Eftir Pál Vilhjálmsson blaðamann og kennara:
Páll skipstjóri Steingrímsson er ekki eini brotaþolinn í RSK-sakamálinu þar sem blaðamenn RÚV, Stundarinnar og Kjarnans eru sakborningar. Tilfallandi athugasemdir geta staðfest að a.m.k. einn annar einstaklingur en skipstjórinn er með stöðu brotaþola í sakmálinu.
Páli var byrluð ólyfjan 3. maí í fyrra. Á meðan hann lá á gjörgæslu var síma hans stolið og innihaldið afritað á Efstaleiti, höfuðstöðvum RÚV. Símanum var skilað á sjúkrabeð Páls. Efni úr símanum birtist 21. maí í Stundinni og Kjarnanum.
Í greinargerð lögreglu frá 23. febrúar sl. segir að rannsóknin beinist að gagnastuldi, líkamsárás með byrlun, friðhelgisbroti og stafrænu kynferðisofbeldi.
Blaðamenn RSK-miðla sendu á milli sín einkagögn úr síma Páls þegar þeir lögðu á ráðin með að knýja hann til að falla frá kæru sem hann lagði fram 14. maí í fyrra, viku áður en Stundin og Kjarninn birtu fréttir unnar upp úr einkagögnum skipstjórans.
Óþekkti brotaþolinn var í samskiptum við Pál. Gögn um þau samskipti hafa blaðamenn RSK-miðla sent sín á milli og e.t.v. til fleiri aðila. Gögn lögreglu, sem verða lögð fyrir dóm, gætu sýnt að blaðamennirnir hafi ætlað að niðurlægja viðkomandi opinberlega með því að leka einkamálum til annarra, t.d. fjölmiðla.
Þegar Páll kærði byrlun og gagnastuld til lögreglu afhenti hann síma sinn. Staðsetningarbúnaður símans sýndi hvar tækið var á meðan það var í þjófahöndum. Þá var smitrakningarforrit í símanum er gaf upplýsingar um þá síma er nálægir voru snjallsíma Páls þann tíma sem blaðamenn handléku tólið. Á þessum grunni fékk lögreglan heimild til að hlera síma grunaðra blaðamanna.
Lögreglan safnaði gögnum sl. sumar og fram á haust. Fyrstu yfirheyrslur voru í október. Þann 14. febrúar var a.m.k. fjórum blaðamönnum tilkynnt að þeir hefðu stöðu sakborninga og boðaðir í yfirheyrslu. Einn blaðamannanna, Aðalsteinn Kjartansson á Stundinni, kærði til dómstóla að hann hefði fengið boðun í yfirheyrslu. Málið fór bæði fyrir héraðsdóm og landsrétt en hæstiréttur vísaði málinu frá. Blaðamennirnir gerðu með sér samkomulag um að einhver þeirra skyldi hverju sinni vera í útlöndum síðvetrar og fram á sumar til að tefja rannsókn málsins.
Á bakvið tjöldin reyndu RSK-miðlar og lögmenn þeirra að fá lögreglurannsóknina fellda niður. Í því skyni var m.a. haft samband við stjórnmálamenn og þeir beðnir að beita sér í málinu.
Um verslunarmannahelgina var útséð með tilraunir að hefta framgang réttvísinnar. Blaðamenn RSK-miðla mættu til lögreglu í byrjun ágúst. Í beinu framhaldi var Páli skipstjóra skipaður réttargæslumaður.
Saksóknari mun gefa út ákæru á hendur blaðamönnum RSK-miðla, líklega í september. Sennilegt er að Páll og e.t.v. óþekkti brotaþolinn muni höfða mál og krefjast miska- og skaðabóta.
Nær ekkert af ofansögðum fréttum birtist í fjölmiðlum. Þar starfa blaðamenn í anda samtryggingar. Yngsti fjölmiðillinn, Fréttin, er undantekningin sem sannar regluna. Í fjölmiðlum er ekkert misjafnt sagt um blaðamenn, þótt þeir séu sakborningar í alvarlegu sakamáli. Samt á svo að heita að blaðamenn og fjölmiðlar séu lýðræðinu mikilvægir. Hljóð og mynd fara ekki saman.