Fjármála- og efnahagsráðuneytið birti í samráðsgátt stjórnvalda 6. júlí síðastliðinn, drög að reglugerð um heimildir einkaaðila til að birta gögn í stafrænu pósthólfi. Þrátt fyrir að titillinn láti ekki mikið yfir sér er þó um að ræða stórfellda breytingu á einu af grundvallaratriðum réttarkerfisins, þ.e. birtingu á stefnum og ýmisskonar tilkynningum sem geta haft réttaráhrif. Með reglugerðinni er fyrirhugað að veita einkaaðilum heimild til að nýta stafrænt pósthólf stjórnvalda (island.is) til að birta slík gögn með rafrænum hætti í stað þess að afhenda þau viðkomandi í eigin persónu eins og hingað til.
Að svo stöddu er þó aðeins ætlunin að veita tveimur flokkum aðila heimild til rafrænna birtinga, þ.e. lífeyrissjóðum og aðilum sem stunda löginnheimtu (innheimtulögmönnum).
Slíkum aðilum yrði þá heimilt að nota tölvukerfi ríkisins til að birta m.a. greiðsluáskoranir, beiðnir um nauðungarsölur eða fjárnám og stefnur til að höfða dómsmál í því skyni að innheimta kröfur.
Það vakna ýmsar spurningar vegna þessarar reglugerðar sem Hagsmunasamtök heimilanna myndu vilja fá svör við:
Hver fór fram á að þessi reglugerð yrði sett?
Af hverju er fjármálaráðherra að setja reglugerð í málaflokki sem heyrir ekki undir hann heldur dómsmálaráðherra?
Er það hlutverk ríkisstjórnarinnar að auðvelda einkafyrirtækjum aðfarir að almenningi, með því að draga úr möguleikum hans til að taka til varna, þegar fjölmörg dæmi sýna að oft er farið í slíkar aðgerðir á vafasömum forsendum?
Veit fjármálaráðherra að nú þegar er það svo að hægt er að ónýta réttindi neytenda gagnvart fjármálafyrirtækjum með því að halda réttarhöld af þeim fjarstöddum og dæmi um að það hafi verið gert? Vill ráðherra raunverulega fjölga slíkum tilfellum?
Þegar um er að ræða gjörðir sem hafa mikil áhrif á hagsmuni neytenda til langs tíma, er þá eitthvað að því að framkvæmdin hjá innheimtuaðilanum, útheimti aðeins meiri fyrirhöfn en einn músarsmell?
Hefur fjármálaráðherra kynnt sér það algjöra varnarleysi sem neytendur búa við gagnvart hverskyns kröfum fjármála- og innheimtufyrirtækja? Ef svo er, væri ekki réttara að ráðast í að bæta þá stöðu frekar en að auka enn á varnarleysið?
Þegar neytendur annars vegar og innheimtu- eða fjármálafyrirtæki hins vegar takast á, er aðstöðumunurinn vægast sagt gríðarlegur. Er það virkilega forgangsmál ráðherrans að koma þessari reglugerð á og auka þannig aðstöðumuninn enn frekar?
Veit ráðherra ekki að fjöldi fólks getur af ýmsum ástæðum ekki notað rafrænar lausnir á þessu sviði og því er gríðarleg hætta á að sá hópur verði ekki var við rafrænar birtingar og verði þannig beinlínis fyrir réttarspjöllum? Er það virkilega ætlun ráðherra að innleiða rafræna aðskilnaðarstefnu hér á landi?
Samkvæmt lögum um samskipti við hagsmunaaðila ber ráðherra að halda skrá yfir þau.
Hvaða samskipti við hagsmunasamtök fjármálafyrirtækja (SFF), lögmannafélagið eða aðra sem hafa hag af þessari reglugerðarsetningu hafði ráðherra og/eða ráðuneytið í aðdraganda þessarar reglugerðar, hversu mörg voru þau og á hvaða formi (fundir, símtöl, tölvupóstar)? Við óskum eftir öllu sem var skráð.
Hvaða samskipti við neytendaverndarsamtök hafði ráðherra/ráðuneytið í aðdraganda þessarar reglugerðar, hversu mörg voru þau og á hvaða formi (fundir, símtöl, tölvupóstar)? Við óskum eftir öllu sem var skráð.
Hagsmunasamtök heimilanna er fylgjandi innleiðingu rafrænna lausna og leggjast alls ekki gegn „pappírslausum viðskiptum" eins og í formi yfirlita og rafrænna greiðsluseðla en hér er um meira en það að ræða.
Hagsmunasamtök heimilanna mótmæla því harðlega að gengið verði á rétt neytenda frekar enn þegar er, með því að auðvelda innheimtuaðilum jafn afdrifaríkar aðgerðir og þegar kemur að greiðsluáskorunum, beiðnum um nauðungarsölur eða fjárnám og stefnur til að höfða dómsmál í því skyni að innheimta kröfur.
Varðandi aðrar athugasemdir vísa samtökin í umsögn sína við reglugerðina og óska formlega eftir svörum fjármálaráðherra við spurningum sínum. Hér er um gríðarlega stór hagsmunamál að ræða fyrir neytendur á fjármálamarkaði og í þessum málum þarf fyrst og fremst að tryggja að neytandinn sé sannanlega upplýstur um hvað standi til, að andmælaréttur hans sé virtur og að honum gefist raunhæft tækifæri til að taka til varna gegn óréttmætum kröfum.
Dómsmálaráðuneytið hefur ekki sinnt þeirri skyldu sinni og nú þegar fjármálaráðuneytið sér allt í einu ástæðu til að grípa inn í þennan málaflokk þá er það til að veikja málstað neytenda enn frekar. Það fordæma Hagsmunasamtök heimilanna og leggjast alfarið gegn umræddri reglugerð
Almenningur er ekki fóður fyrir innheimtulögmenn!
Hagsmunasamtök heimilanna