Viðskiptaþvinganir og mannréttindabrot

frettinInnlendar1 Comment

Eftir Jón Magnússon hæstaréttarlögmann:

Viðskiptaþvinganir eru slæmar og bitna bæði á þeim beita þeim og eru beittir þeim. Við höfum reynsluna með því að beita Rússa viðskiptaþvingunum, sem hafa eingöngu skaðað okkur.

En Vesturlönd hafa tekið það ráð að beita Rússa viðskiptaþvingunum og hertum viðskiptaþvingunum og enn hertari viðskiptaþvingunum. Þessar aðgerðir bitna á Rússum, en einnig á þjóðum Evrópu þannig að alvarlega horfir á sumum sviðum.

Sú var tíðin um nokkur hundruð ára skeið í Evrópu, að styrjaldir voru milli herja á vígvelli, en viðskipti borgaranna gengu fyrir sig eins og venjulega. Þegar Þjóðverjar settust um París í september 1870 þótti það brot á þeim óskráðu reglum í styrjöld að styrjaldarrekstur ætti ekki að bitna á óbreyttum borgurum

Nú þykir það því miður ekki tiltökumál þó að stríðsrekstur bitni á óbreyttum borgurum eignir þeirra eyðilagðir og þeir drepnir.

Í þrjátíu ár hafa Evrópubúar getað ferðast landa á milli með tiltölulega litlum takmörkunum og fólk hefur sótt sér vinnu í ýmsum þjóðlöndum. Þannig hafa þjóðir Austur Evrópu sótt til Vesturlanda eftir að þeir losuðu sig við ok kommúnismans. Í þessum hópi hafa verið rússneskir ríkisborgarar eins og Úkraínskir, litháískir eða pólskir o.fl. o.fl. Umtalsverður fjöldi vinnandi fólks af þessum þjóðernum hefur því búið og starfað um alla Evrópu undanfarna áratugi.

Nú bregður svo við, að Vesturlönd ákveða að fólki með rússneskt ríkisfang á Vesturlöndum skuli refsað sérstaklega m.a. með því að takmarka ferðafrelsi, skrá ekki eigur þeirra og takmarka eða loka á bankaviðskipti. Í flestum tilvikum er ekki verið að tala um ólígarka eða ofurríka einstaklinga heldur venjulegt vinnandi fólk, sem hefur ekki önnur samskipti við Rússland en í gegnum ættingja og vini og ræður engu um innanlandsstjórnmál þar í landi. Hvað réttlætir þá að beita fólk af rússnesku bergi brotið víðsvegar í Evrópu sérstökum refsiaðgerðum þó það hafi ekkert til saka unnið og hafi ekkert með stríð við Úkraínu að gera.

Finnst okkur réttlætanlegt að mismuna fólki í okkar landi eftir þjóðerni? Finnst okkur rétt að starfsfólk og annað venjulegt fólk af rússnesku bergi brotið njóti ekki sömu mannréttinda og aðrir í okkar landi og geti notið atvinnufrelsis og átt eðlileg bankaviðskipti óháð því að ríkisfangið sé rússneskt.

Hvernig verður það réttlætt, að við mismunum fólki á grundvelli þjóðernis þegar í íslensku stjórnarskránni 65.gr. segir:

Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Er ekki rétt að íslenska ríkisstjórnin skoði þessi mál í þaula og gangi ekki á mannréttindi fólks vegna þjóðernis.

One Comment on “Viðskiptaþvinganir og mannréttindabrot”

  1. Já, en Rússar eru ekki menn og þá gilda ekki mannréttindi. Segir sig sjálf, dööö.

Skildu eftir skilaboð