Páll Vilhjálmsson kennari og blaðamaður skrifar:
„Kynami er sú hugmynd eða upplifun að einstaklingur sé ekki af því kyni sem viðkomandi fékk úthlutað við fæðingu og geta lyfjameðferðirnar leitt til kynleiðréttingaraðgerðar,“ segir í umfjöllun Stundarinnar um transbörn. Í myrkri aktívisma og fákunnáttu, fullyrðir fyrirsögnin. Samkvæmt viðtengdri frétt er eitthvað enn ósagt um „upplifunarvísindi.“ Líklega að þau séu ritrýnd og staðfest að upplifun í dag verður sú sama og á morgun. Hvar værum við án blessaðra vísindanna?
Einu sinni voru börn spurð hvað þau ætluðu að verða þegar þau yrðu stór, segir þáttastjórnandinn Bill Maher og bætir við: það var verið að spyrja um starfsvettvang - ekki kyn. Eða kynjaupplifun.
Kynami er til, a.m.k. sem hugmynd, en ekki eru fréttir af meðvitundarama. Möguleikinn að fæðast með ranga meðvitund er þó til muna nærtækari en að fæðast með rangan líkama. Meðvitundin er margfalt flóknara fyrirbæri en líkaminn, óteljandi atriði eru breytingum undirorpnar. Til dæmis að upplifa eitt í dag og annað á morgun.
Hægt er að skilgreina virkni líkamans á líkan hátt og starfsemi véla. Líkamspartar eru aðgreinanlegir, lausnir á krankleika oftar tæknilegar en fræðilegar. Engum hefur enn tekist að útskýra meðvitundina á sambærilega vegu. Meðvitundin verður ekki smættuð í aðgreinda hluta. Mekanísk skilgreining á meðvitundinni er óhugsandi. Ekki heldur á upplifun.
Skrokknum má breyta á þennan eða hinn veginn en öllu snúnara er að „lagfæra“ meðvitundina. Til að grípa inn í heilastarfsemina með lyfjum, skurði og geislum þarf afar sterk læknisfræðileg rök. En undir formerkjum kynama virðist leyfilegt að dæla lyfjum í líkamann og skera og sauma vegna „upplifunar“. Allir eldri en tvævetra vita að upplifun í dag getur verið allt önnur á morgun. Gildir ekki síst um ungt fólk er þreifar sig áfram í lífinu.
Í menningu okkar er hverjum og einum heimilt að skilgreina sig á hvaða hátt sem vera skal. Umburðalyndið er með réttu kennt við frjálslyndi. Allur þorri manna gengur að umburðalyndinu vísu og abbast ekki upp á sérvisku eins og að kenna sig við sjöunda kynið eða telja sig komna af týndu ættkvísl Abrahams, svo dæmi sé tekið af handahófi. Einhverjir skilgreina sig sem Púlara aðrir sem FH-inga; þeir sem eiga mest bágt kallast vinstrimenn.
Iðulega gætir óþols af hálfu minnihlutahópa þegar almenningur heldur í sjálfsögð sannindi að kynin séu tvö og líffræðilega ákveðin. Minnihlutahópum finnst hvergi nærri nóg að Jón og Gunna umberi sérviskuna. Minnihlutahópurinn segist triggeraður og umbreytist í frekjukallinn sem krefst að allir játi eina skoðun á lífinu og tilverunni.
Ef freki minnihlutakallinn talaði einum rómi og segði sæmilega skýrt hver sé gildandi rétttrúnaður væri kannski hægt að efna til samtals í von um niðurstöðu - í það minnsta málamiðlun.
En það er ekki hægt. Einn minnihluti í dag er þrír minnihlutahópar á morgun. Svipað og hjá íslenskum vinstrimönnum. Ný sérviska þarf nýjan flokk.
Og af því að við erum að tala um pólitík. Framsóknarflokkurinn virðist hafa áttað sig á þversögn minnihlutafrekjunnar, að hún er marghöfða þurs og ekki samræðuhæf, á meðan Sjálfstæðisflokkur stundar friðþægingarstefnu. Árangurinn er sá að Framsókn nartar í hælana á Sjálfstæðisflokknum.
Hamingjuskipti gætu orðið á flokkunum tveim, haldi fram sem horfir. Borgaraleg lífsviðhorf, ólíkt vinstrisérvisku, hreyfa sig hægt en ekki með gassagangi. Vistaskipti eru til langframa.