Arnar Þór: mannkynssagan uppfull af fasisma og óhóflegri valdbeitingu ríkja yfir þegnunum

frettinInnlendarLeave a Comment

Arnar Þór Jónsson hæstaréttarlögmaður, varaþingmaður og fv. héraðsdómari, hefur vakið athygli fyrir að vera óhræddur við að tjá óvinsælar skoðanir í fjölmiðlum undanfarin ár. Í þætti hjá Sölva Tryggvasyni, ræða hann og Arnar hlutverk ríkisins, mikilvægi þess að vera hugrakkur, hjarðhegðun og margt fleira.

Arnar segir mikilvægt að vera vakandi yfir því að dómstólar og löggjafinn sveiflist ekki eins og lauf í vindi eftir tíðaranda hverju sinni, það sé mikilvægt að veita valdhöfum aðhald og að almenningur sofni ekki á verðinum.

Arnar segist vera frjálslyndur maður og að honum hugnist ekki það stjórnlyndi sem margir boða og vill meina að fólk hafi oft ekki hugsað það til enda:

„Þeir sem eru stjórnlyndir í grunninn eru gjarnan á þeim stað að vilja hafa vit fyrir öðru fólki. Og ef það hentar þeirra málstað þá finnst þeim ekkert athugavert við að beita valdi ríkisins í þeim tilgangi að hafa vit fyrir öðrum. En þá áttar þetta fólk sig ekki á því að einn daginn gæti vald ríkisins snúist gegn þér. Þess vegna er gott að hafa það í huga þegar maður setur reglur að einn daginn gætu þessar sömu reglur verið notaðar af þeim sem maður er ósammála. Við gleymum því oft að mannkynssagan er uppfull af fasisma og óhóflegri valdbeitingu ríkja yfir þegnunum.”

Hann segir að rétttrúnaðurinn sem ráði ríkjum á Vesturlöndum í dag sé á ákveðinn hátt algjörlega sambærilegur kirkjunni í gamla daga, og segir:

„Við stöndum frammi fyrir þeim veruleika á Vesturlöndum í dag að vera gegnsýrð af kristnum siðaboðskap, sem væri kannski allt í góðu eitt og sér. En það er bara eitt vandamál. Það er búið að taka Guð, fyrirgefninguna og alla mildi og náð út. Í rétttrúnaðarkirkju samtímans erum við með sömu hluti og hafa fylgt kirkjunni í gegnum tíðina. Við erum með kredduna, æðstu prestana, rannsóknarrétt, ákæruvald, dóma og fólk er meira að segja pínt til að setja í skriftarstólinn og iðrast. Semsagt öll stofnanaumgjörðin er til staðar, en sálin er horfin, af því að það vantar guð, mildi og fyrirgefningu. Við verðum að spyrja okkur hvort þetta sé það sem við raunverulega viljum.”

Arnar minnir á að réttarríkið er einn af hornsteinum lýðræðisins og mikilvægt sé að verja það með öllum ráðum. Í alræðisríkjum er ekkert rými, ríkið mætir bara inn að dyrum hjá þér án þess að spyrja. Að sama skapi er þetta alveg í hina áttina í ríkjum sem eru stjórnlaus, þar er ekkert vald sem hefur hemil á einu né neinu. Við erum alltaf að reyna að finna rétta milliveginn þarna,“ segir Arnar.

Hægt er að nálgast viðtalið við Arnar Þór og öll viðtöl Sölva Tryggvasonar á solvitryggva.is

Brot úr þættinum má hlusta á hér neðar.


Skildu eftir skilaboð