lofti. Kvenfrelsunarþekkingarfræðin hefur sömuleiðis náð þar fótfestu, þ.e. sú trú, að tilfinningalegt hugboð í anda kvenfrelsunar sé undirstaða algildrar þekkingar. Jákvæð mismunun, þ.e. ráðning kvenna í stað hæfari karla til að bæta fyrir kúgun kvennanna frá upphafi vega, er einnig orðin áberandi. Í þessum jarðvegi er nú kennd kvenfrelsunareðlisfræði, -stærðfræði, -jöklafræði, -landbúnaðarfræði og þar fram eftir götunum.
Philip Carl Salzmann, prófessor i mannfræði við McGill háskólann í Kanada, tekur í svipaðan streng:
„Stjórnmálaleg hugmyndafræði hefur komið í stað fræðimennsku og rannsókna, því hugmyndafræðingar hafa á reiðum höndum svör við öllum spurningum. Þetta á einkanlega við um félagsvísindi, hugvísindi, menntunarfræði, félagráðgjöf og lögfræði. Og þrátt fyrir, að þung lögð sé áhersla á fjölbreytileika við háskólana með tilliti til kynþáttar, kyns, kynlífs, þjóðernis, stéttar, svo og andlegrar og líkamlegrar hæfni, er horfin fjölbreytni skoðana.“
Hin kanadíska Janice Fiamengo, fyrrum prófessor í ensku við háskólann í Ottawa, tekur undir orð Philip:
Nú snýst nám í háskóla ekki lengur um „að nema tiltekna háskólagrein, heldur lífið sjálft, sjálfseflingu, umhverfisnæmi, stjórnmálalega aðgerðahyggju, sniðgöngu Ísraels, kvenfrelsunarskuldbindingu – allt, nema bækur.“
Hún heldur áfram: „Síðustu fjóra ártugina hefur geisað óviðri, sem skekið hefur innviði háskóla, svo þeir eru vart þekkjanlegir; námsskrár, viðhorf og hátterni nemenda og kennara – en gildi og köllun hefur beðið alvarlegt tjón.“
Stjórn háskólans í Ottawa segir nám ekki hafa gildi í sjálfu sér, heldur snúist það um að sameina fræðimennsku og félagslegan tilgang, þ.e. menningarfjölhyggju, sjálfbæra þróun og jafnrétti.
Kennarar eru ráðnir að æðri menntastofnunum, samkvæmt stjórnmálalegri sannfæringu, þ.e. kvenfrelsun og/eða eymdarróttækni (woke) og/eða afstöðu til kynþátta og/eða færni í kynleysufræðum. Wenyuan Wu, framkvæmdastjóri félagskaparins, „Kaliforníubúar í þágu jafnréttis“ (Californians for Equal Rights), segir:
„Háskólinn í Kaliforníu er ein umsvifamesta stofnun æðri menntunar í veröldinni. Haustið 2018 innrituðust þar 286.271 námsmenn. Við þessa tröllauknu stofnun fara sífellt minni fjármunir til kennslu og ráðningar kennara. Kennsla í vitundarvakningu (woke) um réttlæti og jafnrétti fer hins vegar vaxandi.
Lögfræðideildin í Borg Englanna (LA) auglýsti t.d. fyrir skemmstu eftir forstjóra átaksverkefnis á sviði gagnrýninna kynþáttafræða. Samtímis auglýsti annar skóli eftir forstjóra stefnumótunar, en hann skal „hafa umsjón með stefnumótun, rannsóknun og skrifum um kynhneigð og lög um kynrænan sjálfsskilning.“
Hermt er, að Háskólinn í Berkeley eyði 25 milljónum dala árlega til fjármögnunar fjögur hundruð manna liðs til að stuðla að „réttlæti og innlimun.“
„Bæði opinberar og einkareknar stofnanir æðri menntunar eyða og spena gríðarlegum upphæðum til ráðningar alls konar óþarfastarfsmanna. [Þær] eyða [sömuleiðis] ótæpilega í tilskipanir um rétttrúnað, réttlæti og innlimun. Flestar hinna tíu merkustu menntastofnanna í Bandaríkjum Norður-Ameríku taka þetta fram í yfirlýsingum um ætlunarverk (mission) sitt - eða [þá] andkynþáttahyggju. Fjölbreytni í hugsun er varla nefnd á nafn.“
Það er miklu víðar, að kennarar séu ekki ráðnir, nema yfirlýsingar í ofangreindum anda séu undirritaðar eða gerð grein fyrir þeim með öðrum hætti. Wenyuan heldur áfram:
„En þessar ónauðsynlegu uppljóstrunarsæringar (social engineering) hafa ekki haft í för með sér aukinn árangur við æðri menntastofnanir. Niðurstöður nýrrar rannsóknar frá “Þjóðhagsrannsóknarstofnun“ (National Bureau of Economic Research) bendir t.d. til, að brottskráningar úr háskólum ráðist af lægri kröfum og einkunnabólgu. Hnignun æðri menntunar hefur einnig haft í för með sér slæmar afleiðingar með tilliti til samkeppnishæfni á heimsvísu.“ Fyrirsjáanlegur er skortur á fólki með menntun á tækni- og raunvísindasviði (STEM).“
Wenyuan segir að lokum: „Það gæti verið tími til kominn að stokka upp og endurvekja trú á eiginlega víðsýni og frelsi (liberal) í æðri menntun.“
Öruggu svæðin (safe spaces) eru önnur nýlunda í starfi háskóla. Þau eru sprottin úr jarðvegi kvenfrelsunaráróðurs í þá veru, að karlnemendur sitji um kvennemendur til að beita þá kynofbeldi. Því þurfi þær á slíkri vernd að halda – og sömuleiðis fyrir fræðilegum áskorunum. (Náskylt fyrirbæri eru kynáreitnivarnabílastæðin í Hörpu fyrir konur.)
Í þessu ljósi skyldi engan undra, að kennt sé sérstaklega um óværuna, ofbeldiskarlinn. T.d. er við háskólann í Kansas boðið upp á fræðigreinina; „karlbleiknefjabræðifræði“ (Angry white male studies), þar sem kafa á niður til „hinnar dýpri uppsprettu þessa tilfinningaástands og samtímis ígrundaðar nýlegar birtingarmyndir þess“ í Bandaríkjum Norður-Ameríku og Bretlandi frá miðri síðustu öld.
Í námsskrá stendur: „Í þessu námsskeiði er rýnt af þverfaglegum sjónarhóli og til mergjar brotið, hvernig bæði drottnunar- og undirlægjukarlmennska tákngerist og myndbirtist á hraðbergi í menningu á hverfanda hveli - í tengslum við nútímann sem og kvenréttindahreyfingar, hörundsdökkt fólk, samkynhneigða og kynskiptinga.
Grein Arnars með heimildum.